Serena á senuna

Íþróttadeild Deiglunnar hefur fylgst grannt með keppni á opna bandaríska meistaramótinu í tennis síðustu dægrin. Hin holdmikla og kraftalega Serena Williams hefur algjörlega stolið senunni. Hún sigraði systur sína Venus í úrslitaleiknum með miklum yfirburðum – kannski of miklum…?

Bandaríska stúlkan Serena Williams er fremsta tenniskona heims nú um stundir, á því leikur enginn vafi eftir þriðja sigur hennar á stórmóti á þessu ári nú um helgina. Þessi holdmikla og kraftalega stúlka sigraði alla andstæðinga sína á opna bandaríska meistaramótinu með miklum yfirburðum, þ. á m. eldri systur sína Venus í úrslitaleiknum.

Þær systur hafa verið allsráðandi á tennisvellinum síðustu misseri og oftar en ekki mæst í úrslitum. Á opna bandaríska meistaramótinu í fyrra sigraði Venus systur sína nokkuð auðveldlega en á Wimbledon mótinu í ár snérist dæmið við, og Serena vann auðveldan sigur. Fyrir utan þá yfirburði sem systurnar virðast hafa, hefur einna mesta athygli vakið hversu einhliða leikir þeirra innbyrðist eru alla jafnan – önnur hvor sigrar yfirleitt með talsverðum yfirburðum.

Þetta hefur leitt til þess að íþróttaspekúlantar hafa velt vöngum yfir því, hvort úrslitin í innbyrðis viðureignum þeirra séu hugsanlega ákveðin fyrirfram. Hvernig mætti það annars vera, að systurnar vinni alla andstæðinga sína með yfirburðum, en skiptist síðan á að rúlla hvor yfir aðra? Er ekki líklegra að tvær bestu tenniskonur heims háðu jafna og spennandi leiki sín á milli?

Til samanburðar má nefna tvo aðra Bandaríkjamenn, sem eru á svipuðu reki í tennisheiminum, þá Andre Agassi og Pete Sampras. Þeir hafa verið keppinautar frá 12 ára aldri og mæst fjölmörgum sinnum á stórmótum. Að jafnaði eru viðureignir þeirra jafnar og spennandi, og hreinlega stórkostlegt að fylgjast með keppninni þeirra á milli. Þeir eru keppinautar eins og keppinautar eiga að vera – harðfylgnir heiðursmenn.

Þetta keppnisskap er víðs fjarri þegar tvær bestu tenniskonur heims eigast við. Þar er einsýnt frá upphafi leiks, að dagsform annarrar hvorrar er miklu mun betra en dagsform hinnar. Niðurstaða leiksins er ráðin frá fyrstu uppgjöf. Það væri hinni skemmtilegu tennisíþrótt vafalítið til framdráttar ef þessar tvær bestu tenniskonur heims kepptu sín á milli af fullri einurð. Frægðarsól Williams-systra verður fljótt að hníga ef aðdáendur íþróttarinnar fá frekar en orðið er á tilfinninguna, að leikir þeirra í milli séu formsatriði.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)