Borgar varnarsamningurinn sig?

Undir lok júnímánaðar árið 1950 átti Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra fund með sendiherra Bandaríkjanna sem snerist að verulegu leyti um áhyggjur Bjarna af þremur sovéskum skipum skammt norður af Íslandi. Efnahagslögsaga Íslands var þá mun minni en í dag, og á hverju ári veiddu sovésk skip síld nærri landi, en eftir sem áður var síldarvertíðin ekki komin á fullt. Tímasetningin þótti grunsamleg Bjarni hafði þá þegar látið fljúga yfir svæðið og beðið norskt varðskip um að hafa eftirlit með veiðum sovéskra skipa á svæðinu. Og hann óskaði sérstaklega eftir því að Bandaríkjamenn eða Bretar hefðu einhvern skipakost hér á svæðinu, “ef til hins versta kæmi.” (Valur Ingimundarson, Í eldlínu kalda stríðsins, bls 201-202).

Þetta var stuttu eftir að Kim Il Sung réðist inn í Suður-Kóreu. Stuttu síðast hófust viðræður milli Íslendinga og Bandaríkjanna sem leiddu til þess að í maí 1951 var varnarsamningur ríkjanna undirritaður. Megininntak hans var að Bandaríkin fengu hér umtalsverðar heimildir og aðstöðu en ábyrgðust þess í stað varnir Íslands. Þetta er rifjað upp hér til að hnykkja á því að, burtséð frá því hvort hér var raunveruleg innrásarhætta (en það er umdeild meðal íslenskra sagnfræðinga) þá er óumdeilt að íslenskir ráðamenn óttuðust innrás og töldu vera þörf á slíkum vörnum.

Því er og við að bæta að þó aldrei hefði verið um það samið hafði varnarsamningurinn alla tíð gríðarlega efnahagslega þýðingu. Bæði fylgdu umtalsverðar framkvæmdir og fjöldi Íslendinga starfaði “á Vellinum”, en ekki munaði síður um ýmiskonar lánafyrirgreiðslur – í reynd má segja að Bandaríkin hafi lengi vel verið eins konar ábekingar efnahagsstöðugleikans meðan íslenskir ráðamenn framkvæmdu sífellt dularfyllri tilraunir í efnahagsmálum, og stjórnvöld hér spiluðu leynt og ljóst inn á ótta Bandaríkjanna við einhvers konar efnahagsupplausn hér sem leiddi aftur vinstrið til valda.

Í dag er varnarþörf Íslands um það bil engin – og það virðist fullkomlega fráleitt að varnarsamningurinn sem slíkur bæti nokkrum sköpuðum hlut ofan á það sem þegar fæst með aðildinni að NATO. Það hefur enginn áhyggjur af yfirvofandi árás Rússa eða fimmtu herdeild þeirra á Íslandi. Og Ísland er nokkuð nærri því að vera hin landfræðilega miðja NATO. Óvænt skyndiárás myndi varla byrja hér enda erum við um 2000 kílómetra frá landamærum NATO.

Það er síðan kapituli út af fyrir sig hvort það megi heita efnahagslegur ávinningur af samningnum, þó vissulega sé eitthvað framkvæmt.

Í haust sem leið fengum við opinbera heimsókn frá varaforseta Bandaríkjanna sem virtist að verulegu leyti snúast um einhvers konar merkjasendingar til Kínverja að þeir ættu að halda sig til hlés á þessu hagsmunasvæði Bandaríkjanna. Sem var svona heldur á ská við sérstaka rækt sem íslensk stjórnvöld hafa lagt við að byggja upp gott samband við Kína. Enda einhverjar vonir bundnar við að efnahagslegur ávinningur fylgi auknum siglingum og öðrum umsvifum á norðurslóðum.

Það er erfitt að sjá að það þjóni hagsmunum Íslendinga að halda úti varnarsamningi sem er okkur hernaðarlega óþarfur þegar gagnaðilinn aftur notar hann til að reka fleyg í samskipti okkar við ríki utan NATO. Það má og vel spurja sig að því hvort það þjóni hagsmunum okkar sérstaklega að spenna aukist á norðurslóðum, enda flýtir það varla fyrir því að umsvif aukist á svæðinu.

Kalda stríðið er liðið, þörfin fyrir varnarsamning virðist lítil, og aðildin að NATO ætti að nægja Íslendingum sem og að rúma mestallt okkar samstarf í öryggismálum, þar með talið við Bandaríkin.

Latest posts by Guðmundur Rúnar Svansson (see all)

Guðmundur Rúnar Svansson skrifar

Mundi hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.