Er hægt að kaupa manneskju?

Í lokasenu hinnar stórgóðu myndar „The Truman Show“ stendur aðalsöguhetjan fyrir vali. Honum er boðið að halda áfram að lifa nægjusömu og öruggu lífi innan Truman-þáttarins, en um leið lífi sem er skrifað handa honum. Lífi sem hann stýrir ekki sjálfur. Truman opnar hurð á hvelfingunni sem þátturinn er tekinn upp í og hleypur út í hinn sanna heim. Sál hans var ekki til sölu.

Í lokasenu hinnar stórgóðu myndar „The Truman Show“ stendur aðalsöguhetjan fyrir vali. Honum er boðið að halda áfram að lifa nægjusömu og öruggu lífi innan Truman-þáttarins, en um leið lífi sem er skrifað handa honum. Lífi sem hann stýrir ekki sjálfur. Truman opnar hurð á hvelfingunni sem þátturinn er tekinn upp í og hleypur út í hinn sanna heim. Sál hans var ekki til sölu.

Sem betur fer er sá tími þegar kóngar og prinsar stjórnuðu Evrópu liðinn. Í dag er það fólkið sjálft, en ekki einvaldurinn, sem ákveður framtíð sína og þar sem kóngafólk er enn þá til hefur það einungis táknrænu hlutverki að gegna. Á hásætunum sitja þá einhverjir valdalausir vesælingar sem þurfa að brosa, klippa borða og láta taka myndir af sér allt sitt líf, bara fyrir það eitt að hafa fæðst inn í ákveðna fjölskyldu.

Í dag fékk nokkurra mánaða gamall danskur drengur úthlutað fjórum fornöfnum meðan danska þjóðin fylgdist með í sjónvarpi. Foreldrum hans virðist sama þótt hann muni vaxa og þroskask á síðum slúðurblaðanna. Kannski vegna þess að þau sjálf þekkja ekkert annað. Þeim er líka alveg sama þótt að búið sé að velja handa honum lífsleið. Reyndar ágætlega þægilega og vellaunaða lífsleið, en fyrirframákveðna engu að síður. Í samfélagi þar sem börn verkamanna geta orðið læknar og börn lækna þurfa ekki endilega að verða læknar líka, þekkist það enn að faðerni manna ákveði framtíðarhlutskipti þeirra.

Þáttastjórnandinn í Truman-þættinum hafði rétt fyrir sér að einu leyti. Veruleikinn er ekki alltaf jafnfagur og kvikmyndirnar. Því þótt Truman í kvikmyndinni hafi hlaupið út hvelfingunni sem var hans hlýja og rúmgóða fangelsi virðast „Trúmanar“ raunveruleikans ekki hafa áhuga á að yfirgefa sínar stóru hallir og taka ábyrgð á eigin lífi. Þeim finnst fínt að fá pening fyrir að leyfa ellilífeyrisþegum fylgjast með sínu fyrirframákveðna lífshlaupi. Þau afsala sér kosningaréttinum og málfrelsinu fyrir frægð og þægindi. Þau taka ekki í handfangið. Þau hlaupa ekki út. Sál þeirra er til sölu.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.