Brauð og körfuboltaleikar

Nú stendur yfir úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfuknattleik. Leikirnir eru allir háðir í Orlando þar sem leikmenn, þjálfarar, dómarar og fréttamenn hafa komið sér fyrir í veirufríum hliðarveruleika til þess að bjóða almenningi upp á afþreyingu og skemmtan. Þeir sem þekkja til í Bandaríkjunum vita vel hversu mikilvægar íþróttirnar eru í dægurmenningunni; þær eru leikarnir sem boðið er upp á—en skyndibitakeðjur og bjórframleiðendur bjóða upp á brauðið í föstu formi og fljótandi.

Mataræði Bandaríkjamanna er víðast hvar býsna bágborið af þessum sökum og líkamlegt heilsufar sömuleiðis. Áköfustu aðdáendur íþróttaliðanna eru að jafnaði ekki líkir hetjunum sínum í laginu.

Og vitsmunalegt ástand bandarísku þjóðarinnar markast eflaust líka að einhverju leyti af hlutfallinu á milli íþróttaumfjöllunar og heimspekilegra vangaveltna sem þorri fólks fylgist með í fjölmiðlum. Þetta hlutfall stefnir á óendanlegt, sem er þveröfugt við alþjóðlega virðingu sem forsetaembætti Bandaríkjanna nýtur; en það stefnir á núll.

Helstu foringjar í hópi NBA leikmanna skera sig úr. Í þeirra hópi finnast fjölmargir menn sem bersýnilega ættu margfalt erindi til áhrifa miðað við flesta bandaríska stjórnmálamenn um þessar mundir. Þegar þeir ákváðu að snúa aftur til leiks var það gert á forsendum leikmannanna sjálfra sem vildu ekki aðeins vekja aðdáun fyrir listfengi sitt og keppnishörku—heldur líka vekja athygli á þeim brýnu réttindamálum sem eru flestum þeirra hjartfólgin og nálæg.

Ólíkt formanni íslenska Moðflokksins, sem skrifaði langloku af hlægilegu þekkingarleysi í Morgunblaðið um Black Lives Matters, þá hafa flestir leikmenn NBA deildarinnar sjálfir búið við ranglæti, fordóma, fátækt og sorg stærstan hluta ævi sinnar. Þeir eiga vini og ættingja sem hefur verið ranglega misþyrmt, sem hafa farið út af sporinu og sem áttu aldrei möguleika. George Floyd var æskuvinur NBA-leikmannsins Stephen Jackson; og þeir sem þekktu Floyd sem ungan mann vissu hvers lags mótlæti hafði yfirbugað hæfileika hans.

NBA leikmennirnir krjúpa allir á kné undir bandaríska þjóðsöngnum í upphafi leikja; ekki af vanvirðingu við fánann og þjóðina—heldur af sorg yfir þeirri kaldranalegu staðreynd sem Doc Rivers, þjálfari LA Clippers benti á um daginn—„að eins mikið og þeir elska Bandaríkin þá sé erfitt að skilja af hverju ástin er ekki endurgoldin.“

Fremstir í flokki NBA leikmanna fara Lebron James og Chris Paul. Það þarf ekki að horfa lengi á viðtöl við þá til að sjá hvers lags yfirburðamenn þeir eru, og í raun ótrúlegt til þess að hugsa að augljós vitsmunalegur munur á forseta Bandaríkjanna og tveimur körfboltaköllum, sé boltapeyjunum í hag þannig að miklu muni. NBA leikmennirnir hafa notað áhrifavald sitt til þess að vekja athygli á brýnum pólitískum réttlætismálum á meðan Bandaríkjaforseti notar pólitískt vald sitt til þess að vera með skæting, útúrsnúninga og allt í þágu eigin upphafningar og sérgæsku.

Framganga NBA leikmanna þetta sumar verður lengi í minnum höfð og gæti verið byrjunin á því að hið hversdagslegasta í bandarísku léttmeti og dægurmenningu verði til þess að lyfta pólitískri umræðu á hærra plan í Bandaríkjunum. Hvað svo sem moðhausum allra landa kann að finnast um það.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.