Júróvisjónþras – Seinni hluti

Á meðan landsmenn keppast við að boða til júróvisjónpartýja í aðdraganda úrslitakvölds íslensku undankeppninnar er enn í gangi umræðan um lag Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar og hvort leyfa átti laginu að halda áfram í keppninni, eftir að það komst í dreifingu á Internetinu. Umfjöllun sem hófst hér í gær um málið heldur nú áfram.

Í pistli sem birtist hér á Deiglunni í gær ljáði ég máls á því að túlkun á reglum og lögum getur verið erfiðari í sumum málum eftir tilkomu Internetsins og í kjölfarið á þeirri miklu útbreiðslu sem það hefur náð. Nýjasta dæmið snýr að íslensku undankeppninni fyrir júróvisjón.

Svo við snúum okkur aðeins að þessu tiltekna máli og þessu tiltekna lagi sem hefur verið milli tannanna á keppendum og áhorfendum þá liggur fyrir að umgjörðin í kringum lagið Til hamingju Ísland, var allt önnur og meiri en í kringum hin lögin. Með því á ég ekki við um lagasmiðarnar sjálfar eða útsetningar heldur þann hóp fólks sem valdist í aðkomu og undirbúning lagsins sem og útfærslu. Það hefur löngum talist vænlegt í keppnum sem þessum að velja flytjanda sem er á hápunkti frægðar sinnar. Það eru engar ýkjur að persónan Silvía Nótt er sennilega einn þekktasti einstaklingur landins um þessar mundir. Það eitt að hún flytji lagið gefur íslenskum veðbönkum tilefni til að setja lágan stuðul á hana en gefur keppinautum hennar hins vegar ærið tilefni til þess að óttast hana sem keppinaut.

Ef til vill er það það sem í og með fer í taugarnar á öðrum þátttakendum í undankeppninni, að tilbúin persóna eins og Silvía Nótt geti mætt til leiks í slíkri keppni og náð afgerandi forystu í henni áður en hún hefst. Þetta forskot sem lagið Til hamingju Ísland og þar með aðstandendur þess, höfðu e.t.v. fyrir þriðja undanúrslitakvöldið hefði alltaf verið til staðar burtséð frá því hvort lagið hefði lekið út eða ekki. Eftirvæntingin ein að vita að Silvía Nótt ætlaði að vera með í keppninni hefði nægt til þess.

Það er hins vegar afskaplega hentugt fyrir aðra keppendur og talsmenn þeirra að bera því við að lagið hafi grætt á því að fara í “ólöglega” dreifingu á undan hinum lögunum. Ef öll lögin hefðu farið í dreifingu á undan keppninni hefði það sama líklega gerst, þorri landsmanna hefði hlustað á lag Silvíu en látið flest hinna til hliðar eftir eina hlustun eða svo. Það er einnig afskaplega hentugt, og um leið mjög vafasamt, að væna ríkisútvarpið um það að vera að hampa Þorvaldi Bjarna umfram aðra keppendur. Þorvaldur Bjarni hefur um árabil verið einn af fremstu lagahöfundum þjóðarinnar og það ætti að vera fagnaðarefni út af fyrir sig að hann skuli taka þátt í keppni sem þessari.

Útvarpsstjóri hefur staðið sig vel í þessu máli á mínu mati. Skýr og afdráttarlaus ákvörðun var tekin í máli sem var vissulega viðkvæmt og eldfimt. Einu sæti í lokakeppninni var bætt við og þó svo að það hafi verið kallað eins konar Salómonsdómur, þá er ákvörðunin ágæt sem slík.

Nú þegar ákvörðun hefur verið tekin er hins vegar kominn tími til að menn slíðri sverðin og einbeiti sér að keppninni og sínum ranni. Hugsanlega telja menn sig geta spólað eitthvað meira í hjólförunum og jafnvel náð lagi Þorvaldar úr keppninni en þá situr eftir spurningin “til hvers?” “Vegna þess að menn eiga að fara eftir reglum” er væntanlega svarið. En þá má spyrja á móti, skiptir ekki máli hver braut reglurnar? Er ljóst að aðstandendur lagsins hafi brotið einhverjar reglur?

Lagið komst í dreifingu eins og fram hefur komið, en eins og bent var á í fyrri pistlinum, þá liggur ekki fyrir hvar þess “almenna dreifing” hófst né hver framkvæmdi hana. Hafi það ekki verið aðstandendur lagsins, þá er í hæsta máta vafasamt að útiloka það frá frekari þátttöku í keppninni. Það er nær ómögulegt að fá nákvæma niðurstöðu í þetta mál. Hins vegar geta menn nýtt það til þess að birgja brunna og loka fyrir göt í reglugerðunum svo auðveldara verði að taka á slíkum málum í framtíðinni. Tilkoma Internetsins flækir túlkun reglna í ýmsum málum og þetta virðist vera eitt þeirra.

Undirritaður heyrði lagið Til hamingju Ísland fyrst í undankeppninni í sjónvarpinu, þ.e. á sama tíma og öll hin lögin.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)