Af hnífsstungu í Búlgaríu

Síðastliðinn þriðjudag birtist grein eftir Guðnýju Ævarsdóttur í Morgunblaðinu. Þar lýsti Guðný yfir vonbrigðum sínum með vinnubrögð starfsfólks ferðaskrifstofunnar Apollo. Dóttir hennar þurfti að snúa heim fyrr en ætlað var úr útskriftarferð Verzlunarskólans til Búlgaríu sem var á vegum Apollo vegna árásar sem hún varð fyrir. Tveimur dögum síðar birtist svo svar Tómasar Þórs Tómassonar, framkvæmdarstjóra Apollo-Langferða, við greininni. Í greininni fríar Tómas sig og starfsfólk sitt að öllu leyti ábyrgð og telur það hafa brugðist við atvikinu á réttan hátt.

Síðastliðinn þriðjudag birtist grein eftir Guðnýju Ævarsdóttur í Morgunblaðinu. Þar lýsti Guðný yfir vonbrigðum sínum með vinnubrögð starfsfólks ferðaskrifstofunnar Apollo. Dóttir hennar þurfti að snúa heim fyrr en ætlað var úr útskriftarferð Verzlunarskólans til Búlgaríu sem var á vegum Apollo vegna árásar sem hún varð fyrir. Guðnýju þótti starfsfólk Apollo, bæði í Búlgaríu og hérna heima, leggja sig lítið fram í þessu máli og rakti atburðarrásina í stuttu máli. Tveimur dögum síðar birtist svo svar Tómasar Þórs Tómassonar, framkvæmdarstjóra Apollo-Langferða, við greininni. Í greininni fríar Tómas sig og starfsfólk sitt að öllu leyti ábyrgð og telur það hafa brugðist við atvikinu á réttan hátt. Tómas talar jafnframt um mikla gleði hjá stúdentsefnunum sem hann kvað of mikla á stundum og tekur fram að fararstjórarnir séu ekki gæslumenn. Hann notar tækifærið og auglýsir ferðina sem tilvalda fyrir fjölskyldufólk og ekki síst ungt fólk og tekur það fram að fjarstæða sé að halda því fram að „ribbaldar, mafía og spillt lögregla“ ráði ríkjum á Sunny Beach.

Nú vill svo vel og ekki vel til að ég var í ofangreindri útskriftarferð með Verzlunarskólanum. Margt og mikið gerðist í ferðinni og auðvitað var þarna á ferð fullorðið fólk en ekki allir jafn ábyrgir. Í svona ferðum kann að vera að slys komi upp vegna þess að dómgreindin fær oft að víkja fyrir einhverju miður gáfulegra. Tómas Þór ýjar að því að svo hafi verið í þessu tilfelli; hvað hefur hann fyrir sér í því? Við fengum að kynnast mörgu óskemmtilegu í þessari ferð sem ekki var minnst á í kynningu Tómasar í Verzlunarskólanum. Þar féllum við fyrir frábærri glærusýningu og loforðum um fallega strönd, djamm fram eftir nóttu og ódýrum bjór. Ströndin var svo sem ágæt og bjórinn ódýr, en margir hverjir þorðu ekki út á kvöldin eftir ítrekaðar árásir á skólasystkini sín.

Skólasystir mín og vinkona varð fyrir fyrrgreindri hrottalegri árás á fjórða degi ferðarinnar. Tveir menn viku sér að henni og heimtuðu frá henni pening sem hún hafði ekki í fórum sér. Hún var ein á gangi; en verðskuldaði hún sem sé á einhvern hátt það sem gerðist? Var þetta of mikil gleði? Þeir skáru hana í andlit og handlegg og skildu hana eftir án meðvitundar. Einhvern veginn rataði hún heim á hótel þar sem hún fannst í hótelgarðinum útötuð í blóði. Hringt var á sjúkrabíl í símanúmer sem Apollo gaf upp og sömuleiðis í neyðarsíma Apollo þarna úti. Hún var síðan flutt á heilsugæslu sem leit síður en svo traustvekjandi út, staðsett í öðrum hótelgarði. Fararstjórarnir hittu hana þar, en stoppuðu ekki lengi. Ég hafði m.a. samband við þá og bað þá um að hringja í foreldra vinkonu minnar um leið og þeir hittu hana, en það var ekki gert og fengu þeir engar fregnir af slysinu fyrr en daginn eftir. Meiri afskipti höfðu fararstjórarnir og Apollo ekki af henni, a.m.k. ekki af fyrra bragði. Enda engir gæslumenn. Við heimkomu kom í ljós að sauma hefði þurft sárið og fær hún því að gjalda fyrir þau mistök með ljótum örum. E.t.v. var hún þó heppin því að nokkur skólasystkini mín voru flutt á sömu heilsugæslu vegna ýmiss konar meiðsla sem þurfti að sauma og var þeim tjáð að ekki væru til deyfilyf og þau þyrftu því að bíta á jaxlinn.

