Borg án sýningarstjóra

Ef frá er talin hátíðleg afhjúpun olíumálverks af Hábeini heppna að njóta vindlings með viskílögg í glasi sem ég málaði tvítugur í einhverju bríaríi hef ég aldrei skipulagt listasýningu og er þar af leiðandi ekki sérstaklega fróður um sýningarstjórn. Eins og verkið ber raunar með sér er ég ekki sérstaklega listhneigður yfir höfuð, en það breytir því ekki að ég hef alveg óskaplega gaman af myndlist og reyni að heimsækja söfn hvar sem ég fer. Eftir því sem ég skoða fleiri sýningar og velti þeim meira fyrir mér hefur þrátt fyrir fótaskort minn á hinu listræna svelli runnið upp fyrir mér hve ærið verkefni sýningarstjórn hlýtur að vera.

Hábeini heppni nýtur vindlings með viskílögg í glasi. 2010. Úr safneigu Deiglunnar.
Hábeini heppni nýtur vindlings með viskílögg í glasi. 2010. Úr safneign Deiglunnar.

Góð sýning virðist nefnilega yfirleitt sett saman af natni. Listfræðingur með yfirgripsmikla þekkingu á viðfangsefninu hefur lagt á sig að velja saman verk sem styrkja hvert annað og upplifun sýningargesta, hvort sem það er vegna svipaðra stílbragða eða efnistaka, þannig að þau mynda heildarbrag sem kallar fram hughrif eða íhugun sem ekkert verkanna hefði getað vakið með áhorfandanum eitt síns liðs. En það er vandkvæðum háð að sýna list sem sérvalið safn verka, því sýningarstjórnin hlýtur óhjákvæmilega að fela í sér að gera upp á milli þeirra.

Sýningin Flæði kom mér í skilning um þetta, en hún var sett upp samhliða ástandsmati á safneign Listasafns Reykjavíkur veturinn 2013 og er bæði eftirminnilegasta og skemmtilegasta sýning sem ég hef heimsótt. Safnið hugðist skrásetja og ljósmynda öll verk í eigu þess, en í stað þess að vinnan færi fram fyrir luktum dyrum voru verkin hengd upp á Kjarvalsstöðum nokkurnvegin í þeirri röð sem þau komu upp úr kössunum og þöktu veggi þiljanna á milli, líkt og á salon-sýningu, áður en þeim var pakkað niður aftur og ný verk fylltu í skarðið. Úr varð síbreytileg sýning, þar sem natni meðvitaðrar sýningarstjórnar var víðsfjarri.

Frá sýningunni Flæði.
Frá sýningunni Flæði.

Við hlið expressjóniskra fiskverkakvenna gat hangið fótórealískt portrett af mektarmenni, og við hlið ofsafenginna litbrigða í náttúrumynd eftir Kjarval gat hangið þrúgandi, kyrrlátur gráminn í landslagi Georgs Guðna. Það sem gerði sýninguna einstaka var ekki að á henni var heildarbragur – að verkin töluðu einni röddu eða segðu sömu sögu – heldur hið þveröfuga; þau sögðu hundruðir sagna frá enn fleiri sjónarhólum og úr varð brota- og handahófskennd upplifun. Þannig tókst Flæði sennilegast að spegla listasögu þjóðarinnar miklu betur en hefðbundinni yfirlitsssýningu sem hefði verið troðið í fyrirfram ákveðið narratív sem hugnaðist sýningarstjóra, enda er það eðli (og helsti ljóður) söguskoðunar að hún á sér stað eftirá. Hún hefur tilhneigingu til að snyrta og sníða af vankanta svo úr verði skiljanleg frásögn, á meðan sjálf framvinda sögunnar frá einum degi til þess næsta er í raun og veru óreiða, brota- og handahófskennd – Flæði, rétt eins og mannleg tilvera.

Salon-borgarskipulag

Mér verður oft hugsað til andstæðnanna sem birtust í Flæði annarsvegar og listasýningum undir formerkjum sýningarstjórnar eins og maður á frekar að venjast hinsvegar – stjórnar og stjórnleysis – því mér líður stundum eins og þær endurspegli ólík viðhorf til borgarskipulags eins og þau birtast í borgunum sem ég hef átt að heimili, Reykjavík og Lundúnum.

Í Reykjavík hefur sýningarstjóranum verið skipað til hásætis. Borgaryfirvöld hafa lagt áherslu á varðveislu götumyndar í þeirri viðleitni að standa vörð um sögulega arfleifð íslenskrar byggingarlistar á öldum áður, svo og heildarbrag miðbæjarins hvað varðar stærð og gerð húsa. Í stað þess að endurspegla raunverulega sögu þjóðar, sem myndi krefjast þess að byggingarlist samtímans væri leyft að verða að arfleifð morgundagsins, jafnvel þótt hún væri stílbrot, hefur verið haldið fast í yfirskrift “sýningarinnar” um byggingarlist 19. aldar – án þess að hún sé augljóslega betri eða verri en sá arkítektúr sem fylgt hefur í kjölfarið. Áþreifanleg dæmi um slíkt eru til dæmis andstaðan sem nýmóðins verðlaunateikningar að Listaháskóla við Laugaveg mættu árið 2008, kaup og varðveisla borgarinnar á timburhúsum við Laugaveg 4-6, endurbygging húsa á horni Austurstrætis og Lækjargötu í upprunalegri mynd eftir bruna 2007 og fyrirætluð viðbygging við Alþingi samkvæmt hundrað ára teikningum Guðjóns Samúelssonar.

Í Lundúnum er þessu öfugt farið – og þó. Að hluta ber borgarmyndin þess vitni að yfirvöldum stóð ekki til boða að fylgja forskrift um varðveislu götumyndarinnar eins og hún var við upphaf 17. aldar, jafnvel þótt einhverjum hafi eflaust þótt hún falleg. Í millitíðinni var hálf borgin tvisvar jöfnuð við jörðu, fyrst í brunanum mikla 1666 og aftur í loftárásum Þjóðverja í heimsstyrjöldinni síðari án þess að nokkrum hafi dottið í hug að endurbyggja hana í miðaldamynd, auk þess sem jafnvel reitir í rótgrónum hverfum eru endurskipulagðir af verulegum efnum og metnaði til að mæta þörfum borgarbúa enn þann dag í dag.

M turninn í austurhluta Lundúna.
M turninn í austurhluta Lundúna.

Úr verður Flæði, handahófskennt þversnið mismunandi tímabila í sögu þjóðar. Þetta á ekki síst við um nafla Lundúna, City, þar sem framúrstefnulegar byggingar rísa úr öllum takti hver við aðra og umhverfi sitt – eins og abstrakt við hlið endurreisnar á iðandi safni – en mynda þrátt fyrir það einskonar salon-sýningu um tíðaranda síðustu tveggja árþúsunda og sýn mismunandi arkítekta sem stendur sérvöldum húsaþyrpingum Reykjavíkur hvergi að baki.

Í því felst engin vanvirðing við hið liðna, heldur skilningur á því að fortíð og nútíð geta þrifist í samlyndi. Eitt magnaðasta götuhorn borgarinnar fangar þessa nálgun betur en þúsund orð, þar sem kirkjan St. Andrews Undershaft, sem reist var 1532 og stóð af sér bæði bruna og loftárásir, stendur í forgrunni við hinn nýreista fjármálaturn Gherkin. Án þess að nokkur hafi gengið út frá því að önnur byggingin sé merkilegri minnisvarði eigin tíma en hin.

Hornið á St. Mary Axe og Leadenhall Street í City.
Hornið á St. Mary Axe og Leadenhall Street í City.
Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)