Snautaðu út!

Sífellt fleiri Íslendingar leggja land undir fót og halda til náms erlendis. Ávinningur þess er mun meiri en mælist eingöngu með náminu sem slíku. Það er því ástæða til að hvetja námsmenn til að pakka pennaveskinu og ullarbrókinni og drífa sig út í nám.

Fyrir fólk sem stefnir á háskólanám er að mörgu að hyggja. Einn hausverkurinn snýst um að finna sér námsgrein við hæfi og annar um hvar stunda skuli námið sem fyrir valinu verður. Á síðasta áratug eða svo hefur orðið töluverð framför í námsframboði á háskólastigi á Íslandi, ekki bara í námsgreinum heldur er nú einnig mögulegt að stunda nám í fleiri skólum en áður. Aukið úrval er að sjálfsögðu hið besta mál þó ekki væri nema vegna samkeppninnar sem það skapar milli skólanna sem aftur er líkleg til að hafa jákvæð áhrif á þróun námsins og gæði.

Íslenskir skólar eru ekki aðeins í samkeppni innbyrðis heldur einnig í samkeppni við erlenda skóla og virðist sem fórráðamenn íslensku háskólanna séu farnir að taka aukið tillit til þessa í sínum áætlunum. Nýlega setti rektor Háskóla Íslands til að mynda fram hugmyndir um að koma skólanum í fremstu röð m.a. með aukinni rannsóknaráherslu (um þessar fyrirætlanir og markmið er fjallað í pistli sem birtist hér á Deiglunni fyrir skemmstu). Háskólinn í Reykjavík hefur lagt talsvert upp úr því að fá erlenda kennara til samstarfs við sig og Háskólinn á Bifröst hefur lagt m.a. út frá sérhæfingu í sínu námsframboði. Fjölbreytt áhersla mismunandi háskóla eru af hinu góða og skapar væntanlegum nemendum aukna valkosti.

Á hverju ári heldur fjöldi íslendinga til náms erlendis, bæði til að sækja sitt grunnnám sem og framhaldsnám. Vegna smæðar Íslands er námsframboðið á framhaldsstigi (masters og doktors) mun minna en í grunnnáminu þó framboðið hafi verið að aukast þar einnig. Það er því eðlilegt að námsmenn, sérstaklega þeir sem stefna á framhaldsnám, taki stefnuna á útlönd.

En það vinnst fleira en námsgráðan og sú þekking sem henni fylgir á því að stunda nám á erlendri grundu. Það að búa í öðru landi, umgangast fjölbreyttan hóp samnemenda, kynnast fólki af ólíkum þjóðernum og menningarbakgrunnum, miðla af reynslu sinni og læra af reynslu samnemanda, kennara og íbúa gefur náminu nýja vídd. Persónuleg skoðun undirritaðs er að það sem námsmenn fá “í kaupbæti” umfram sjálft námið sé álíka mikils virði og sú þekking sem þeir innbyrða í náminu.

Það getur verið heilmikið fyrirtæki að taka sig upp frá Íslandinu góða og halda á ný mið þó vissulega fari umstangið mikið eftir því hvar námsmanninn ber á endanum niður. Það getur tekið á þolinmæðina og taugarnar að koma sér inn í “kerfið” í viðkomandi landi og öðlast þau réttindi sem nauðsynleg eru. Þetta er hins vegar allt saman hluti af heildarpakkanum og kennir manni ekki síður á lífið og bætir við reynsluheiminn. Upplifunin gefur manni einnig nýja sýn á Ísland og það umhverfi sem við búum við hérna – bæði góðu og slæmu hlutina. Svo er það einu sinni svo að þær “hremmingar”, ef hremmingar skal kalla, sem fólk lendir í í nýju landi verða iðulega að bestu og skemmtilegustu minningunum þegar frá líður.

Fyrir utan allt sem að ofan er nefnt er ótalinn sá mikli akkur sem felst í því að fá tækifæri til að ná tökum á öðru tungumáli. Í því umhverfi sem við búum við í dag, þar sem fyrirtæki taka stöðugt á sig alþjóðlegri blæ og landamæri landa dofna í viðskiptalegu samhengi, verður seint ofmetinn sá kostur að hafa góð tök á öðrum tungum en íslensku. Í æ ríkara mæli leita atvinnurekendur eftir starfsmönnum sem hafa einhverja alþjóðlega reynslu, hvort sem er í námi eða starfi. Ástæðan er ljós, samskiptin við útlönd eru stöðugt að aukast og mörg íslensk fyrirtæki hafa orðið starfsstöðvar erlendis. Það eru mikil verðmæti fólgin í því fyrir fyrirtæki að hafa á sínum snærum starfsmenn sem þekkja menningu þeirra landa sem þau reka starfstöðvar í.

Það er ljóst að margvíslegur ávinningur fæst af því að stunda nám erlendis, burtséð frá framboði og gæðum þess náms sem íslenskir háskólar bjóða upp á. Aukin menntun Íslendinga erlendis er einnig olía á eld íslensku háskólanna, engu síður en íslenskra fyrirtækja, sem þannig eiga kost á að ráða til sín starfsmenn með fjölbreyttari bakgrunn.

Það er því full ástæða til að hvetja íslenska námshesta til að skoða vel þá kosti sem fylgja námi erlendis og drífa sig svo af stað. M.ö.o. snautaðu út í nám!

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)