Hlutverk Stúdentaráðs

Kosið er til Stúdenta- og Háskólaráðs dagana 8. og 9. febrúar næstkomandi. Pistill þessi fjallar um hlutverk Stúdentaráðs og ólík sjónarmið fylkinganna sem bjóða sig fram.

Kosið er til Stúdenta- og Háskólaráðs dagana 8. og 9. febrúar næstkomandi. Pistill þessi fjallar um hlutverk Stúdentaráðs og ólík sjónarmið fylkinganna sem bjóða sig fram.

Helsti ágreiningur fylkinganna sem bjóða sig fram í komandi kosningum snýst um hvert hlutverk Stúdentaráðs eigi að vera. Vaka telur hlutverk ráðsins sé að beita sér fyrst og fremst fyrir hagsmunum stúdenta við Háskóla Íslands hvort sem það er innan skólans eða í þjóðfélaginu. Stúdentaráð eigi að horfa gagnrýnum augum á Háskólasamfélagið og leita leiða til að bæta það og Stúdentaráð í sameiningu við Háskólayfirvöld skuli vinna að því að gera Háskólann að betri vinnustað með fyrsta flokks kennslu. Fjölmennar kennslustundir og ópersónulegar kennsluaðferðir, vinnuaðstaða í byggingum og aðgengi fatlaðra að Háskólanum eru dæmi um það sem Vaka vill bæta.

Röskva er hins vegar á þeirri skoðun að Stúdentaráð beiti sér á breiðari vettvangi og tali nafni stúdenta í málefnum sem koma stúdentum óbeint við. Sem dæmi hafa andstæðingar okkar rætt það að Stúdentaráð eigi að taka afstöðu til er reykingarbanns á skemmtistöðum og um hvort flugvöllurinn í Vatnsmýrinni eigi að fara eða ekki.

Vaka er að sjálfsögðu sammála því að Stúdentaráð eigi að beiti sér í pólitískum málum en aðeins ef þau tengjast hagsmunum stúdenta. Sem dæmi um pólitísk mál sem Vaka hefur beitt sér fyrir má nefna baráttuna gegn skólagjöldum og baráttuna gegn hækkun leikskólagjalda á stúdenta. Bæði þessi mál enduðu með því að fallið var frá fyrirhuguðum aðgerðum, stúdentum í vil.

Vökuliðar vilja gera Stúdentaráð að virku framkvæmdaafli sem leitar lausna við að bæta Háskólann. Andstæðingum okkar finnst þessi aðferðafræði ekki göfug og hafa margoft snúið henni upp í að Vaka beiti sér aðeins fyrir því að fá kaffisjálfsala í Háskólann. Þetta er mér óskiljanlegt.

Framkvæmdargleði Vökumanna

Vaka hefur komið mörgu til leiða í vetur. Undirrituð sat í hagsmunanefnd Stúdentaráðs en þar bar hæst útgáfa svokallaðra stúdentakorta. Hlutverk kortanna er þrískipt. Þau eru aðgangskort að byggingum Háskólans, afsláttarkort í ýmsum fyrirtækjum og auðkenniskort stúdenta við Háskóla Íslands en rétt er að taka það fram að kortin eru ókeypis. Skráning fyrir kortunum mun hefjast á næstu dögum á síðunni www.studentakort.is.

Stúdentakortin hafa verið á borði Háskólans í mörg ár en aldrei náð farvegi. Það var ekki fyrr en hagsmunanefnd Stúdentaráðs undir forustu Vökuliðans Andra Heiðars Kristinssonar bauðst til þess að sjá um alla framkvæmd við kortin á móti því að Háskólinn greiddi kostnað þeirra, að tókst að ljúka þessu máli.

Í framkvæmdinni fólst m.a. greiningarvinna á skráningarferli og öryggismálum kortsins, hönnun og forritun heimasíðu, hönnun kortsins, samningagerð um afslætti við fyrirtæki, tenging kortanna við aðgangskerfi og kynningarstarfsemi kortanna. Framundan er síðan vinna við skrá einkennisnúmer kortanna í aðgangskerfið en það þarf að gera handvirkt og loks að prenta kortin og afhenda þau. Allt þetta er í höndum hagsmunanefndar.

Stúdentakortin undirstrika vinnuaðferðir Vöku. Við bjóðum fram krafta okkar og framkvæmum þá hluti sem koma stúdentum til góða, hluti sem Háskólinn sér ekki fram á að geta framkvæmt sjálfur. Stúdentakortin er bara dropi í hafið af þeim verkefnum sem Vaka hefur tekið í sínar hendur og framkvæmt.

Andstæðingum okkar er umhugað um alla þá vinnu sem Vökumenn hafa lagt í stúdentakortin. Í nýlegum Röskvufréttum segir: “Eðlilegast væri að Háskólinn sjálfur myndi leggja fram launaðan starfsmann í jafn flókið verkefni en setti ekki ábyrgðina á stúdenta í sjálfboðaliðastarfi.”

Það hefur aldrei stoppað okkur Vökuliða að vera í sjálfboðavinnu. Við teljum starf okkar ætti ekki að vera launað á nokkurn hátt. Á meðan við erum að bæta Háskólann er takmarki okkar náð. Við lítum svo á að við séum kosin inn í Stúdentaráð til þess að framkvæma og gæta hagsmuna stúdenta. Óþarfa blaður um pólitísk mál sem koma stúdentum óbeint við er að okkar mati tímasóun og á frekar heima uppi á borði í ungliðahreyfingunum. Heldur viljum við nýta tímann í að vinna að málum sem koma stúdentum til góða.

Ég hvet alla stúdenta við Háskóla Íslands til að kjósa í komandi kosningum. Það skiptir máli hver leiðir hagsmunabaráttu stúdenta við Háskóla Íslands.

Latest posts by Hrefna Lind Ásgeirsdóttir (see all)

Hrefna Lind Ásgeirsdóttir skrifar

Hrefna Lind hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.