Bless (í bili?)

Þann 8. nóvember 2016 var nýgræðingur í stjórnmálum að nafni Donald Trump, fasteignamógúll og fyrrverandi raunveruleikaþáttastjarna kjörinn 45. forseti Bandaríkjanna. Hann var ekki einusinni með gott hár.

Þann 8. nóvember 2016 var nýgræðingur í stjórnmálum að nafni Donald Trump, fasteignamógúll og  fyrrverandi raunveruleikaþáttastjarna kjörinn 45. forseti Bandaríkjanna. Hann var ekki einusinni með gott hár.

Ég bjó þennan vetur í New York og herbergisfélagi minn var „Valley- talandi“ blómaskreytingakona sem fyllti 60 fermetra íbúð okkar reglulega af 800 blómum og samstarfskonum þar sem hún vann að heiman og tók ekki til eftir sig (það fylgdi ekki íbúðarlýsingunni). Á kjördag var hún heima hjá okkur að sinna einu af þessu verkefnum fyrir veitingastaði borgarinnar og þegar ég spurði hana hvort hún væri búin að kjósa sagðist hún og vinkonur hennar myndu sleppa því þar sem Hillary sem betur fer væri svo gott sem búin að vinna. Það væri líka enginn að fara að kjósa þennan skrýtna Trump.

Kosningabaráttan hafði farið fram með fordæmalausum hætti, enda stíll Trump ólikur því sem áður hafði þekkst.  Hann hafði með upphrópunum ráðist að grunnstoðum stofnana Bandaríkjanna og gagnrýnt spillingu stjórnmálamanna.  Í kappræðum elti hann mótframbjóðanda sinn (sem hann vildi fangelsa) og stóð ítrekað bakvið hana. Fjölmiðla sakaði hann um lygar og spyrla um að vera á blæðingum. Hann kallaði inflytjendur nauðgara og morðingja og sagði að Mexíkó væri nú ekki að senda sitt besta fólk yfir landamærin. Á einum kjörfundinum sagðist hann geta staðið á miðju fimmta breiðstræti í New York og skotið einhvern án þess að það hefði áhrif á fjölda atkvæða. Góðborgarar höfðu ekki komist í tæri við slíkt tal áður. Hvað þá frá manni sem væri að bjóða sig fram til forseta. Áfallið sem kurteisa, vel meinandi fólkið varð fyrir við úrslitin gleymist seint.  Það kom í ljós að myrk hlið áfellisdóma og skoðana virtist ríkjandi hjá stórum hluta samfélagsins.

Það má segja að það sé einstök samfélagsleg staða uppi þegar maður eins og Trump nær kjöri sem forseti.  Í langan tíma hefur þróunin verið með þeim hætti að það hefur talið vænlegt að finna blóraböggla fyrir einhverju sem betur mætti fara. Á undanförnum árum má sjá íbúa landa  skiptast í fylkingar og hvor fylkingin kennir hinni um slæmt ástand. Trump náði tengingu við þá óánægðu og sýndi með hegðun sinni að hann væri óhræddur við að bjóða ríkjandi viðhorfum byrginn. Þannig sameinaði þannig stóran hóp fólks. Líkurnar á því að það endurtaki sig eru töluverðar. Aðferðarfræði Trumps virkaði. Þrátt fyrir allt sem gekk á í forsetatíð Trump var hann nálægt því að vera kjörinn annað kjörtímabil.   Trump er nú farinn úr Hvíta húsinu, en margir eru fullvissir um brotthvarf hans marki ekki endalok þessa tímabils stjórnmálanna, líkt og kjör hans markaði ekki upphafið. Fyrir embættistöku Trump hafði Teboðshreyfingin náð velgngni með Söru Palin innanborðs. Nýs forseta bíður verðugt verkefni að færa ólíkar fylkingar nær.  Hvað tekur við er erfitt að spá fyrir um, en ljóst er að brotthvarfi Trumps ber að fagna með gát, því við gætum fundið til tevatnsins.

Latest posts by Helga Kristín Auðunsdóttir (see all)

Helga Kristín Auðunsdóttir skrifar

Helga Kristín hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2004.