Að friðlýsa hálfan bæ

Sumir sjá ofsjónum yfir háu fasteignaverði í Garðabæ en það skýrist ekki síst af því að fólk vill einmitt búa í grennd við óspillta náttúruna. Það er því manneskjunni ekki aðeins heilsusamlegt að búa við slík gæði heldur er það hagkvæmt og góður „bissness” að vernda náttúruna og friðlýsa stóran hluta sveitarfélaga, þar sem pólitískur vilji og aðstæður eru til þess.

Á höfuðborgarsvæðinu er sveitarfélag þar sem tæplega helmingur bæjarlandsins er friðlýst svæði. Þetta kann að koma fólki á óvart, jafnvel umhverfissinnum sem fylgjast vel með. Þessi svæði hafa mörg verið friðlýst á síðustu árum og fleiri friðlýsingar eru í farvatninu í landi sveitarfélagsins.

Þarna býr pólitísk hugmyndafræði að baki. Með því að friðlýsa náttúruperlur eru þessi svæði ekki bara tekin frá fyrir komandi kynslóðir heldur aukast lífgæði okkar sem nú lifum verulega. Það skiptir máli að hafa greiðan aðgang að óspilltri náttúru og velferð þeirra sem búa við slík gæði er mikil. Rannsóknir sýna enda fram á að lýðheilsa er betri þar sem fólk er í beinum tengslum við náttúruna.

Það kann að koma enn fleirum á óvart að sveitarfélagið sem hefur haft þessa langtímasýn í umhverfismálum er Garðabær en í rúm fjörutíu ár hefur bænum verið stjórnað af hreinum meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Sumir sjá ofsjónum yfir háu fasteignaverði í Garðabæ en það skýrist ekki síst af því að fólk vill einmitt búa í grennd við óspillta náttúruna. Það er því manneskjunni ekki aðeins heilsusamlegt að búa við slík gæði heldur er það hagkvæmt og góður „bissness” að vernda náttúruna og friðlýsa stóran hluta sveitarfélaga, þar sem pólitískur vilji og aðstæður eru til þess. Á Íslandi eru margar náttúruperlur í landi sveitarfélaga og við erum lánsöm að þurfa ekki að búa til manngerða almenningsgarða eins og margar borgir beggja vegna Atlantsála.

Friðlýst svæði í Garðabæ eru mörg auk hverfisverndaðra svæða. Friðlýstu svæðin eru m.a. Kasthúsatjörn og aðliggjandi fjara, Hlið á Álftanesi sem er fólkvangur, Gálgahraun og Garðahraun, Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá, Vífilsstaðahraun og Maríuhellar. Vífilsstaðavatn og nágrenni er einstakt svæði og geymir lífríki sem á sér enga hliðstæðu á heimsvísu. Þá eru Reykjanes- og Bláfjallafólkvangar að hluta í landi Garðabæjar og Skerjafjörður innan bæjarmarka Garðabæjar er sömuleiðis friðlýstur. Fyrirhugað er að friðlýsa strandlengjuna á Álftanesi, Urriðakotshraun og stækka önnur friðlönd.

Garðbæingar taka fagnandi á móti gestum sem vilja njóta friðlýstu svæðanna með okkur, svo lengi sem fólk umgengst svæðin af virðingu. Göngufólk getur notið leiðsagnar um þau í Wappinu en Garðabær og Wapp – Walking app hafa samstarf um birtingu göngu-, hjóla- og hlaupaleiða í Garðabæ og er þjónustan í boði bæjarins.

Latest posts by Guðfinnur Sigurvinsson (see all)

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Guðfinnur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.