Að hlýða kvíða

Ísland kom hlutfallslega vel út úr fyrstu bylgju faraldurins. Í einungis sjö Evrópuríkjum eru látnir vegna Covid-19 færri, miðað við höfðatölu. Það var gert með mörgum skynsömum og oft hörðum aðgerðum: Ferðatakmörkunum, samkomubanni og víðtækri skerðingu á atvinnufrelsi.

Allan þennan tíma var sá hópur mjög hávær sem vildi alltaf “ganga lengra”, til dæmis með útgöngubönnum, skólalokunum, fullkominni lokun landsins, allsherjar grímuskyldu, áfengisbanni og svo fleiru.

Þessi hópur hefur miklar áhyggju af útbreiðslu veirunnar og vill gera allt sem hægt er til að stöðva hana. Fólkið í þessum hóp hefur mjög skýra stefnu: “Að beita alltaf ítrustu tækjum sem í boði eru til að stöðva útbreiðslu veirunnar.”

Fólkið í hópnum beitir ýmsum rökum hverju sinni, svo lengi sem rökin styðja næstu lokun. Eitt nýlegt dæmi um það er að flestir í þessum hóp fögnuðu mjög greinum hagfræðinga sem mæltu með lokun landsins, meðal annars til að hægt yrði að hafa óhindrað skólastarf. Engu að síður töluðu margir í umræddum hóp fyrir lokun grunnskóla á sínum tíma. Og munu gera það aftur ef rök þess efnis fara að heyrast. Enda er markmiðið alltaf að beita öllum ítrustu tækjum sem í boði eru til að stöðva útbreiðslu veirunnar.

Ég viðurkenni að hafa verið í hópi þeirra sem hafði efasemdir um þá ráðstöfun að reyna loka landinu enn frekar með því að beita sóttkví í stað heimkomusmitgáttar á landamærum. Efnahagslegu rökin fyrir lokuninni voru fremur fátækleg og meðan enn var smit í gangi í samfélaginu var ljóst að herðing á landamærum og slökun innanlands var ekki endilega fullkomlega skothelt plan.

Það breytir því ekki að við erum stödd á þeim stað sem við erum en siglum þó í minni óvissu en við gerðum í vor. Þau rök að við verðum að gæta að þolmörkum heilbrigðiskerfisins gilda áfram. En við höfum nú lært ýmislegt um þessa veiru , og að sumt í baráttunni við hann virkar betur en annað.

Heilt yfir var hin íslenska barátta við Covid hálfgert miðjumoð. Brugðist var við harðar en margir vonuðust eftir en mildar en margir vildu. Sem stendur er árangurinn af miðjumoðinu ágætur í alþjóðlegu tilliti. Við megum ekki gleyma því.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.