Gróa á Leiti.is

Skert sjálsvirðing og minnkandi metnaður blaðamanna hefur neikvæð áhrif á þjóðfélagið. Í stað þess að kafa ofan í það sem skiptir máli smjatta þeir á kjaftasögum.

Það er nokku langt síðan ég hef heyrt minnst á Gróu á Leiti. Sem barn og unglingur man ég eftir að hafa heyrt hennar getið nokkuð oft. En nú er sem minna beri á henni. Þessi samnefnari íslenskra kjaftakerlinga kom fyrst fram í skáldsögunni Pilti og stúlku eftir Jón Thoroddsen og „var það jafnan orðtæki hennar, er hún sagði frá einhverju: Ólyginn sagði mér, en hafðu mig samt ekki fyrir því.”

Gróu á Leiti var kennt um svæsnar sögur er komust á kreik og aðalkjaftakerlingar bæja um land allt fengu þetta vafasama viðurnefni. Við Íslendingar höfum alltaf verið nokkuð duglegir að segja sögur af náunganum, enda voru sögur nánast það eina sem fólk átti hér í nokkrar aldir. Við erum þó líklega hvorki verri né betri en aðrir í þessum efnum, nema ef til vill þegar miðað er við höfðatölu.

Kröfur fólks um að heyra sögur hvert af öðru virðast aukast stöðugt. Gróa hefur einfaldlega dregist aftur úr því hún er hvorki með útgáfu eða vefsíðu, enda segir í Pilti og stúlki að „aldrei trúði hún meir en einum í senn fyrir trúnaðarmálum.” Nú er sögunum komið á framfæri í dagblöðum, tímaritum, útvarpsmiðlum og á internetinu.

Reyndar er svo komið að þetta eru ekki lengur kjaftasögur heldur fréttir, enda viðurkenndar af frétta- og blaðamönnum. Þannig er Gróa ekki bara gengisfallin sökum afkastaleysis, heldur einnig vegna þess að það er ómerkilegt að dreifa sögum um fólk út um allan bæ. Hún er hvorki í Blaðamannafélaginu né viðurkennd sem rannsóknablaðamaður.

Gott dæmi um þetta er fréttaflutningur af meintu ástarsambandi Sven Göran Eriksson þjálfara enska knattspyrnulandsliðsins og sjónvarpskonunnar Ulrika Jonsson. Fréttin var á forsíðu allra stærstu dagblaða Bretlandseyja og ein af aðalfréttum Sky News sjónvarpsstöðvarinnar og endurtekin á klukkustundar fresti.

Þótt það hafi að sjálfsögðu verið heilög skylda fjölmiðlamanna að birta fréttina vegna hins sjálfsagða réttar almennings til að fylgjast með hversdagslífi fræga fólksins þótti sumum farið yfir strikið. Þeir höfðu nefnilega áhyggjur af því að þetta gæti skemmt fyrir landsliðinu í heimsmeistarakeppninni í sumar. Það var því í fæstum tilvikum virðing fyrir einkalífi þessa sænska frænda okkar sem fólk taldi brotið á. Heldur hafði það áhyggjur af því að verða rænt dýrmætri afþreyingu.

Þannig hafa gildin breyst frá því Gróa baktalaði sveitunga sína í den tid. Það þykir ekki tiltökumál að rústa lífi fólks ef það hefur afþreyingargildi fyrir fjöldann. Eða var fréttin um Sven og Ulriku kannski birt til að láta sambýliskonu landsliðsþjálfarans vita að hann væri ekki við eina fjölina felldur? Einkalíf og persónuvernd fjúka út í veður og vind þegar fréttahundarnir renna á lyktina af safaríkri sögu.

Ég held að sjálfvirðingu fjölmiðlamanna hafi hrakað verulega. Þeir bregðast jú við eftirspurn, en hún er tilbúin. Eða kemur það nokkrum við nema hlutaðeigandi aðilum þegar landsliðsþjálfari sefur hjá sjónvarpskonu? Eru almannaheill í húfi þegar tilkynnt er að Jónína Ben á vini? Þetta eru ekki fréttir heldur kjaftasögur. Jafnvel þótt málið hafi verið athugað, tvítékkað og svo staðfest einu sinni enn eins og sum slúðurblöðin stæra sig af að gera. Það er mjög lítill munur á því að dreifa lygum eða meiðandi staðreyndum um einkalíf fólks.. Fjölmiðlafólk getur ekki firrt sig ábyrgð og sagt að það birti bara þær staðreyndir sem berast til þess. Það ber líka ábyrgð gagnvart þeim sem það segir fréttir af.

Ég er andvígur hverskonar ritskoðun og trúi því að jafnvel í viðkvæmum álitamálum sé opinber umræða hollari en þögnin. Ég dreg þó línuna við einkalíf fólks, friðhelgi einstaklinga er mikilvægari en tjáningarfrelsið, nema mjög ríkir almannahagsmunir liggi við.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)