Fæst orð bera minnsta ábyrgð

Í logninu sem fylgdi DV-storminum á Íslandi mátti taka eftir því að vafasöm blaðamennska hefur víðar afdrifarík áhrif en á klakanum kalda. Vissulega er ekki um að ræða sambærilegann harmleik eða jafn yfirgengilegt tillitsleysi, enda er von mín og líklega allra að aldrei komi upp svipuð staða og í hinu afdrifaríka DV-máli. Hinsvegar verður því ekki neitað að sú frétt sem hér verður fjallað um skók heimalandið harkalega og eftirskjálftarnir fundust víða um heiminn.



Enska dagblaðið News of the World birti fyrr í mánuðinum frétt þar sem þeir sögðust hafa í höndunum heimildir sem tengdu landsliðsþjálfara enska knattspyrnulandsliðsins, Sven-Göran Eriksson, við mjög svo vafasamar yfirlýsingar. Á meðal þess sem Eriksson lét hafa á eftir sér var eftirfarandi:

– Að ef enska landsliðið ynni ekki heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fer fram í Þýskalandi næsta sumar að þá myndi hann segja af sér, þrátt fyrir að eiga tvö ár eftir af samningi sínum við enska knattspyrnusambandið.

– Að ef Arabískir auðjöfrar myndu taka yfir eignarhald hjá úrvalsdeildarliðinu Aston Villa þá hefði hann áhuga á að taka við framkvæmdastjórastöðunni þar.

– Að ef hann tæki við Aston Villa, þá treysti hann sér til þess að lokka David Beckham frá Real Madrid til liðsins.

– Að auki hafði hann nokkur orð um leikmenn enska landsliðsins. Þar kom meðal annars fram að Rio Ferdinand væri latur og að Michael Owen leiddist hjá Newcastle en hefði aldrei fengið eins mikið borgað.

Þeir sem þekkja til enskrar knattspyrnu gera sér grein fyrir að þarna eru á ferðinni mjög eldfimar yfirlýsingar. Sérstaklega verður að hafa í huga þann sess sem knattspyrna hefur í Englandi og þá að sjálfsögðu er ekkert eins mikilvægt og sjálft landsliðið. Því er ekki nema eðlilegt að spyrja sig hvernig News of the World komust yfir þessar upplýsingar. Og þar liggur einmitt mergurinn málsins.

Þannig eru mál með vexti að blaðamaður News of the World villti á sér heimildir og þóttist vera arabískur fursti frá Dubai. Þaðan hafði hann samband við Eriksson og bauð honum að verða tæknilegur ráðgjafi fyrir knattspyrnuskóla þar í landi. Eriksson, í góðmennsku sinni, tók þessu boði og flaug til Dubai til þess að hitta furstann. Það er skemmst frá því að segja að blaðamaðurinn/furstinn var með upptökutæki á sér og náði öllum þessum upplýsingum út úr Eriksson á vinalegu spjalli. Eftir að heimsókn Eriksson lauk fór blaðamaðurinn aftur til Englands þar sem farið var yfir upptökurnar og úr þeim unnin sú frétt sem hefur fært skugga á nokkuð annað í breskum fjölmiðlum undanfarna tíu daga eða svo.

Nú verður hver að gera upp við sjálfan sig hvort blaðamennskan í þessu máli er réttlætanleg eða ekki. Er sökina að finna hjá siðferði blaðamennskunnar eða klaufaskapnum í Eriksson. Að sjálfsögðu á maður sem gegnir jafn áberandi og mikilvægri stöðu og Eriksson ekki að gera sig sekan um að láta út úr sér svona upplýsingar. Sérstaklega þar sem þetta er ekki fyrsta sinn sem fjölmiðlarnir hafa náð að svívirða hann (Eins og kemur fram í pistlinum Gróa á Leiti.is sem birtur var á Deiglan.com 26. apríl 2002). Hinsvegar er ljóst að News of the World lagði á sig töluverða vinnu og kostnað (sem hefur nú líklega margborgað sig) til þess eins að selja blaðið og klekkja á landsliðsþjálfaranum. Eftir að ummælin voru birt hafa fjölmiðlar linnulaust annaðhvort ausið skömmum yfir Eriksson eða News of the World, þó verður að segjast eins og er að Eriksson hefur farið töluvert verr út úr þessari umræðu.

Umræðan er nú að líða undir lok þar sem að enska knattspyrnusambandið og Eriksson hafa náð samkomulagi um að hann láti af störfum eftir heimsmeistarakeppnina, hver svo sem árangur landsliðsins verður. Þannig að óháð því hvort þvílík blaðamennska er réttlætanleg eða ekki þá sannast hið fornkveðna, fæst orð bera minnsta ábyrgð.