Fjölmargir lentu í ryskingum og hótunum þarna úti, bæði strákar og stelpur. M.a. lentu fjórar stelpur í því sem röltu í hóp á leiðinni heim á hótel að kvöldlagi að á þær var ráðist af karlmanni. Hann veittist að þeim, reitti í hárið á einni o.fl. og fékk fljótlega félagsskap fleiri karlmanna. Stelpunum tókst að slíta sig frá þeim eftir einhver átök og komu hlaupandi á hótelið í losti. Þær bættust í hóp þeirra fjölmörgu sem kusu að ,,skemmta sér“ innan veggja hótelsins það sem eftir var ferðarinnar.
Ég má til með að koma inn á yfirlýsingu Tómasar þess efnis að á Sunny Beach séu sko aldeilis ekki spillt lögregla og mafía. Það þykir mér undarlegt í ljósi þess að starfsmenn hótelsins og heilsugæslunnar ráðlögðu þeim Íslendingum sem lentu í hremmingum að leita alls ekki til lögreglunnar, það hefði ekkert upp á sig. Í samtali sem ég átti við einn af íslensku fararstjórunum tók hann undir það og bætti við þeim upplýsingum að e.t.v. ættum við að forðast einn skemmtistaðanna þar sem að mafíósi hefði verið skotinn þar einhverjum árum áður. Tómas hlýtur auðvitað að hafa steingleymt þessu smáa letri á glærunum sínum. Nokkrir af skólasystkinum mínum kynntust lögreglunni enn betur þegar þeir voru settir í handjárn og rukkaðir um pening til að losna – á aðra var miðað skammbyssu. Starfsfólk veitingastaða á Sunny Beach sögðu okkur þetta vera daglegt brauð og við yrðum einfaldlega að borga. Meir að segja á leiðinni út á flugvöll við heimför keyrðum við í rútu fram hjá vegatálmum sem búlgarska lögreglan hafði sett upp á miðjum veginum. Íslenskur fararstjóri frá Apollo útskýrði fyrir okkur í hljóðnemann að hún væri s.s. að rukka alla um fé sem keyrðu fram hjá sér til gamans. Þær upplýsingar fékk hún frá rútubílstjóranum. Við lærðum sem sé snemma í ferðinni að forðast búlgörsku lögregluna, en eins og Tómas segir í sinni grein gæti það einfaldlega stafað af því að við séum ekki nógu upplýstir Norðurlandabúar.

Ég er hjartanlega sammála Guðnýju í að Apollo gegndi ekki skyldum sínum hvað varðar þessa tilteknu ferð. Auðséð er á greininni sem Tómas skrifar þeim til varnar hvaða álit hann hefur á ungu fólki. Enda ber greinin hans nafnið „Að kunna fótum sínum forráð“ og lokaorðin eru „kapp er best með forsjá“. – Staðreyndin er sú að við vorum engan veginn búin undir þau ósköp sem okkur mættu á staðnum og legg ég til að Tómas bæti við glæru eða tveimur fyrir næstu kynningu. Að lokum, Tómasi til upplýsingar, skal tekið fram að flestir höfðu bara gott taumhald á sér og áhyggjur af taumleysi okkar ber vitni um umhyggju, en er, eins og staðreyndirnar bera vitni, um alveg ástæðulaus.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.