Nýsköpunarlandið Ísland

Undanfarið hefur borið á þeirri umræða á Íslandi að nú sé tíð stóriðju lokið og taki þess í stað við tíð nýsköpunar og frumkvöðla. Þetta er allt og gott og blessað en lítið hefur verið velt fyrir sér hvað þetta hefur í för með sér og hvernig þetta á sér stað.

Nýsköpun getur verið af ýmsu tagi. Ekki alltaf af besta tagi

Byrjum til örlítillar glöggvunar á því að skipta nýsköpun upp í tvo flokka, jaðarnýsköpun (incremental) og byltingarnýsköpun (radical). Jaðarnýsköpun er þegar núverandi vara og þjónusta er bætt örlítið en þó neytendur þekkja hana aftur. Dæmi eru nýjar útgáfur af farsímum sem innihalda yfirleitt smávægilega viðbætur. Byltingarnýsköpun breytir leikreglum og gerir fyrri vörur úreltar. Dæmi er hvernig geisladiskar gerðu kassettur úreltar og mp3 spilarar eru að gera það sama við geisladiska núna.

Hvernig nýsköpunarland á þetta Innovation-Iceland að vera? Verður þetta haugur af litlum smáuppfinningum sem keppa við þúsundur viðlíka um víðan heim eða verða þetta nokkrar stórkostlegar hugmyndir sem breyta heimsbyggðinni.

Langlíklegast til árangurs er að, svo maður vitni í Maó formann, að leifa þúsund blómum að blómstra. Prófa og mistakast og prófa aftur þangað til eitthvað gengur upp. Stóru hlutirnir geta síðan vaxið upp úr öllum þessum litlu uppsöfnuðu.

Hvernig getur ríkisstjórnin unnið að þessu markmiði?

Ekkert nýtt eða óvenjulegt. Með því að gera það eins auðvelt og mögulegt er að stofna fyrirtæki. Gera það eins auðvelt og mögulegt er fyrir alla (fyrirtæki, lífeyrissjóði og einstaklinga) að fjárfesta í nýjum (litlum) fyrirtækjum. Gera reglugerðaumhverfi fyrirtækja skýrt og auðskilið. Hafa mjög lága skattlagningu á fyrirtæki. Tryggja að hér ríki umburðarlyndi og Ísland bjóði hæfileikafólki úr öllum heiminum velkomin.

Nokkrir punktar sem þarf að muna um frumkvöðla og nýsköpun

Frumkvöðlarnir þurfa síðan að hafa nær blindan metnað til að byggja upp stór fyrirtæki frekar en einungis að stækka nóg til að selja sjoppuna til Google (eins og gerðist með Danmörku og Skype). Til að berjast gegn þessu vandamáli væri kjörið að setja heimskort í allar skólastofur og kenna sérstaklega herferðir Seasars og Napóleon til að sýkja næstu kynslóð af vægum Napóleontendensum þar sem hún teldi sig auðveldlega geta lagt heiminn undir sig.

Síðan má ekki gleyma því að flest frumkvöðlafyrirtæki eiga eftir að klikka, það er ljóta hliðin á skapandi eyðileggingunni hans Schumpeters, hún er útötuð í uppsögnum og gjaldþrotum. Menn verða bara að kyngja því eins og hverju öðru. Fylgir leiknum.

Það er þessi leið óvissunar og tilraunastarfsemi sem þjóðin virðist tilbúin að veðja á. Vonin á það að einhverjir 14 ára krakkar taki sér pásu frá því að spila Grand Theft Auto og búi til næsta Skype.

Lokum því bara augunum, hoppum fram af brúninni og vonum að við lendum á fótunum.

Góða ferð!

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.