Setjum okkur sjálf í forgang

Í dag er síðasti dagur maímánaðar, vorið er búið og á morgun er 1. júní, fyrsti dagur hinna eiginlegu sumarmánaða. Bjartar nætur og blíðudagar eru framundan og loksins loksins – eða bráðum – kemur hið langþráða sumarfrí. Það er afar algengt í nútímanum að fólk gleymi sér við það að uppfylla þær kröfur sem samfélagið gerir til þeirra og fórnar til þess nauðsynlegum hvíldartíma sínum. Slíkt getur valdið vanlíðan og streitu sem aftur veldur röskun á lífsgæðum og jafnvel minnkuðum afköstum. Úr getur orðið heilsuspillandi ástand sem erfitt er að leiðrétta.

Í dag er síðasti dagur maímánaðar, vorið er búið og á morgun er 1. júní, fyrsti dagur hinna eiginlegu sumarmánaða. Bjartar nætur og blíðudagar eru framundan og loksins, loksins, loksins – eða bráðum – kemur hið langþráða sumarfrí.

Á háskólaárunum hugsaði ég oft til þess með tilhlökkun hvernig líf mitt yrði þegar ég loksins lyki námi og kæmist út á vinnumarkaðinn. Ánauð langra lestrardaga, verkefnavinnu og samviskubits yfir aðgerðarleysi myndi ljúka og ef ég yrði heppin myndi félagsmálafíknin dvína og „aukaverkefnunum“ fækka. Við tækju ljúfir dagar afmarkaðra verkefna og vinnutíminn kæmist í fastar skorður. Eftirmiðdagar allt árið um kring yrðu lausir fyrir mig til að gera allt það sem ég hefði sett á bið í svo mörg ár.

Eftir að ég hóf störf á vinnumarkaði hef ég oft hugsað til þess með tilhlökkun hvernig líf mitt verður í næsta fríi. Ánauð langra vinnudaga, verkefnavinnu og samviskubits yfir aðgerðarleysi mun ljúka…

Fríin notuð til að safna kröftum
Raunin er sú að, rétt eins og ég var ekki ein um hugsanir mínar á háskólaárunum, þá er ég ekki ein um þær núna heldur. Mér virðist það einfaldlega vera viðkvæðið að fólk vinnur á milli fría. Því fleiri frídagar, því betra og ef hægt er að vinna sér inn aukafrídaga er það best af öllu. Svo þegar fríin fara að nálgast heyrir maður í hverju horni: „Loksins, loksins, loksins hvíld. Nú ætla ég svo sannarlega að sofa og hvíla mig, njóta tímans með fjölskyldunni, gera allt sem hefur beðið svo lengi og koma endurnærð/ur til baka.“ Útkeyrt fer fólk í frí og notar dagana til að safna kröftum. Þegar það er rétt að ná jafnvægi er kominn tími til að mæta aftur til vinnu.

Allir dagar eru hvíldardagar
Það er gott og heilsusamlegt að una sér hvíldar. Það á ekki bara við á lögboðnum frídögum heldur alla aðra daga líka. Nú kunna margir að grípa til hins hefðbundna íslenska hugsunarháttar og líta svo á að með þessu sé ég að boða lesendum leti en svo er ekki. Þrátt fyrir aukna vitund heilbrigðisstétta um mikilvægi hvíldar og einkalífs fyrir andlega og líkamlega heilsu virðast Íslendingar ekki geta látið af slíkum hugsunarhætti. Það þykir ekki benda til mikils metnaðar eða vinnusemi að setja sjálfan sig í forgang. Það er töff að afboða sig hjá vinunum vegna þess að maður er fastur á fundi en það er ekki töff að hafna fundarboði vegna þess að maður er fastur með vinunum. Maður er ekki upptekinn ef maður er heima hjá sér og það að hafna nýjum verkefnum og áskorunum til að eiga tíma fyrir sjálfan sig og sína nánustu er oftar en ekki túlkað sem ótti, getuleysi, eigingirni eða hrein og bein leti.

