Algrímurinn alvitri og statistar í stjórnmálum

Ef eitthvað er að marka dómstóla, eftirlitsnefndir og drjúgan hluta af opinberri umræðu þá er íslenskum stjórnmálamönnum alls ekki treystandi. Sérstaklega virðast þeim vera mislagðar hendur í mannaráðningum, til dæmis þegar þeir hlýða ekki embættismönnum í dómaravali—eða núna þegar þeir hlýða rándýru ráðningarferli í starf Þjóðgarðvarðar, en bara ekki nógu vel. Íslenska ríkið, sem að jafnaði borgar fólki sem verður fyrir raunverulegum áföllum fremur hraksmánarlegar bætur, virðist taka það mun alvarlegar þegar stjórnmálamenn fylgja eigin sannfæringu og dómgreind við skipanir í störf og embætti og skilja einhvern útundan sem þarf þá að leita sér annars staðar að viðfangsefnum.

Tuttugu milljónirnar eru upphæðin sem umsækjandi fékk fyrir það áfall að jafn hæfur eða hæfari einstaklingur var ráðinn Þjóðgarðsvörður. Dómarar, sem Alþingi valdi að skipa ekki í Landsrétt þrátt fyrir fyrirmæli dómaranna sjálfra, fengu dæmdar (af starfssystkinum sínum) bætur sem uppreiknað geta numið tugum eða hundruðum milljóna króna yfir heila starfsævi. Kona sem var misnotuð af Boccia-þjálfara á Akureyri fékk nýlega dæmdar 2 milljónir króna í skaðabætur. Fjölmargir sem hafa raunverulega orðið fyrir óréttmætri meðferð af hálfu ríkisvaldsins fá aldrei neitt eða eru boðnar hlægilegar bætur þangað til flestir gefast upp og hætta að vera með vesen.

Svo virðist sem það sé orðið nánast sjálfkrafa viðbragð þegar þingmenn og ráðherrar velja í störf eða stöður að farið sé af stað í heljarinnar vegferð til að sýna fram á hversu „ófaglega“ staðið sé að hverri einustu ráðningu. Jafnvel þegar augljóst má telja að vel hafi tekist til við ráðninguna (eins og í tilviki þjóðgarðsvarðar, sem hefur yfirburðamenntun og reynslu til að gegna stöðunni) þá fer af stað fokdýrt ferli, bæði í undirbúningi og eftirvinnslu til þess eins að reyna að koma í veg fyrir að þrætubókalistamenn geti með útúrsnúningum tortryggt eðlilegar og réttmætar ákvarðanir.

Krafan virðist vera sú að einhvers konar alvitur tölvu-algrím, komi alfarið í stað mannlegrar dómgreindar og pólitískrar ábyrgðar—og að stjórnmálamennirnir sem við kjósum til að hafa völd hafi sífellt minni raunveruleg áhrif, en taki þátt í fyrirframskrifuðum leikritum þar sem hlutverk þeirra fer sífellt minnkandi. Þeir stjórnmálamenn eru álitnir farsællastir sem eru eins og aukaleikarar eða jafnvel statistar á sviðinu og flækjast ekki fyrir þeim sem raunverulega ráða.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.