Fjórða sætið í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1979

Framlag Þýskalands í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöða árið 1979, lagið Dschingis Khan, er án efa eitt allra eftirminnilegasta lag keppninnar frá upphafi.

Dschingis Khan, kannski besta hljómsveit í heimi.

Framlag Þýskalands í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöða árið 1979, lagið Dschingis Khan, er án efa eitt allra eftirminnilegasta lag keppninnar frá upphafi. Lagið er afbragð auk þess sem sviðsframkoma samnefndrar hljómsveitar var unaðsleg á úrslitakvöldinu í Jerúsalem laugardaginn 31. mars 1979. Stæltir karlmenn og fagrar konur íklæddust fatnaði sem minnti helst á einhvers konar diskókennda Mongólíu á dögum Ghengis Khan. Lagið sló í gegn um víða veröld og hefur textinn m.a. verið snaraður yfir á önnur tungumál, t.d. finnsku.

En það var einmitt í Rovaniemi, fjölmennasta byggðalaginu í Lapplandi, sem undirritaður heyrði fyrst þetta lag í októbermánuði 2003. Undirritaður heyrði lagið í finnsku útgáfunni á dansiballi. Gríðarlegur fögnuður braust út þegar fjöldinn heyrði lagið og dönsuðu menn uppi á borðum, þar á meðal finnskur réttarheimspekiprófessor.

En af hverju er undirritaður að minnast á þetta. Jú úrslitin í undankeppni söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hérlendis fara fram annað kvöld. Undirritaður telur að Sylvía Nótt muni vinna keppnina hér heima en ekki ná eins langt í Aþenu. Ástæðan er sú að það er ekkert nýtt að senda sprell í söngvakeppnina. Hver man t.d. ekki eftir framlagi Þýskalands árið 1998 Guildo Hat Euch Lieb með Guildo Horn und Die Orthopädischen Strümpfe eða framlagi Þýskalands árið 2000 Wadde Hadde Dudde Da með Stefan Raab?

Það sem íslendingar þurfa að gera til að skapa arfleifð í líkingu við Dschingis Khan er að feta í fótspor Rúslönu með smá staðfæringu og láta velskeggjaða, loðna, stælta og villimannslega karlmenn og fagrar villtar meyjar klædd víkingaklæðum sigla á víkingaskipinu Íslendingi til staðarins þar sem lokakeppnin fer fram, ganga þar berserksgang með þungarokksdiskólagi þar sem sungið er um hetjudáð þeirra Gísla Súrssonar, Skarphéðins Njálssonar og Grettis sterka.

Ef Ísland gerir það mun texti lagsins ábyggilega vera snaraður yfir á fjölmörg erlend tungumál og örugglega mun einhver blindfullur finnskur prófessor í réttarheimspeki dansa upp á borði með lagið í botni árið 2030.

Góða Eurovisiongleði.