Blómaskeið netverslunar loksins runnið upp?

“Krónan og Iceland fara á netið” var fyrirsögn sem birtist á mbl.is í vikunni og hljómaði óneitanlega eins og einhvers konar tímaskekkja eða frétt frá árdögum Internetins en svo var nú aldeilis ekki. 

COVID-19 faraldrinum hafa fylgt ýmsar og að því virðist óvæntar áskoranir fyrir kaupmenn og heildsala víða á landinu. Og á meðan sumir horfa fram á mikinn samdrátt í sölu blómstra þeir kaupmenn sem boðið geta viðskiptavinum sínum upp á netverslun. Nú þegar nánast öll heimili landsins leggja sig fram um að kaupa inn á netinu hefur berlega komið í ljós hversu skammt á veg netverslun með nauðsynjavörur er komin hér á landi. 

Eingöngu ein matvörukeðja, Nettó, hefur boðið landanum upp á netverslun með mat og hreinlætisvörur og aðeins Heimkaup hefur veitt þeim samkeppni á því sviði. Aðrir stórmarkaðir hafa ekki séð ástæðu til að opna netverslanir fram til þessa og klóra sér eflaust mjög fast í handabökin yfir því að missa nú viðskipti í stórum mæli yfir til netverslana. 

Niðurstöður könnunar Hagstofunnar á notkun heimila og einstaklinga á upplýsingatækni og neti sem kom út í gær (1. apríl), hefur netverslun verið vaxandi undanfarin ár en aðeins um 17,6% höfðu keypt matvöru og hreinlætisvörur og aðeins 12,4% höfðu keypt lyf á netinu. 

Og samkvæmt skýrslu Rannsóknarsetur verslunarinnar frá september 2018 þá numu kaup Íslendinga á netinu aðeins um 2,9% af heildarveltu íslenskrar verslunar á meðan algengt er að netverslun í nágrannalöndum okkar nemi um 10% af heildarveltunni. Við höfum því verið miklir eftirbátar nágrannaþjóðanna þegar kemur að netverslun.

Verslunareigendur víðast hvar á Vesturlöndum hafi gert sér grein fyrir því fyrir all nokkru síðan að internetið er ekki bóla sem samt sem áður hafa flestar af stærstu matvöruverslunum landsins haft takmarkaða trú á netverslun með nauðsynjavörur og farið sér mjög hægt í innleiðingu þeirra. Hvort sem um er að ræða frestunaráráttu eða efasemdir um mikilvægi og þörf netverslunar hér á landi þá hefur skortur á framsýni svo sannarlega komið í bakið á þeim núna. 

Það sem jafnframt vekur athygli í nýju skýrslunni er að Ísland trónar á toppnum yfir lönd þar sem fólk lendir í hvað mestum vandræðum með netverslun. En árið 2019 lentu 76,8% þeirra sem versluðu í gegnum netið í einhvers konar vandræðum því tengdu á Íslandi og hefur farið versnandi frá árinu 2016.

Margföldun í eftirspurn eftir matvöru á netinu í samkomubanni hefur skapað ýmis vandamál og leitt í ljós hversu illa þær verslanir sem fyrir eru ráða illa við mikla aukningu í eftirspurn. Nettó hefur t.a.m. ekki getað staðið við afhendingartíma á hraðsetningum og fyrirframpöntunum og hafa margir hverjir þurft að bíða í all nokkra daga eftir heimsending skili sér á sendingarstað.

Faraldurinn er samt sem áður að hafa margar jákvæðar afleiðingar í för með sér fyrir netverslun. 

Fyrir það fyrsta þá virðast stærri matvörukeðjur á borð við Krónuna og Iceland nú kappkosta við að flýta opnum netverslana. Margir smærri kaupmenn sem hingað til hafa ekki fundið þörf til að bjóða upp á netverslun og/eða heimsendingu á vörum hafa fundið leiðir til að bjóða upp á þjónustuna nú og eitt dæmið um það er samstarf leigubílafyrirtækja og skyndibitakeðja við heimsendingar.  

Mun fleiri eru nú að upplifa það að kaupa mat á netinu og hlutfallslega er mest aukning í netverslun hjá fólki yfir sextugu sem hafa síður nýtt sér netið fram til þessa. 

Gera má ráð fyrir því að þeir sem ekki hafa notað netverslun t.d. til matarinnkaupa séu að kynnast því hversu þægilegt það er að fá vörurnar sendar heim að dyrum. Netverslun getur líka sparað tíma og verið mjög umhverfisvæn eins og Guðmundur Magnason, forstjóra Heimkaupa, benti á í viðtalið í Speglinum þann 13. mars sl. Það er jú mun umhverfisvænna að einn sendill afhendi pantanir á um 60 heimili á dag frekar en að bifreiðar frá 60 heimilum séu að flækjast um á götunum með tilheyrandi umferðarþunga. 

Netverslun með lyf hefur líka stóraukist á síðustu vikum og er enn fleiri apótek eru farin að bjóða upp á heimsendingar lyfja. Jafnframt hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, bent á nauðsyn þess að heimila netverslun með áfengi frá innlendum heildsölum til að jafna samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum verslunum sem mega stunda slík viðskipti og senda til Íslendinga. 

Þetta skyldi þá ekki eftir allt saman verða vorið þegar netverslun loksins tók að blómstra.

Heimildir: 
http://rsv.is/Files/Skra_0078628.pdf
https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/visindi-og-taekni/netverslun-a-islandi-2017-2019/
https://www.ruv.is/utvarp/spila/spegillinn/23680/7gpcnh

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.