Nauðsynlegt varnarkerfi huga og líkama
Fjöldinn allur af rannsóknum sýnir að þrotlaus vinna og skortur á eða illa nýttur hvíldartími veldur streitu. Streituvaldar eru þó ekki einungis vinnutengdir heldur eru þeir af ýmsum toga. Flestar breytingar, góðar eða slæmar, valda streitu í einhverju magni. Óvissa okkar um eigið hlutverk, hvort sem er í vinnu eða í einkalífi, getur einnig valdið streitu, sem og sú tilfinning að geta ekki haft áhrif á líf okkar með þeim hætti sem við viljum. Streita setur heila okkar í viðbragðsstöðu sem býr okkur undir það að bregðast við hættum í umhverfi okkar. Þetta er nauðsynlegt varnarkerfi huga og líkama en þó virðist það í auknum mæli vera farið að fara af stað undir kringumstæðum sem ekki fela í sér raunverulega hættu heldur tilbúna hættu. Við lifum á tímum stöðugra breytinga og framfara. Samfélagið er í eðli sínu óstöðugt og það sem er rétt eða þarft í dag getur verið rangt eða óþarft á morgun. Ríkar kröfur eru gerðar til einstaklinga um frammistöðu, hvort sem er í vinnu eða heima við og oft er erfitt að velja hvert öruggt er að beina orkunni.

Í ljósi tíðrar umfjöllunar og vitundarvakningar um streitu síðustu ár ætti flestum að vera kunnugt um að streita getur valdið bæði líkamlegum- og andlegum kvillum. Fyrstu og algengustu einkenni streitu eru t.d. höfuðverkur, svefntruflanir, erfiðleikar við einbeitingu, skapstyggð, magakvillar, óánægja í starfi, vöðvabólga og kvíði. Það segir sig sjálft að jafnvel þó maður fyndi einungis fyrir einum þessara kvilla hefur það gríðarleg áhrif á lífsgæði manns, vellíðan og þar með afköst og getu til að gefa af sér þar sem þess er þörf. Úr þessu getur orðið vítahringur sem erfitt er að leiðrétta.

Virðum hvíldartímann
Það er afar mikilvægt í nútímasamfélagi að við lærum að þekkja okkur sjálf og eigin takmörk. Þannig getum við brugðist við á réttan hátt ef við finnum að eitthvað í umhverfi okkar veldur því að vellíðan hefur verið skipt út fyrir streitu sem hætta er á að valdi verulegri röskun á lífsgæðum. Forvarnir eru besta lausnin.

Það hefur verið sett fram uppskrift að lífsháttum án streitu. Í henni felst meðal annars að sofa vel til að koma í veg fyrir uppsafnaða þreytu, læra slökun og nota hana, nærast vel af hollum og trefjaríkum mat, rækta líkama sinn, setja sér markmið í lífinu til að gefa því tilgang og öðlast sjálfsvirðingu og að rækta leikina sína og barnið í sjálfum sér, þrátt fyrir þær skyldur sem kunna að hvíla á manni. Þetta á við alla daga, allt árið um kring. Ekki bara í fríum. Tilgangurinn með fríum er ekki að losa um uppsafnaða þreytu og streitu, skipuleggja líf sitt og safna kröftum fyrir næstu törn. Tilgangurinn er að skapa aukinn frítíma til að nýta þann kraft sem maður hefur til að skapa sér og sínum ánægjulegar stundir. Sumarið er góður tími til að byrja að setja sig í forgang. Njótum hvers dags og virðum hvíldartímann sem á að vera helgaður okkur sjálfum og þeim sem okkur þykir vænt um, líka þá daga sem ekki teljast til sumarfrísdaga. Annað er beinlínis hættulegt.

Heimildir:
www.persona.is
www.doktor.is

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)