Góðir Íslendingar

fjolmenning2.jpgÞeir einstaklingar sem eru svo lánssamir að hafa fæðst á Íslandi mega ekki halda að í því láni felist forréttindi. Og enn síður mega þeir leyfa sér að hindra aðra einstaklinga, sem ekki hafa verið jafn lánssamir með sinn fæðingarstað, í að sækjast eftir betri lífskjörum af eiginn rammleik og dugnaði.

Við Íslendingar erum lánssamir. Við búum við allsnægtir í frjálsu og öruggu samfélagi. Lífsgæði og efnalegur jöfnuður eru óvíða meiri á byggðu bóli. Á tiltölulega stuttum tíma höfum við klifið lífsgæðatöfluna og óhætt er að tala um stökk á allra síðustu árum. En það er fyrst þegar maður keyrir út fyrir bæjarmörkin í norðaustan stórhríð og fimbulfrosti, slekkur á bílnum og starir í sortann að það rennur upp fyrir manni hvers konar afrek það er hjá þessari þjóð að hafa þraukað allan þennan tíma og náð svona langt.

Dugnaður og þrautsegja forfeðra okkar tryggði búsetu í landinu á þeim tímum þegar mönnum fannst svo lítið til landkosta hér koma, að Dönum tókst ekki að selja landið í skiptum fyrir smáskika suður af Danmörku. Og við sem eftir komum höfum uppskorið ríkulegan ávöxt af erfiði forfeðranna. Það er okkar lán, okkar heppni.

Það er einmitt svo kaldhæðnislegt að hugsa til þess að heppni ráði því hvar einstaklingur fæðist. Og það er átakanlegt að hugsa til þess að fæðingarstaðurinn ráði úrslitum um afkomumöguleika þessa sama einstaklings. Við sem erum svona lánssöm ruglum þessu mikla láni okkar oftar en ekki saman við einkarétt á þessum lífsgæðum, að við séum réttbornir handhafar þeirra og þau séu okkar forréttindi. Þessi misskilningur leiðir í verstu tilvikum til andúðar á þeim einstaklingum sem hingað leita í sókn eftir betri lífskjörum.

Röng skilaboð stjórnvalda
Því miður benda skoðanakannanir, sem gerðar hafa verið á síðustu misserum, til þess að andúð í garð útlendinga hér á landi sé töluverð, einkum þeirra sem koma frá fjarlægum löndum. Skilaboð stjórnvalda eru ekki sérstaklega fallin til þess að kveða í kútinn þá þjóðernishyggju sem að baki þessari andúð býr. Í ritstjórnarpistli þann 28. október 2002 fjallaði Deiglan ítarlega um þetta mál og vísaði m.a. í pistil eftir Andra Óttarsson frá 21. apríl sama ár þar sem Andri geldur varhug við frumvarpi til breytinga á lögum um ríkisborgararétt. Heldur hann því fram að svo virðist sem það vaki beinlínis fyrir löggjafanum með frumvarpinu að takmarka almennt veitingu ríkisborgararéttar, sérstaklega til handa þeim sem koma frá framandi menningarheimum.

Annað dæmi um kolröng skilaboð stjórnvalda er um ráðstafanir á vinnumarkaði. Nýlega samþykkti ríkisstjórnin að nýta sér undanþáguákvæði í EES-reglum sem gefur stjórnvöldum allt að níu ára „aðlögunartíma“ að reglum um frjálsa för launþega. Þetta var gert í ljósi stækkunar Evrópusambandsins til austurs og er hugsunin þá væntanlega sú að koma í veg fyrir að launþegar frá hinum nýju ríkjum ESB kæmu til Íslands í atvinnuleit og hefðu þar með vinnu af Íslendingum. Pawel Bartoszek afgreiddi bábiljuna um útlenska atvinnuþjófinn í pistli hér á Deiglunni 27. nóvember 2002. Þar sagði Pawel meðal annars:

Ranghugmyndin felst í þeirri langlífu kreddu um að atvinna sé einhver takmörkuð auðlind. Auðvitað gerist það að útlendingar fá störf sem Íslendingar gætu verið að vinna. En það minnkar ekki möguleika Íslendinga á því að fá vinnu. Svipað og tilkoma kvenna á vinnumarkaðnum hefur ekki minnkað möguleika karlmanna á því að fá gott starf.Nýbúar eru ekki einhliða blóðsugur á atvinnulífið. Þeir þurfa að kaupa sér mat, gera við bílinn, fara í bíó og senda börnin í skólann. Allt þetta eykur veltuna í viðkomandi starfsgreinum og störf skapast. Það er því álíka fáranlegt að halda því fram að útlendingarnir séu að taka störf af Íslendingum og til dæmis að halda því fram að nýbúar sem spila í lottóinu séu að taka vinninga af Íslendingum eða að útlendingar sem fari út að borða á laugardagskvöldi taki borð af innfæddum. Fólk sem heldur slíku fram ætti helst ekki að eignast börn því þegar krílin vaxa úr grasi fara þau að hirða til sín öll störf eldra fólksins.

En þrátt fyrir þennan augljósa sannleik er jafnan auðvelt fyrir þá sem telja fólk af erlendu bergi brotið ekki verðskulda að búa í íslensku samfélagi, að ala á andúð í garð þess með vísan til atvinnusjónarmiða.

Bábiljur verður að kveða niður
Hér eru tiltekin tvö dæmi um röng skilaboð stjórnvalda í málefnum útlendinga. Því verður ekki haldið fram að íslensk stjórnvöld reki stefnu sem er fjandsamleg útlendingum. Hins vegar ættu stjórnvöld í okkar frjálsa og opna velmegunarsamfélagi að leggja sig sérstaklega fram um að kveða niður bábiljur um að útlendingar séu óæskilegir í stað þess að gera ráðstafanir sem virka sem vatn á myllu þeirra sem hafa andúð á tilkomu fólks af erlendum uppruna í íslenskt samfélag.

Það er auðvitað ekkert annað en aðdáunarvert þegar einstaklingar, sem við kröpp kjör búa, hafa kjark til þess að flytja til fjarlægs lands til að öðlast betri lífskjör fyrir sig og sína. Það minnir um margt á þrautseigju og dugnað genginna kynslóða hér á landi. Þessir nýju meðlimir íslensks samfélags eiga því jafnvel meira skilið en margir hinna innfæddu að vera kallaðir góðir Íslendingar.

Afstaða Deiglunnar
Eins og fyrr segir hefur mikið verið fjallað um þessi mál hér á Deiglunni. Í raun má segja að Deiglan haldi þeim málsstað hátt á lofti sem gengur út á umburðarlyndi í garð útlendinga og nýbúa hér á landi. Í dag eru liðin sex ár frá því að Deiglan kom fyrst út. Á þeim tíma hefur mótast ákveðin og skýr ritstjórnarstefna sem byggir á frjálslyndum viðhorfum, víðsýni og upplýsingu, virðingu fyrir frelsi einstaklingsins og mannhelgi hverrar manneskju. Barátta Deiglunnar gegn sívaxandi andúð í garð útlendinga hér á landi er einhver skýrasta birtingarmynd þessarar ritstjórnarstefnu.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)