Að vesenast á aðventu og jólum

Sagan segir að þegar séra Baldur í Vatnsfirði flutti guðspjallið á jóladag eitt árið hóf hann lesturinn með þessum orðum: En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina – hér leit klerkurinn upp úr bókinni góðu horfði yfir söfnuðinn og sagði: Þið þekkið framhaldið. Og hann lokaði bókinni og tók til við næsta messulið.

Já, við þekkjum jólasöguna í Lúkasarguðspjalli og höfum heyrt hana margoft eins og sálmanna sem sungnir eru í kirkjum landsins við aftansöng og hátíðarmessur um jól. Jólin eru hátíð kristninnar og er okkur kær vegna þess að hún minnir okkur á fæðingu Jesú og gildi þess að játa kristnatrú sem tilvistargrundvöll í veðrabrigðum lífsins. Og jólahaldið hefur þróast í fjölskylduhátíð og hátíð barnanna. Einnig hátíð minninganna, þakklætis og örlætis. Allt er það dýrmætt og mikilsvirði.

Dugnaður fólks á aðventu við að undirbúa komu jólanna er hluti af jólahaldinu og ekki lítils virði þegar vel tekst til og við njótum þess að hlúa að því sem er okkur kærast og auðgum andann með þátttöku í því fjölbreytta menningalífi sem er svo víða í boði þegar annað er eðlilegt.

Hún var falleg fréttinn um hálfníræðan mann fyrir austan sem fyrir mörgum árum bjó til stóran jólahring í garðinum sínum sem þarfnast stöðugra viðgerða ár hvert. En það líkar honum vel og segir að það sé lífið að vesenast eitthvað.


Lífið er oft vesen það þekkjum við öll og það er eitthvað verulega fallegt við það þegar þessi heiðursmaður segir við fréttamanninn að hann hafi gert þennan stóra jólahring til að lýsa upp heiminn. Það er fallegt og jákvætt þegar fólk er að vesenast fyrir og vegna þeirra sem það elskar eins og við gerum á aðventunni eða er að vesenast fyrir samfélagið og ég tala nú ekki um þegar vesenast er fyrir allan heiminn.

Æðruleysisbænin hefur verið mörgum tiltæk í Covidástandinu. Það er eðlilegt enda fáum við litlu breytt – og þó. Þar getum við hvert og eitt sýnt aðgát og samstöðu í því sem er í okkar höndum en sýnt æðruleysi gagnvart því sem er ekki í okkar valdi. Núna eiga vel við orð Páls postula í Galatabréfinu: “Berið hvert annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.” Það lögmál Krists er í þessu samhengi tvöfalda kærleiksboðorðið um að elska Guð, treysta og vona á hann og auðsýna náunganum kærleika. Ekkert boðorð annað er þessu meira. Stundum og oft verðum við að þrengja að frelsi okkar til að sýna kærleika og samstöðu. Það er þá okkar frelsi að velja þá leið að bera annarra byrðar.

Árið sem senn er á enda runnið hefur verið óvenjulegt og mörgum erfitt. Það mun seint líða okkur úr minni og fær sess í sögunni. En ekki verður það sett í hóp verstu ára sem yfir mannkynið hafa gengið. Þau hafa mörg verið erfið. En sagnfræðingar eru sagðir óvenju sammála um að árið 536 eftir Krist hafi trompað öll önnur ár í hörmungum fyrir mannkynið. Geta áhugasamir flett því upp á netinu.
En okkur hefur miðað áfram og margt breyst á umliðnum öldum og mestar hafa breytingar orðið á síðustu öld. Margt hefur lagst með okkur í þeirri heimsvá sem hefur haft áhrif á líf okkar á þessu ári. Við þökkum Guði fyrir vísindin og vísindamenn og þá almennu skoðun að okkur vegni betur þegar við stöndum saman og hjálpumst að. Oft heyrist sagt að í lífsháska sé sérhver sjálfum sér næstur. En þegar sameiginleg ógn steðjar að þá er nauðsynlegra að standa saman og vinna saman.

Og þegar blessuð jólin ganga í garð er dýrmætt að þiggja þá góðu gjöf sem Guð hefur sent okkur í Jesú Kristi og umvefja þrenninguna sem dugar best í blíðu og stríðu en það eru trú, von og kærleikur og þar er kærleikurinn mestur og bestur og hann fellur aldrei úr gildi. Hann gefst aldrei upp.

Með þetta í hjarta og sinni göngum við inn í nýtt ár og treystum því að aftur birti og höfum í huga orð Mahatma Gandhi: “Vingjarnlegt orð sem fellur í dag getur borið ávöxt á morgun.”

Gleðileg jól og farsælt nýtt ár.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)