Íran og vísun kjarnorkudeilunnar til öryggisráðs SÞ

Undanfarið hefur allt verið á suðupunkti innan Evrópusambandsins og í Bandaríkjunum vegna hinnar margumtöluðu kjarnorkuáætlun Írans. Þeir hafa statt og stöðugt reynt að skjóta sér undan eftirliti aþjóðasamfélagsins og halda því fram að áætlun þeirra þjóni eingöngu friðsamlegum tilgangi.

Undanfarið hefur allt verið á suðupunkti innan Evrópusambandsins og í Bandaríkjunum vegna hinnar margumtöluðu kjarnorkuáætlun Írans. Í ljós hefur komið að Íran hefur farið leynt með framleiðslu sína á úrani til kjarnorkuframleiðslu í 18 ár. Upp komst um þessa áætlun Írana fyrir um 4 árum eða árið 2002. Síðan þá hafa þeir statt og stöðugt reynt að skjóta sér undan eftirliti aþjóðasamfélagsins og halda því fram að áætlun þeirra þjóni eingöngu friðsamlegum tilgangi. Nú hefur Íran hætt öllu samstarfi við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina (IAEA) og er ástæðan sú að deilunni var vísað til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Í ágúst síðastliðnum hrundu samningaviðræður sem Bretland, Frakkland, Þýskaland ásamt stuðningi Bandaríkjanna áttu við Írani. Ástæðan var sú að Íran hafði aftur hafið vinnu í því að auðga úran. Þann 10.janúar ákváðu þeir að rjúfa innsigli Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar á tækjum í rannsóknarstöðvum og hefja á ný tilraunir í kjarnorkustöð til að auðga úran í Natanz.

Þar með brutu Íranar samkomulag sem þeir gerðu við Breta, Frakka og Þjóðverja, um að hætta að mestu kjarnorkurannsóknum sínum, fyrir 16 mánuðum. Þjóðirnar fjórar (Bretland, Frakkland. Þýskaland og Bandaríkin) brugðust hart við og vildu að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna beitti Írani refsiaðgerðum en hinar þjóðirnar tvær, Rússland og Kína voru ekki á sama máli og vildu fara aðrar leiðir, Rússar vildu fara málamiðlunarleið og tóku þá Kínverjar í sama streng.

Það er ýmislegt vafasamt við þessar aðgerðir Írana. Þeim er mikið í mun að hefja tilraunastarfssemina, þ.e. að auðga úran þrátt fyrir að Rússar hafi boðist til þess að sjá þeim fyrir birgðum til þess að reka kjarnakljúfa í heil 10 ár. Þetta auðgaða úran sem notað er í kjarnakjúfa má einmitt líka nota til þess að búa til kjarnorkuvopn.

Þann 17.janúar fóru Íranir fram á það að samningaviðræður við Breta, Frakka og Þjóðverja yrðu hafnar að nýju og ætluðu sér að halda áfram samvinnu við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina og var þeim mikið í mun að sýna fram á friðsamlegan tilgang tilrauna þeirra með auðgað úran. Bretar gátu á engan hátt sætt við sig þessi orð Írana og vildu að öllum aðgerðum þar yrði hætt í meðferð úrans og auðgun þess og annarri kjarnorku tilraunasemi.

Staða mála þessa stundina

Þann 5.febrúar sl. ákvað Íranssjórn að slíta öllu samstarfi við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina. Ástæðan var sú að IAEA samþykkti að vísa kjarnorkudeilunni til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Íranir sögðust vera tilbúnir í frekari viðræður en sögðu Vesturveldin ekki geta ráðið um það hvort að Íran hefði framleiðslu á auðguðu úrani eður ei.

Íranska utanríkisráðuneytið gaf engu að síður frá sér yfirlýsingu þann 12.febrúar um að stjórnvöld þar í landi hyggðust hvergi hvika frá aðild að alþjóðlegum sáttmála um takmörun á útbreiðslu kjarnavopna eins og segir í NPT samningnum (Nuclear Non-Proliferation Treaty) en í honum felst heftun útbreiðslu kjarnavopna.

Á laugardaginn síðasta, 11.febrúar, hótaði forseti Írans ótilgreindum breytingum á stefnu landsins í kjarnorkumálum eftir að deilunni var vísað til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og hvatti utanríkisráðuneytið þar í landi til friðsamlegrar lausnar á þessari miklu deilu sem nú ríkir vegna málsins.

Evrópusambandið og Bandaríkin vilja að Íran verði beitt refsiaðgerðum með því að vísa deilunni til öryggisráðsins. Þjóðirnar virðast telja víst að með tilraunaframleiðslu sinni á auðguðu úrani sé Íran að stefna að því að framleiða kjarnorkuvopn. Ástæðan fyrir því að Vesturlönd vantreysta Íran í málinu sé vegna þess að kjarnorkuáætlunum þeirra var haldið leyndum í 18 ár en frá þeim var ekki greint fyrr en árið 2002. Íranir hafa engu að síður haldið því fast fram að ekki sé um framleiðslu á kjarnorkuvopnum að ræða.

