Ríkisstarfsmenn eru óvinurinn II

Það er ótrúlegt fyrir ungt fólk að hugsa til þess að árið 2006 er til hópur af fólki á Íslandi sem telur sig eiga skilið að það sé fé tekið af öðru fólki til þess að veita þeim störf við það sem þeim finnst gaman. Þessi hópur gengur sameiginlega undir nafninu ríkisstarfsmenn.

Hefðu starfsmenn einkafyrirtækis gefið sér tíma til að fjarlæga dýrshræið áður en þeir máluðu götuna? Eg veit það ekki, en ríkisstarfsmennirnir skrifuðu örugglega langa vandaða skýrslu um málið

Það versta við ríkisstarfsmenn er kannski sú staðreynd að þeir virðast stundum sjálfir sjá ekkert athugavert við það að fé hafi verið rifið úr höndum á fólki sem vinnur við heiðarlega verðmætasköpun og sett í staðinn í hendur á fólki sem vinnur fyrst og fremst við að hindra verðmætasköpun. Hér er fyrst og fremst átt við eftirlitsstofnanirnar.

Tökum annað dæmi: hina nýstofnuðu Nýsköpunarskýrslugerðarmiðstöð Íslands (af einhverri ástæðu gleymdist orðið “skýrslu” í upprunalegum titli hennar en það hlýtur að vera lagað fljótlega… eftir að greinagóð skýrsla hefur verið skrifuð um málið). Þetta er stofnun sem veltir hundruðum milljóna í að láta fólk skrifa skýrslur og senda sín á milli.

Ef ríkisstjórnin vildi í alvörunni styrkja nýsköpun þá ætti hún bara að veita skattafslátt af þróun á nýjum, tilraunakenndum verkefnum. En nei, það verður að skrifa skýrslur, gera SVÓT greiningar og skrifa marklausar markaðsgreiningar og þetta skal vera gert á SAUÐARKRÓKI!

Einu störfin sem þessi nýja ríkisstofnun mun skapa eru þau störf sem verða stofnuð á Sauðárkróki, við skýrsluskrif (og verkefnastjórnun yfir skýrsluskrifunum að sjálfsögðu).

Hvernig væri nú ef við myndum taka okkur saman og skera hressilega niður óþarfa ríkisstarfsmenn. Leyfa þeim að koma út í hið frjálsa andrúmsloft athafnafólksins. Þar sem verðmæti eru sköpuð, ekki sköðuð. Svona þjóðarátak væri þarft.

Auðvitað væru sumir andsnúnir þessu og myndu reyna að starfa sjálfstætt að sínum hugarverkefnum. Þá gætum við beðið spennt eftir fjáröflunarbréfum eins og þessu í póstinum:

Kæri Íslendingur,

Í Íslensku þjóðfélagi er ennþá til fólk sem hefur ekki móttekið hin einu sönnu rétta sannleika: það er rangt að reykja! Þetta fólk er blettur á samfélagi okkar og kemur slæmu orði á okkur hin sem reykjum ekki. Saman þurfum við að berjast gegn þessari óværu og hjálpa bræðrum okkar og systrum að sjá ljósið frekar en glóðina.

Það er þessvegna sem um leið og ég sendi þér þennan gíróseðil upp á 3.500 kr að ég óska þess að þú styðjir sjálfan mig til þess að geta haft áfram fullt starf af því að berjast gegn þessum ósóma. Ekki einungis verður styrkur þinn nýttur í laun mín heldur einnig í auglýsingar í fjölmiðlum, bæklingagerð og fjölda annarra sniðugra uppátækja sem verða auglýst síðar.

Ég vona að þú sjáir þér fært að opna veski þitt í þessari mikilvægu baráttu fyrir samvisku þjóðarinnar. Stuðningur þinn mun ekki gleymast.

Þinn vinur,

Þorgrímur Þráinsson

Eitt að lokum: hvað þarf marga félagsfræðinga hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar til þess að skipta um ljósaperu?

Einn. En það þarf tuttugu til þess að skrifa saman ritrýndu greinina: “Tekist á við myrkrið: póstmódernískar breytingar á atferli og sálarheil starfsmanna við ófyrirséðar sviptingar í ljósstigi á opinberum fólkvangi”

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.