Æðruleysi

Í dag eru 229 dagar frá því að fyrsta staðfesta Covid-19 tilfellið greindist á Íslandi. Við búum ennþá við að óútreiknanleg veiran stýrir daglegu lífi og metfjöldi smita hefur greinst á heimsvísu undanfarna daga.

Þessum tímum hefur stundum verið líkt við stríðsástand sem er að vissu leyti lýsandi fyrir ástand sem hefur víðtæk áhrif á gjörvalla heimsbyggðina, veldur ótta og lamar efnahag auk þess að halda fólki í slítandi greipum langtíma óvissu. Það er þó erfiðara að spá fyrir um væntanleg lok styrjalda heldur en lok Covid-19 sem flestir tengja við það þegar bóluefni verður tilbúið og hægt að dreifa víða. En við þurfum að þreyja þorrann þangað til að það gerist og margt bendir til að það verði einhvern tímann á næsta ári.

Framundan er því langur og erfiður vetur. Í fyrstu bylgju Covid-19 á Íslandi var daginn að lengja en núna styttist dagurinn ört og haustlægðirnar bíða handan við hornið. Það er innan við ár í kosningar sem jafnvel í besta árferði skapar pólitískar deilur og átök. Þá hafa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og íslensk heilbrigðismálayfirvöld varað við því sem kallast “faraldursþreyta” þar sem fólk sé orðið langþreytt á ástandinu og vaxandi gagnrýni er á sóttvarnaraðgerðir. Það er því frjór jarðvegur fyrir reiði, depurð og vonleysi.

Það er heilbrigðismerki á opnu samfélagi að hægt sé að ræða mismunandi leiðir til að leysa vanda en um leið ábyrgðarhluti að slík umræða fari fram á málefnalegan hátt án þess að fólk bakki ofan í skotgrafir þar sem þörf er á að draga fram stærstu vopnin sem drífa til að skjóta niður málefni og menn. Það væri óskandi að málefnaleg umræða væri alltaf raunin en í vetur er það eiginlega lífsnauðsyn.

Samkvæmt íslenskri orðabók merkir orðið æðruleysi það að láta ekki hugfallast. Það er verkefnið okkar næstu vikur og mánuði. Við höfum ekki val um neitt annað en að takast á við faraldurinn og það gerum við best með því að halda í von og vinna saman í vetur. Sýnum samkennd og seiglu og styðjum hvert við annað. Svo þegar allt annað þrýtur þá er gott að muna að það eru bara 72 dagar til jóla.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.