Intel breytir um stefnu

Eftir að hafa verið í fararbroddi við framleiðslu örgjörva fyrir PC tölvur hefur Intel verið beint inn á nýjar brautir af framkvæmdastjóranum Paul Otellini. Ásamt því að stefna að því að auka vöruframboð fyrirtækisins hefur hinu gamalkunna slagorði fyrirtækisins “Intel Inside” verið lagt ásamt því sem vörumerkið (lógóið) var endurhannað. En hvað kallar á svo róttækar breytingar hjá þessu rótgróna fyrirtæki?

Paul Otellini tók við Intel í maí á síðasta ári og varð þar með fimmti framkvæmdastjóri fyrirtækisins í 37 ára sögu þess. Það varð fljótlega ljóst að breytingar voru í vændum því á þessu rúmlega hálfa ári hefur Otellini tekið ákvarðanir sem hafa fengið fjárfesta jafnt sem starfsmenn til að grípa andann á lofti.

Eftir að hafa ráðið Eric B. Kim frá Samsung í stöðu markaðstjóra hófst enduskipulagning fyrir alvöru. Intel hefur um árabil verið með allra sterkustu vörumerkja heimsins, ekki síst fyrir tilstilli hins fræga slagorðs “Intel inside”. Pentium örgjörvar fyrirtækisins hafa verið flaggskip fyrirtækisins og stuðlað að geysisterkri markaðsstöðu þess. Intel logóið er sömuleiðis heimsþekkt.

Öllum þessum hlutum verður nú annað hvort verið eytt eða breytt fyrir tilstilli Otellini. “Intel inside” slagorðið verður aflagt, Pentium vörumerkið sömuleiðis (smá saman) og lógóinu hefur verið breytt og nýju slagorði bætt við það – “Leap ahead”. Þetta er fyrsta breytingin á vörumerki fyrirtækisins í 30 ár, sem segir einhverja sögu um styrk þess, en það hefur verið talið það fimmta sterkasta í heiminum. Til þess að styðja við þessar breytingar á ásýnd fyrirtækisins mun fyrirtækið samkvæmt fréttum leggja til tvo og hálfan milljarð dollara í markaðsstarf.

Stærsta breytingin í stefnu Intel lýtur hins vegar að þeim sviðum sem fyrirtækið mun nú einbeita sér að. Í stað þess að einbeita sér að PC tölvu markaðnum vill Otellini að fyrirtækið verði leiðandi á mun fleiri sviðum, m.a. í heilsugæslugeiranum og þráðlausum samskiptum. Það hefur hægt á vexti einkatölvumarkaðarins en á sama tíma heftur gríðarleg aukning átt sér stað í sölu á öðrum tækjum sem nota (eða munu nota) örgjörva eins og farsímum og skyldum tækjum. Þar sem notkun og möguleikar þessara tækja eru stöðugt að aukast þykir ljóst að markaður er fyrir einhvers konar snjalla örgjörva sem sameina hugbúnað og örgjörva í einn og sama hlutinn. Intel kallar þennan sambræðing “platform” upp á enskuna.

Ontellini telur þessa breytingu nauðsynlega þar sem hægt hefur á aukningu tekna og hagnaðar fyrirtækisins og allt stefnir í frekari kólnum á áðurnefndum einkatölvumarkaði. Auk þess að áætla að rúlla út fleiri nýjum vörum en nokkru sinni áður á þessu ári hefur Intel stofnað til samstarfs við fjöldan allan af fyrirtækjum. Hæst hefur borið nýopinberað samband þeirra við Apple, þar sem Apple hefur ákveðið að byrja að nota Intel örgjörva í sínar vörur á þessu ári. Auk þess hefur samstarf verið tekið upp við Motorola, Cisco og Google.

Þær vörur sem mest mun bera á frá Intel á næstunni eru þrjár tegundir örgjörva. Auk Centrino örgjörvans sem hefur verið í framleiðslu um nokkurt skeið, sérstaklega fyrir fartölvur, verða tveir nýir örgjörvar kynntir. Annars vegar er um að ræða Viiv örgjörvan sem ætlað er að gegna lykilhlutverki í afþreyingarumhverfi heimilisins. Hann mun keyra á PC tölvum sem munu þá leysa af hólmi öll þau tæki sem nú eru á heimilinu eins og hljómflutningstæki og stafræn upptökutæki fyrir sjónvarpsefni. Hins vegar verður svo um að ræða Core örgjörvan sem mun keyra á ýmis konar öðrum búnaði.

Það er ljóst að Otellini og félagar eiga fyrir höndum risavaxið verkefni þegar kemur að því að koma Intel á skrið að nýju. Sérfræðingar hafa bent á að yfirleitt hafa fyrirtæki verið í mun verri málum þegar þau afráða að ráðast í svo viðamiklar stefnubreytingar og sjaldgæft sé að fyrirtæki, sem þó skilar hátt í milljarði dollara í hagnað á mánuði og er með hagnaðarhlutfall upp á 15-20%, breyti svo rækilega um stefnu. Í tilfelli Intel virðist hins vegar sem menn telji sig vera að bregðast við því óumflýjanlega og vilji spyrna við fótum áður en ástandið versnar.

Á miðvikudaginn féllu hlutabréf í Intel um rúmlega 11% í kjölfar þess að afkomutölur fyrirtækisins fyrir síðasta fjórðung ársins 2005 voru kynntar. Fjárfestar telja útlitið fyrir árið 2006 ekki nægjanlega bjart fyrir fyrirtækið en það verður athyglisvert að fylgjast með því hvort fyrirtækinu tekst að koma sér á réttan kjöl og ávinna sér traust markaðarins með nýjum áherslum.

Heimildir:

www.businessweek.com

moneycentral.msn.com

finance.yahoo.com

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)