Þunglyndi læknað með tækjum í stað lyfja?

Það er löngu orðið ljóst að vegir læknavísindanna og tækninnar eru senn að renna saman í eitt. Núna vita menn að líkaminn samanstendur ekki bara af flóknum efnasamböndum heldur er hann líka fullur af rafboðum. Hingað til, og raunar enn, eiga vísindamenn þó í mestu vandræðum með að átta sig á því hvernig þetta allt virkar saman.

Það er löngu orðið ljóst að vegir læknavísindanna og tækninnar eru senn að renna saman í eitt. Núna vita menn að líkaminn samanstendur ekki bara af flóknum efnasamböndum heldur er hann líka fullur af rafboðum. Hingað til, og raunar enn, eiga vísindamenn þó í mestu vandræðum með að átta sig á því hvernig þetta allt virkar saman. Tilfinningar okkar, draumar og minningar eru allt dæmi um “hluti” sem stjórnað er af flóknu samspili efna og rafboða í heilanum en lítið er í raun vitað um.



Undanfarna áratugi hafa lyf að mestu verið notuð til að reyna að lækna sjúkdóma sem herja á sálina eða taugakerfið. Sjúkdómar eins og þunglyndi, geðhvarfasýki, svefnleysi, alzheimer, flogaveiki og búlimía hafa verið erfiðir viðureignar eða ólæknandi og hafa verið framleidd ótal lyf sem vinna að því að lækna eða lina þjáningar sjúklinga.

Mörg lyf hafa komið fram sem virka vel á flesta sjúklinga. En mörgum lyfjum fylgja ýmsar aukaverkanir og flest þeirra virka ekki á alla sjúklinga. Lækningamáttur lyfja er efnafræðilegur og ef ákveðið lyf virkar á einhvern hátt á efnasambönd í heilanum, þá virkar lyfið á sömu efnasambönd alls staðar í heilanum. Til dæmis virkar lyfið Prozac á heilann gegn þunlyndi en vegna þess að lyfið virkar á fleiri stöðvar í heilanum en nauðsynlegt er upplifa margir sjúklingar aukaverkanir svo sem minnkun á kyngetu og svefnleysi. Ef hægt væri að ná fram áhrifum lyfja einungis á tilætlaða staði í líkamanum væri því mögulega hægt að draga mikið úr aukaverkunum.

Eftir því sem kunnáttu lækna á mannslíkamanum eykst og kunnátta vísindamanna á rafeinda- og nanótækni eykst beinast sjónir manna í auknum mæli að því að blanda þessu tvennu saman í lækningaskyni.

Þunlyndi stafar að hluta til af vandamálum og truflunum á rafboðum milli ákveðinna svæða í heilanum. Heilafrumur í þessum svæðum senda á milli sín rafboð með efnafræðilegum sendi, svokölluðu seratoni, en Prozac inniheldur einmitt seraton sem vinnur þannig á þunglyndi með því að koma þessum rafboðum í rétt horf. Með því að nota rafpúlsa eða rafsegulbylgjur til að bæta þessi rafboð í heilanum beint mætti mögulega koma í veg fyrir aukaverkanir lyfja eins og Prozac.



Á síðast ári var fyrsta rafæna tækið í bandaríkjunum samþykkt sem sálfræðileg lækningaraðferð, en tækið hafði áður verið samþykkt í Evrópu og Kanada. Tæknin sem á að lækna þunglyndi í allra verstu tilvikunum, þar sem engin lyf duga, snýst um að græða í sjúklinga lítið rafeindatól sem örvar flakktaug (e. Vagus Nerve Stimulation) í hálsinum með veikum rafpúlsum. Rafboðin hafa þau áhrifa á heilann að langvarandi þunglyndi hverfur ef allt gengur eftir. Ýmsar aðrar svipaðar aðferðir eru í þróun bæði til að vinna á þunglyndi og öðrum tauga- og heilasjúkdómum svo sem örvun heilastöðva með rafsegulbylgjum eða beinum rafstraumi í gegnum heilann!

Enn er þó ekki vitað nægilega mikið um flestar þessar aðferðir til að hægt sé að staðfesta virkni þeirra ótvírætt auk þess sem ekki er í öllum tilvikum vitað hvernig þær virka – þó að tilraunir sýna að þær virka. Það liggur hins vegar fyrir að fróðlegt verður að fylgjast með á næstu árum hvernig tækninni fleygir fram á þessu sviði, enda milljónir manna um allan heim sem þjást af þunglyndi og öðrum sjúkdómum sem lítið er vitað um á þessari stundu.

Hver veit nema hægt verði að kaupa sér tæki í framtíðinni þar sem maður getur stillt á “gott skap” og “engar áhyggjur” með því að ýta á einn lítinn takka!

Pistillinn er byggður á grein í síðast hefti IEEE Spectrum, sjá http://www.spectrum.ieee.org/mar06/3050

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)