Ágúst með sitt mjúka myrkur

Haustið er heiðarlegt. Það þykist ekki vera neitt annað en það er. Lömbin eru leidd til slátrunar og berin eru tínd úr lynginu. Litirnir birtast og hverfa á örfáum dögum.

Sumri er tekið að halla, það húmar að hausti. Þetta er besti tíminn. Eftirvæntingin sem felst í vorkomunni og hin óumflýjanlegu vonbrigði sem sumarið veldur eru nú að baki. Hægt er að byrja á núlli og njóta þess sem lifir af sumri. Síðari hluti ágústmánaðar og september oft í heild sinni eru þannig eins og aukavinningur í því langsótta happdrætti sem íslenska sumarið vill verða.

Fríin með sín taugatrekkjandi skylduverk eru líka að mestu leyti að baki á þessum tíma. Þótt flestir séu farnir að tínast til starfa með hálfum hug eða hangandi hendi þá er það eins og frí frá fríinu. Þetta er bara orðið gott hjá flestum, of margar myndir af stórbrotinni náttúrunni og misjafnlega filteruðu sólarlagi. Allir eru snillingar og öllum tekst að fanga augnablikið, alltaf og undantekningarlaust.

Haustið er heiðarlegt. Það þykist ekki vera neitt annað en það er. Lömbin eru leidd til slátrunar og berin eru tínd úr lynginu. Litirnir birtast og hverfa á örfáum dögum. Skólarnir hefjast, fastir liðir leysa ævintýrarembing sumarsins af hólmi, og flestir anda léttar. Haustið er blessunarlega laust við allan æsing, í það minnsta lengi framan af áður en jólaundirbúningurinn hefst, yfirleitt alltof snemma. Haustið er þannig ef til vill eini tími ársins þar sem við erum bara venjuleg, ekki að rembast og keppast við að slaka og njóta.

Ágúst með sitt mjúka myrkur er fyrirboði haustsins. Hann kemur og segir að þetta verði allt í lagi. Þótt sumarið hafi farið í vaskinn og vorið hafi að venju svikið fyrirheit sín, þá verður allt í lagi, því haustið kemur. Og við náum að núllstilla allt. Fyrir veturinn.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.