Jafnaðarstefna.net

Í Financial Times síðasta laugardag var fjallað um að samtök þeirra hjóna, Bill og Melindu Gates, eyði meiru í heilbrigðis og menntamál en Alþjóða heilbrigðisstofnunin og jafnvel meiru en nokkurt ríki í heiminum.

Segja má að Bill Gates, stofnandi Microsoft, sé gott dæmi um bæði neikvæðar og jákvæðar hliðar kapítalismans. Gagnrýnendur hans benda á hversu mikil auðæfi hafa safnast saman hjá einum einstaklingi á meðan svo margir búa við fátækt. Jafnframt er augljóst mál að einokunarstaða Microsoft getur haft slæmar afleiðingar í för með sér enda hefur fyrirtækið oftar en einu sinni beitt bolabrögðum í samkeppni við minni fyrirtæki.

En þrátt fyrir allt verður þó að teljast líklegra að ríkasta manns heims verði minnst fyrir eitthvað allt annað en hugbúnaðargerð og hörku í viðskiptum.

Í Financial Times síðasta laugardag var fjallað um að samtök þeirra hjóna, Bill og Melindu Gates, eyði meiru í heilbrigðis og menntamál en Alþjóða heilbrigðisstofnunin og jafnvel meiru en nokkurt ríki í heiminum. Til gamans má nefna að þau hafa nú þegar heitið einum þriðja af heildartekjum sínum í slík mál og sjóður þeirra hjóna ræður yfir um 30 milljörðum bandaríkjadala, sem er ekki langt frá þrefaldri heildarframleiðslu Íslendinga á ári.

Hefur sjóðurinn aðallega lagt áherslu á heilbrigðis og menntunarmál og sem dæmi um það leggur hann til um 90% þess fjármagns sem fer í að uppræta mænusótt.

Bill Gates er líklega augljósasta dæmið um jákvæðar hliðar kapítalismans og hverju einstaklingar geta áorkað í frjálsu og óheftu samfélagi. Hægt er að fullyrða að öllum hans tíma við að byggja upp fyrirtæki sitt og þar með allan sinn auð hefði ekki verið betur eytt annars staðar.

Því má segja að það sé nokkur kaldhæðni fyrir hugsjónafólk á vinstri væng stjórnmálanna að þessi ofurhetja kapítalismans hefur látið hafa það eftir sér að hans helsta markmið sé að auka jöfnuð í heiminum.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.