Islam

Þriðjungur manna í heiminum telst til kristinnar trúar og um 20% til islamstrúar. Líklega hefur aldrei verið mikilvægara en nú á tímum ört vaxandi fjölmenningarsamfélaga og viðameiri menningarlegra árekstra að kynna sér inntak islam.

Upphaf Islam

Upphaf Islam má rekja til Arabíuskagans en þar fæddist Múhameð spámaður í borginni Mekka árið 571 e.Kr. Múhameð var af ættinni Quraish sem var mikilsvirt fyrir að hafa umsjón með Kaaba, hinu helga hofi í Mekka. Múhameð var verslunarmaður sem tók 25 ára gamall bónorði 40 ára gamallar ekkju, Kahdiju og eignaðist með henni börn.
Múhameð var alvörugefinn maður sem eyddi oft nóttum í helli einum við hugleiðslu og bænir. Það gerðist síðan eina nóttina, ca. 610 e.Kr. þegar Múhameð var í leiðslu að Gabríel erkiengill birtist honum. Þegar Múhameð vaknaði úr leiðslunni fór hann með orðin sem Gabríel hafði sagt honum. Fylgjendur Islam telja að Gabríel erkiengill hafi birst Múhameð spámanni yfir 20 ára tímabil, og þessar opinberanir samanteknar séu þau orð sem síðar urðu að texta Kóransins, helsta trúarriti múslima.
Í trúboði sínu aflaði Múhameð sér fleiri fjandmanna en fylgjenda og var hann hrakinn frá Mekku árið 622 e.Kr., en við það ár miða múslimar tímatal sitt. Múhameð vann Mekku síðan aftur árið 630 e.Kr. og lést tveimur árum síðar.

Inntak Islam

Islam þýðir í raun ,,sá undirgefni’’og sá sem játast islamskri trú er undirgefinn Allah sem er gríska orðið yfir guð. Þeir sem trúa á Allah kallast múslimar. Sá guð sem múslimir trúa á er sá hinn sami og guð gyðinga og kristinna.
Múslimar trúa því að Múhameð sé sá síðasti í röð spámanna Guðs en meðal fyrri spámanna voru þeir Adam, Nói, Abraham, Móses og Jesú. Þeir trúa því að opinberanir hans séu kennisetningar þær sem mönnum ber að lifa eftir fram að dómsdegi. Þessar kennisetningar séu gallalausar og óumbreytanlegar, þær séu síðasta opinberun Guðs til mannkyns.
Talið er að um 20% íbúa jarðarinnar séu islamstrúar, en kristnir telji um þriðjung.

Fimm stoðir islamstrúar eru:
1. Vitna um að aðeins sé til eini guð og að Múhameð sé spámaður hans
2. Bænahald fimm sinnum á dag
3. Fasta frá sólarupprás til sólseturs í Ramadan mánuði
4. Gefa ölmusu til fátækra
5. Fara að minnsta kosti einu sinni í pílagrímsferð til Mekka

Í islam eru hvorki prestar né kirkja. Moskur eru bænastaðir þeirra.

Kóraninn

Kóraninn er hin helga bók Islam. Kóraninn er talinn hafa verið ritaður af fylgismönnum Múhameðs og að rituninni hafi verið lokið 10 árum eftir andlát hans. Kaflar Kóransins eða súrur eru 114 alls, og ritið byggt þannig upp að lengstu súrurnar eru fremst og síðan styttast þær eftir því sem aftar dregur. Kóraninn er skrifaður á ljóðrænan máta og telja múslimar enga leið svo vel sé að þýða hann frá arabísku, enda biðja múslimar á arabísku þó þeir séu ekki arabar. Ekki er litið á Kóraninn sem bók heldur heldur texta sem til er eilíft eintak af á himnum. Múslimar bera mikla virðingu fyrir Kóraninum, vefja hann gjarnan hreinum klúti og farga ritunum aldrei þó úr sér séu gengin, heldur grafa í jörðu.
Samkvæmt Kóraninum er einn almáttugur og miskunnsamur Guð, sem skapaði himinn, jörð og menn. Vegir hans eru órannsakanlegir, en þegar komi að heimsenda muni Guð dæma lifendur og dauða. Til er himnaríki fyrir réttláta og helvíti fyrir þá sem ganga gegn Guði. Menn fæðist með frjálsan vilja til að velja hvort verði.
Í stuttu máli má síðan segja að Kóraninn sé nokkurs konar leiðbeiningarit um siðferði og mannlega hegðun.

Íslömsk lög

Islam er ekki bara trú, heldur felur einnig í sér stjórnskipulag, lög og reglur.
Islömsk lög virðast ná yfir alla fleti lífsins, allt frá stjórnvöldum og utanríkistengslum til afskaplega hversdagslegra hluta í lífi einstaklingsins. Maðurinn er ófullkominn vera sem stjórnast af ástríðum og eigingirni, og getur upp á sitt einsdæmi illa greint muninn á réttu og röngu. Því sendi Guð spámenn til að leiðbeina mönnum um líf sitt og samfélagsskipan. Menn geta misnotað sjálfa sig og steypt sér í glötun, og meitt aðra, en lögin eiga að hjálpa mönnum til að forðast þetta. Þau eiga að tryggja það að einn maður meiði ekki annan og gangi ekki á rétt annarra. Jafnframt eiga þau að hjálpa mönnum til lífernis sem er líklegt til dýpri skilnings. Þessi fræðsla guðs tekur því beinlínis til þeirra hluta sem löggjöf mannlegra samfélaga snýst um, hinsvegar er hún oft á tíðum heldur ónákvæm og þarfnast túlkunar við.

