XD, exBé eða bara exit?

Helgarnestið að þessu sinni beinir m.a. sjónum sínum að tengslum raunveruleikasjónvarps og borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík.

Helgarnestið að þessu sinni beinir m.a. sjónum sínum að tengslum raunveruleikasjónvarps og borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík.

Fjölmiðlamenningin hefur breyst mikið á 21. öldinni, uppistaðan í efni sjónvarpsstöðvanna eru raunveruleikaþættir sem ganga flestir út á fegurð og hæfileika eða skort á öðru hvoru eða jafnvel hvoru tveggja. Það er meira að segja til sér sjónvarpsstöð sem sýnir nær eingöngu sjónvarpsþætti þar sem að því er virðist vitgrannir spjátrungar reyna eftir fremsta megni að segja brandara á milli þess sem þeir meiða sig sem mest með fáránlegum uppátækjum og auglýsa hjálpartæki ástarlífsins. Fáránleikinn tröllríður dægurmenningunni og miðlun upplýsinga verður í senn auðveldari og marklausari. Þrándur í götu verður næsta videobloggstjarna meðan Snorri á verkstæðinu syngur sig inn í hjörtu þjóðarinnar – nýtt poppædol er fætt.

Stór hópur ungs fólks eyðir meiri tíma í áður óþekktum víddum og kannar framandi og spennandi heima Eve og Everquest. Það stofnar fjölskyldu og á vini sem það hefur aldrei hitt, upplifir sorgir og gleði, giftir sig og skilur – alveg eins og í raunveruleikanum.

Það er þó eingöngu hinn framleiddi raunveruleiki sem virðist kveikja glóð hjá ungu fólki í dag. Raunverulegi raunveruleikinn er nefnilega allt að því drepleiðinlegur. Krónan er raunverulega fallandi, kreppa virðist í nánd og bráðsmitandi fuglar flykkjast til landsins – þó þeir virðist ögn lengur á leiðinni en hin dramatíska fréttastofa NFS hefur predikað á árinu. Já, er það nema von að Íslendingar leiti í framleiddan raunveruleika þar sem allir geta orðið stjörnur, fyrirsætur eða farið á 30 spennandi stefnumót á þremur vikum með 10 mismunandi konum? Nei, líklega ekki.

Þessi framleiddi raunveruleiki og allt það sem hann hefur fram yfir hinn raunverulega setur ákveðna hópa í vanda. Hvernig eiga til dæmis stjórnmálaflokkar að ná til ungs fólks í dag? Stjórnmál eru nefnilega eins fjarri þeim framleidda raunveruleika og hægt er að komast; tærasta birtingarmynd raunverulega raunverulegs og þar af leiðandi drepleiðinleg. Af hverju að spá í því hvað maður á að kjósa og hvernig borginni verður stjórnað þegar alltaf er hægt að flýja í hinn framleidda raunveruleika tölvuleikja og sjónvarps?

Nú eru einungis fjórar vikur, og Degi B.etur, til kosninga og loks er farið að hitna í kolunum. Hugmyndasérfræðingar framboðanna hafa greinilega lagt höfuðið í bleyti og útkoman er öðruvísi en áður. Útlitið, framsetningin og kosningamálin matreidd ofan í raunveruleikakynslóðina.

Félagarnir í Queer eye hafa pottþétt haft nóg að gera. Fyrst var það Björn Ingi sem mætti til þeirra og kom út ljósabrúnn og skælbrosandi í sérvöldum jakkafötum frá Villeroy & boch. Hann hafið vart lagt frá sér Biblíu fallega fólksins eftir ofurtöffarann Gilzenegger þegar Vala Matt. bauð honum í Innlit útlit, en án innlitsins að sjálfsögðu. Síðar mætti Sjálfstæðisflokkurinn allur til drengjanna hýru og kom til baka – já, haldiði ykkur fast – BLEIKUR! Þegar frýs í helvíti hefði maður haldið. Beckhamar og Arnar Gautar landsins hafa skotið metrósexjúalismanum í hæstu hæðir og knúið fram breytingar hjá íhaldsamasta stjórnmálaflokkinum. Ekki nema að feministarnir, sem hafa í gegnum tíðina fundið nýja bleika flokkinum flest til foráttu, geti eignað sér heiðurinn af hamskiptunum. Bleikt og blátt er í það minnsta söluvæn tvenna.

Stærsta breytingin fyrir þessar kosningar hlýtur þó að vera Framsóknar. Í anda alvöru íslensks alþjóðlegs fyrirtækis er gamla nafnið ekki nógu gott. Flugleiðir urðu FL Group, Íslandsbanki varð Glitnir og Framsókn varð exBé. Líklega hefur sama hugmyndafræði legið að baki nafnabreyingum Glitnis og exBé. Gamla nafnið á það til að valda ruglingi og þykir ekki sérlega markaðsvænt í nútímasamfélagi, sérstaklega á nýjum mörkuðum. Í tilfelli Glitnis er þessi nýi markaður útlönd en hjá exBé nýir kjósendur. Kjósendur af MSN kynslóðinni sem skilja ekkert nema skammstafanir á borð við GSM, LOL, FYI og OMG* taka eflaust exBé fagnandi, í það minnsta að mati ímyndarfræðinganna. Ekki er svo verra að krydda herferðina með poppuðum baráttumálum í anda vatnaveraldar og sædýrasafns í Laugardalnum að ógleymdu skautasvelli í Perlunni.

Bleiki Sjálfstæðisflokkurinn, Dagur Bé, exBé og sú Vinstri-Græna vilja svo öll mismunandi Sundabraut ýmist í göngum eða sem brú nema hvort tveggja sé. Meðan menn geta ekki sammælst um jafnmikilvæga samgöngubraut og Sundabrautin yrði, í heimi ofurpoppaðs fyrrum Framsóknarflokks með sólbrúnan skóladreng í broddi fylkingar spyr Helgarnestið:

Er það nema von að raunveruleikakynslóðin haldi sig fjarri íslenskum stjórnmálaveruleika og í stað XD og exBé velji það EXIT?

*Fyrir þá sem eru eldri en tvévetra þá þýða þessar skammstafanir:

GSM = Global System Mobile
LOL = Laughing Out Loud
FYI = For Your Information
OMG = Oh My God

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)