Árið eftir

Árið 1918 er hluti af íslenskri sögu sem nánast hvert mannsbarn á Íslandi þekkir. Spænska veikin, Frostaveturinn mikli og Kötlugos geisaði þetta ár. En það fer minna fyrir árinu 1919 í söguþekkingu okkar. Hvernig var árið eftir hamfarirnar?

Árið 1918 er hluti af íslenskri sögu sem nánast hvert mannsbarn á Íslandi þekkir. Spænska veikin, Frostaveturinn mikli og Kötlugos geisaði þetta ár. En það fer minna fyrir árinu 1919 í söguþekkingu okkar. Hvernig var árið eftir hamfarirnar?

Árið 2020 mun fara í sögubækurnar líkt og 1918 og barnabörnin okkar munu læra um árið þegar Covid-19 veiran lagði heimsbyggðina á hliðina. Þau munu heyra hvernig andlitsgrímur voru á hverju andliti, ferðalög lögðust af, útgöngubann var sett á víða, fyrirtæki og skólar lokuðu eða voru með skerta starfsemi og margir voru nánast í stofufangelsi vikum og mánuðum saman. Ef til vill munu þau líka heyra að þrátt fyrir allt sem gerðist á Íslandi að þá vorum við lánsamari en flestir aðrir að því leyti hvernig okkur tókst að halda faraldrinum niðri og halda í daglegt líf eftir mætti.

Árið 1919 hófst þegar Fyrri heimsstyrjöldinni var nýlega lokið og mánuði fyrr gerðist sá merkisatburður í sögu ungrar og fátækrar þjóðar að hún fékk fullveldi. Fyrir 102 árum horfðu Íslendingar einnig fram á áskoranir líkt og við gerum nú. Spænska veikin hafði ekki sleppt takinu og fjölmargir áttu um sárt að binda eftir að hafa misst ástvini og fyrirvinnur heimila. En þrátt fyrir þetta þá hefur 1919 hafist af bjartsýni og baráttuþreki. Erfiðu ári var að ljúka og nýtt óskrifað ár framundan með tækifærum og von.

Árið 2021 er nýhafið, fullt af fyrirheitum og bjartsýni þar sem bólusetning við veirunni skæðu er nú hafin en áskoranir eru einnig framundan þar sem við þurfum að kljást við afleiðingar heimsfaraldursins enn um sinn. Sem betur fer hafa afleiðingarnar ekki verið jafn sorglegar og fyrir rúmri öld þegar Íslendingar horfðu fram á nýtt ár eftir að hafa misst hundruð samlanda sinna úr Spænsku veikinni. Núna eru áskoranirnar að vinna niður atvinnuleysi og hallarekstur ríkissjóðs, tryggja velsæld og efnahag samfélagsins í heild. Það verða skiptar skoðanir um leiðir en markmiðin eru skýr.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.