Islömsk lög heita Sharia. Kóraninn er helsta uppspretta þeirra en einnig er efniviður sóttur í fordæmi,túlkanir og ummæli Múhameðs sem nefnast sunna á arabísku. Eftir að Múhameð lést fóru að skapast vandræði vegna þeirra mörgu mismunandi ummæla og túlkana sem í gangi voru, margar hverjar hagkvæmur uppspuni einhverra til að túlka lögin sér í hag. Af þessum sökum hófst umfangsmikil og nákvæm vinna á uppruna allra túlkananna og hvort hægt væri að rekja þær beint til Múhameðs eða fylgismanna hans. Niðurstöður þessa voru síðan gefnar út á bók, en ein þeirra sem kom út um 860 e.kr. er í 97 bindum, og hafði höfundur þeirrar bókar rannsakað um 20 þúsund ummæli eða hadith en aðeins getað rakið 3 þúsund þeirra til spámannsins. Þannig má segja að sharia samanstandi af almennari og afdráttarlausari lögum úr Kóraninum og síðan nákvæmari viðbrögðum eða túlkunum Múhameðs á ákveðnum atvikum.
Þannig var islömsku samfélagi búin lög og úr varð það lagakerfi islam, sharia, sem enn eru óbreytt síðan þá. Það er mismunandi eftir landssvæðum hvort sharia lagakerfið er eitt við lýði, en það á þó við t.d. í Íran, Saudi-Arabía, Súdan og mjög víða annars staðar.

Sharia tekur til ekki einungis til laga og reglna, heldur líka til skyldna manna gagnvart sjálfum sér. Þar á meðal má telja bann við áfengisdrykkju, neyslu eiturlyfja eða svínakjöts, bann við iðjuleysi, og bann við því að menn svelti kynlífsþarfir sínar, eða stundi kynlíf á þann veg að þeir hljóti meiðsli af á anda eða líkama. Þessir hlutir er allt dæmi um það sem múslimar skilgreina sem nokkuð sem er slæmt fyrir líkama manna og sál.

Það er fróðlegt að rýna í muninn á viðhorfum islam og kristinnar trúar til kynlífs. Í islamstrú er menn hvattir til að njóta kynlífs eins og þeir geta, en þó innan hjónabandsins. Í islam er körlum líka sérstaklega leiðbeint um það konur þeirra njóti sín líka í kynlífi, og gaf Múhameð m.a.s. nokkur góð ráð um það hvernig karlar gætu aukið unað kvenna sinna af kynlífi. Kynlíf er talið vera ein af bestu gjöfum guðs og það ber ekki að forðast. Páll postuli gaf kristnum einmitt á sínum tíma þá línu til að fylgja að æðra væri að forðast kynlíf en njóta þess, og enn í dag hefur kaþólska kirkjan bann við samlífi til annars en að geta börn. Skemmst er frá að segja að múslimum finnst þetta alveg galið.

Islam og kristni

Það er óhætt að segja að inntak islam hljómi eilítið kunnuglega. En þegar þessum grundarvallaratriðum í trúnni sleppir fara þeir ólíku menningarheimar sem fóstra síðan trúna að setja mark sitt á. Talað er um að við þessi skil torveldist öðrum en þeim sem eru islamstrúar að skilja Kóraninn, því þá skorti vissa samfélagslega sýn á það umhverfi sem skóp hann.
Múslimar gagnrýna trúfræði kristinna vegna þrenningarkenningarinnar, og finnst fáránlegt að ætla að Jesú hafi í raun veru verið sonur Guðs og hafi því guðlega náttúru, hvað þá að kristnir ætli heilögum anda sérstaka persónu. Þeir merkja þrenningarkenninguna fjölgyðistrú. Múslimar telja spámennina aðeins hafa verið dauðlega menn og hinn eina guð vera efnislausan og því fráleitt og bannað að persónugera hann í myndum eða líkneskum.

Múslimar telja fyrri spámenn þ.á.m. Jesú hafa afbakað og mistúlkað orð guðs, og vegna þess að kristnir hafi viljandi átt við texta Nýja Testamentisins og gyðingar viljandi átt við texta hebresku biblíunnar hafi nauðsynlegt reynst að veita Múhameð, hinum síðasta spámanni, hina réttu útgáfu af vilja guðs, þann sem ritaður er í Kóraninn.

Hér hefur aðeins verið tæpt á helstu einkennum islam, og reynt að tiltaka ákveðin líkindi og ólíkindi við kristna trú. Umfjöllunin er hvergi nærri tæmandi. Pistlahöfundur hvetur fróðleiksfúsa lesendur eindregið til að líta á ítarefni hér að neðan enda um óendanlega heillandi og merkilega menningu að ræða sem líklega hefur aldrei verið meiri nauðsyn en nú að reyna að kunna skil á og skilja, á tímum ört vaxandi fjölmenningarlegra samfélaga.

Wikipedia
Vísindavefurinn
Islamcity

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.