Hvernig á að kjósa og hvað skal varast?

Helgarnesti dagsins snýst að sjálfsögðu um sveitarstjórnarkosningarnar á morgun.

Eins og vafalaust hefur ekki farið fram hjá neinum nema þeim allra fjölmiðlafælnustu eru sveitarstjórnarkosningar á morgun. Kosið verður um allt land um 529 sveitarstjórnarsæti til næstu fjögurra ára í 79 sveitarfélögum. Fyrir fjórum árum síðan var kosið um stjórnartaumana í 105 sveitarfélögum svo að þeim hefur fækkað um 26 á kjörtímabilinu. Minnsta sveitarfélagið sem kosið er í núna telur einungis 50 íbúa en það stærsta 114.968. Meðalíbúafjöldi sveitarfélaganna 79 er hins vegar 3.796 og er stærð þeirra frá tveimur upp í 8.884 ferkílómetra.

Atburðurinn að kjósa er í eðli sínu mjög einfaldur en þrátt fyrir það tekst ávallt einhverjum að klúðra því að atkvæði þeirra telji. Það er því gott fyrir lesendur Deiglunnar að leggja á minnið eftirfarandi reglur sem gilda um kosningar:

Atkvæðagreiðsla við bundnar hlutfallskosningar

Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt að hann markar með ritblýi kross á kjörseðilinn fyrir framan bókstaf þess lista sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru.
Vilji kjósandi breyta nafnaröð á lista þeim er hann kýs setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn er hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa það þriðja o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til.
Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans.
Kjósandi gætir þess, hvernig sem hann kýs, að gera engin merki á kjörseðilinn fram yfir það sem hér segir.
Kjósandi má ekki hagga neitt við listum sem hann kýs ekki, hvorki strika yfir nöfn á þeim né breyta á þeim nafnaröð.

Fari kjósandi ekki að þessum fyrirmælum er því líklegt að atkvæði hans verði ógilt og teljist því með ‘auðum og ógildum’. Að vissu leyti má telja það undarlegt því að það er ákveðin afstaða fólgin í því að skila auðu en hins vegar er engin afstaða sem felst í ógildu atkvæði enda í flestum tilvikum sem kjósendur sjálfir hafa klúðrað atkvæðinu. Margir strika t.a.m. út frambjóðendur af öðum listum en þeir kjósa en það ógildir atkvæðið eins og sést hér að ofan. Sumir eru þó frumlegri og hafa fengið ógildingu atkvæðisins síns með því að semja ljóð á atkvæðaseðilinn eða dulin skilaboð til yfirvalda.

Þó að kosningar séu í eðli sínu tiltölulega einfalt fyrirbæri gilda um þær margvíslegar reglur eins og um margt annað hjá hinu opinbera. Fyrir utan áðurnefndar leiðbeiningar um atkvæðagreiðslu eru t.a.m. reglur um áróður á kjörstað eða öllu heldur bann við áróðri á kjörstað á kjördag, talningar atkvæða og framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu svo fátt eitt sé nefnt. Sömuleiðis má finna ákvæði um sektir brjóti menn gegn lögum um sveitarstjórnarkosningar. Í 102. grein laga um kosningar til sveitarstjórna segir:

Eftirtalið varðar sektum:
a. ef maður býður sig fram til setu í sveitarstjórn vitandi að hann er ekki kjörgengur,
b. ef maður býður sig fram á fleiri listum en einum,
c. ef kjósandi ónýtir af ásettu ráði atkvæðaseðil sinn við kosningu á kjörfundi eða við kosningu hjá utankjörfundarkjörstjóra,
d. ef kjósandi sýnir af ásettu ráði hvernig hann kýs eða hefur kosið,
e. ef maður njósnar um hvernig kjósandi kýs eða hefur kosið,
f. ef kjósandi gerir sér upp sjónleysi eða önnur forföll til að fá aðstoð við kosningu,
g. ef maður vanrækir af ásettu ráði að koma til skila atkvæðabréfi sem honum hefur verið trúað fyrir eða tefur vísvitandi fyrir sendingu atkvæða og kjörgagna,
h. ef maður gefur ónákvæmar eða villandi upplýsingar um sig eða aðra á þann hátt sem greint er í d-lið 92. gr., ef ekki liggur þyngri refsing við eftir öðrum ákvæðum þessara laga eða eftir öðrum lögum,
i. ef maður gefur út villandi kosningaleiðbeiningar.

Það ágætt fyrir bæði kjósendur og frambjóðendur að hafa 102. grein laganna á hreinu. Það væri t.a.m. vont ef Björn Ingi hefði ákveðið að bjóða sig fram bæði fyrir exBé og Frjálslynda til að auka líkur á því að hann næði kjöri og því gott að vita til þess að hefði hann gert það fengi hann sekt. Hinn almenni kjósandi ætti þó að hafa í huga lið d) hér að ofan því samkvæmt honum getur hann fengið sekt b ef hann sýnir af ásettu ráði hvernig hann kýs eða hefur kosið/b. Með þetta í huga er spurning hvort maður leggi í að skila atkvæði sínu í kjörkassann því þá er maður af ásettu ráði að sýna hvað maður kaus. Gæti maður verið sektaður fyrir það?

Að lokum vill pistlahöfundur hvetja alla nær og fjær til að nýta atkvæðisrétt sinn á morgun. Með það í huga er þó vonandi að lesendur þessa pistils ruglist ekki í ríminu í kjörklefanum því samkvæmt lögunum er refsivert að gefa út villandi kosningaleiðbeiningar og gæti því pistlahöfundur átt von á vænum sektarmiða eftir helgi.

Gangið hægt um gleðinnar dyr á kosninganótt. Góða helgi!

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)