Þar sem útlit er fyrir að diplómatískar leiðir verði ekki farnar í þessu máli má vel fara svo að Íran þurfi að horfast í augu við alþjóðlega refsiaðgerðir. Samt sem áður eru menn þegar farnir að gera sér í hugarlund hvað öryggisráðið gæti gert til að koma Íran af villu síns vegar:

Fyrsta skrefið væri líklega að óska eftir því að Íran endurvekji auðgunarbannið sitt, enn hefur þó engin auðgun farið fram, og vinna algerlega samkvæmt skilyrðum IAEA. Ef Íran mótmælir enn þá myndi öryggisráðið skylda Íran til þess að gera þetta. Jafnvel þá myndu refsiaðgerðir þá líklega verða veikar. Ferðabann yrði sett á stjórnmálaleiðtoga eða þá sem eru viðrinir kjarnorkuvinnsluna og jafnvel bönn tengd íþróttum og þar með talið HM í knattspyrnu ofl í þessum dúr.

Það væri erfiðara að ná samkomulagi um hagrænar refsiaðgerðir sérstaklega þar sem nokkur lönd, Rússland, Kína, Japan, Indland, Suður Kórea og fleiri hafa gert stóra orkusamninga við Íran, sem er næst stærsti olíuframleiðandi OPEC. Íran talaði einnig um að minnka olíuútflutning sinn í hefndarskyni sem myndi hækka heimsmarkaðsverð á hráolíu.

Hvað er til ráða?

Pierre Goldschmidt, fyrrum yfirmaður rannsókna á öryggisbrotum Írans hjá IAEA, segir að hvaða land sem fylgir ekki skilmálum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar ætti að vera skylt af öryggisráðinu að lúta hertu eftirliti og viðhalda öryggisráðstöfunum í öllu því sem viðkemur kjarnorku og láta í té upplýsingar um viðkvæmar kjarnorkuaðgerðir eins og framleiðslu á úran eða plútóníum í að minnsta kosti tíu ár. Samþykkt slíkrar ályktunar myndi setja Íran skýrar reglur og gæti hjálpað til við að aftra því að aðrar þjóðir taki upp á þessu sama.

Þrátt fyrir mikla einingu þessa vikuna gæti verið að Íran áætli enn að Rússland og Kína muni aldrei gera alvöru úr orðum sínum með refsiaðgerðum. Báðar þjóðirnar eiga mikilla hagsmuna að gæta í Íran er varða orku og ýmislegt annað. Hið sama á við um nokkur Evrópulönd, Japan, Indland ofl.

Besta leiðin til þess að ná fram því sem öll þessi lönd vilja, samkomulagi sem bindur enda á þessa deilu, er að sannfæra Íran um að það muni þurfa að gjalda fyrir óhlýðni sína.

Stóra spurning er því hvers vegna Íran ætti að vera að búa sér til kjarnavopn? Ef sú er raunin eins og Bretar og Frakkar halda fram að Íranir séu með eitthvað óhreint í pokahorninu þá þarf að skoða strúktúr alþjóðakerfisins betur. Það er löngum vitað að ef að ríki komast á þann punkt að það telji notkun kjarnavopna skársta kostinn aukast líkur á því að það gerist. Ef það verður sannað að Íranir séu að byggja sér upp kjarnavopn þá munu nágrannaríkin einnig sækjast eftir því sama til þess að tryggja stöðu sína.

Veikleikar Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar hafa komið í ljós í Íransdeilunni. Stofnunin hefur ekkert formlegt yfirríkjavald og getur einungis skoðað þá staði sem ríki gefa upp friðsamlega kjarnorkuvinnslu. Ef grunsemdir koma upp um annað er beðið um sérstaka skoðun. Ef að ríkið hafnar því er að síðustu hægt að leggja beiðnina fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og þá reynir á pólistískan vilja til þess að knýja fram samþykki viðkomandi ríkis, eða þá að ráðið veiti leyfi fyrir því að ráðist sé inn í viðkomandi land.

Við höfum séð fyrri kostinn framkvæmdan þar sem að málinu var vísað til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ef að ekkert kemur úr úr því í mars er síðari kosturinn augljóslega sá að ráðast inn í landið, þ.e ef ekki gengur að beita þvingunum. Bandaríkin eru því í þeirri stöðu að ráðast inn í Íran, því að mati pistlahöfundar hafa þeir þegar nýtt sé þessi rök til þess að ráðast á Írak.

Þeir hljóta að þurfa að vera sjálfum sér samkvæmir. Ef að hernaðarleg geta Bandaríkjanna býður ekki upp á það þurfa þeir hugsanlega að leita til annarra lýðræðisríkja í þeim efnum. Og þá er spurning hvort að nokkurt ríki leggi í leiðangur sem slíkan eftir floppið í Írak?

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.