Hundar – ekki alltaf bestu vinir mannsins

Það er staðreynd að hundar eiga það til að bíta fólk. Sláandi tölur frá Bandaríkjunum sýna að að meðaltali eru 4,5 milljónir manns bitnir af hundum á ári hverju. Sautján þeirra reynast banvæn. Bit frá hundi getur verið sérstaklega hættulegt því að með því getur borist sjúkdómur sem kallast hundaæði.

Hundur (Canis familiaris) er talinn vera eitt elsta húsdýr mannsins. Hann hefur búið með honum í meira en 12.000 ár og gagnast honum á margan hátt. Hundar eru af ættbálki rándýra en af hundaætt. Í dag eru til yfir 400 tegundir af hundum og eru þeir jafn misjafnir og þeir eru margir. Þeir eru náskyldir úlfum og eiga margt sameiginlegt með þeim. Þeir hafa t.d. báðir ákveðið táknmál sem segir til um fyrirætlanir þeirra o.fl. Fólk sem umgengst hunda mikið skilur táknmálið og veit hvernig það á að bregðast við því. Þeir sem umgangast hunda ekki jafn mikið vita það hins vegar ekki. Þeir átta sig þá ekki á því hvort hundur er líklegur til árásar og bregðast jafnvel rangt við merkjum og espa hundinn upp.

Hundar eru ræktaðir til þess að gegna ýmsum hlutverkum. Þeir eru einnig tamdir til þess að sýna ákveðna hegðun og bregðast við skipunum og áreiti. Viðbrögð hunda við ókunnugu fólki fara m.a. eftir hundakyni og uppeldi og því hvort þeir eru vanir því að umgangast ókunnuga. Hundar geta t.d. litið á ókunnugt fólk sem keppinauta og innrás á yfirráðasvæði sitt. Þeir geta einnig litið á þá sem hættu eða ögrun. Mörgum hundategundum er einfaldlega illa við ókunnuga; forfeður þeirra hafa þá verið tamdir til þess að gera bæði viðvart um mannaferðir og verjast þeim. Það kemur því eðlilega fyrir að hundar ógni fólki og komi því á óvart.

Það er staðreynd að hundar eiga það til að bíta fólk. Sláandi tölur frá Bandaríkjunum sýna að að meðaltali eru 4,5 milljónir manns bitnir af hundum á ári hverju. Sautján þeirra reynast banvæn. Bit frá hundi getur verið sérstaklega hættulegt því að með því getur borist sjúkdómur sem kallast hundaæði. Hundaæði er bráður veirusjúkdómur í heila sem öll spendýr geta smitast af. Sjúkdómurinn er oftast banvænn en hægt er að ráða við hann ef brugðist er fljótt við með bólusetningu. Algengast er að menn smitist eftir hundsbit.

Hundar geta bitið af mörgum ástæðum. Þeir geta t.d. bitið þegar þeir verða hræddir, þeim bregður og þegar þeir verða spenntir. Tíkur bíta þegar þær telja að ógn steðji að hvolpunum. Hundar geta einnig fengið nóg, rétt eins og við mennirnir. Ef þeir hafa verið áreittir um stund, t.d. blásið í andlitið á þeim, þeir kítlaðir eða potað í þá, er bit þeirra aðferð við að segja einfaldlega „nei”.

Árið 2002 gerði Umhverfisráðuneytið samþykkt um hundahald í Reykjavík. Reglugerðin sneri m.a. að varúðar-, aðgæslu- og umgengnisskyldum hundaeigenda. Í samþykktinni segir að hundaeigandi skuli „gæta þess vel, að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði, né raski ró manna”. Þar segir einnig að það sé óheimilt „að láta hunda vera lausa innan marka þéttbýlis, nema nytjahunda, þegar þeir eru að störfum í gæslu eiganda eða umráðarmanns”. Ennfremur segir þar að „hundar skulu annars ávallt vera í taumi utan húss“…„og í umsjá manns, sem hefur fullt vald yfir þeim”. Samþykktin segir s.s. að hundaeigendur eigi ekki að spássera um göngustíga borgarinnar og víðar nema hundar þeirra séu í taumi og að þeir hafi fullt vald á þeim. Nokkrar undantekningar eru á þessum greinum og taldir eru upp staðir þar sem hundar mega vera lausir. Brot á samþykktinni varða sektum og leyfi til hundahalds geta verið afturkölluð. Séu brotin stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot „skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum”.

Það er þó staðreynd að margir hundaeigendur telja sig ekki þurfa að fara eftir reglugerðinni. Reykjavíkurbúar þurfa ekki annað heldur en að rölta niður á nærliggjandi göngustíg til að fá staðfestingu á því. Hundaeigendur sem ekki fara eftir samþykktinni eru margir hverjir mjög ósáttir við þessar reglur og finnst þær út í hött. Þeir bera því oftar en ekki við að þeirra hundur bíti ekki og sé meinlaus. Þeir virðast ekki gera sér grein fyrir mögulegri hættu sem stafar af þessum dýrum.

Eins og áður kom fram er misjafnt hvernig hundar bregðast við ókunnugum og hvernig þeir líta á þá. Það er einnig staðreynd að ýmislegt óvænt getur sett strik í reikninginn eins og t.d. lítið barn sem hleypur að hundi og faðmar hann. Ógnandi hegðun af hálfu hunds, svo sem hávært gelt og urr, getur einnig valdið viðkvæmu fólki skaða. Þeir sem þekkja ekki hundinn hafa ekki hugmynd um hvernig hann bregst við áreiti o.fl.. Hundaeigendur telja sig e.t.v. þekkja hundinn og vita að hann er meinlaus, en fyrir ókunnugum er hann bara eins og hver annar hundur. Og hundar geta valdið fólki skaða ef varúðarráðstafanir eru ekki gerðar.

En þó má ekki gleyma aðalsmerkjum hundanna; tryggð og vináttu. Þeir gegna margvíslegum hlutverkum í samfélaginu; eru t.d. leiðbeinendur fyrir blinda og aðstoða lögregluna. Flestir hundar eru vinsamlegir í samskiptum, en við verðum að fara gætilega og fylgja reglunum.

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar (Sjá alla)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.