Hlýðnitilraun Milgrams

Árið 1963 gerði Stanley Milgram, sálfræðingur við Yale háskóla, tilraun sem hefur verið hvort tveggja í senn, umtöluð og umdeild. Markmiðið var að kanna hversu hlýðið venjulegt fólk er. Það er áhugavert að velta fyrir sér hvers vegna tilraunin olli því fjaðrafoki sem raun bar vitni, og hvað má læra af því að láta grunlausa einstaklinga misþyrma saklausum fórnarlömbum.

Árið 1963 gerði Stanley Milgram, sálfræðingur við Yale háskóla, tilraun sem hefur verið hvort tveggja í senn, umtöluð og umdeild. Það er áhugavert að velta fyrir sér hvers vegna hún olli því fjaðrafoki sem raun varð, og hvað má læra af því að láta grunlaust fólk misþyrma saklausum fórnarlömbum.

Tilraun Milgrams byggði á því að einstaklingum sem samþykkt höfðu að taka þátt í vísindatilraun var sagt að verið væri að kanna áhrif refsinga á lærdómsgetu. Þeir voru kynntir fyrir öðrum einstaklingi, sem þeir töldu einnig vera þáttakanda, en var í raun og veru samstarfsmaður stjórnanda tilraunarinnar, og hafði fulla vitneskju um tilgang tilraunarinnar. Þáttakandinn skyldi taka að sér hlutverk kennara, en samstarfsmaður stjórnandans hlutverk nemandans.

Refsingarnar fólust í raflosti sem kennarinn gaf nemandanum við rangt svar. Kennaranum var gefið raflost, sem sýnishorn af því hvers eðlis refsingin væri, og síðan sýnt stjórnborð með 30 rofum, merktum 15-450 volt, með 15 volta millibili. Auk spennumerkinga voru rofarnir merktir eftir flokkum, allt frá „Milt raflost“, og að „Hætta: Mjög sterkt raflost“ og „XXX“. Eftir útskýringu á virkni tækja og tóla tók við kennslustundin, sem byggði á því að kennarinn (merktur (S) á myndinni að ofan), spurði nemandann (A), ýmissa spurninga. Nemandinn svaraði með því að þrýsta á einn af fjórum rofum og þegar nemandinn gaf rangt svar gaf kennarinn honum raflost með aðstoð rofaborðsins. Spennan var aukin um 15 volt fyrir hvert rangt svar, og var tilrauninni ekki hætt fyrr en búið var að gefa 450 volta raflost. Stjórnandinn (E) sat svo fyrir aftan kennarann og gaf leiðbeiningar.

Í flestum tilvikum var tilraunin tíðindalítil framan af, kennarinn gaf raflost við röng svör en lét það vera þegar svörin voru rétt. En við 300 volt byrjaði nemandinn (sem fékk að sjálfsögðu aldrei raflost) að banka á vegginn sem skildi hann frá kennaranum og þrýsti ekki á neinn svarhnapp. Þegar kennarinn spurði stjórnanda tilraunarinnar hvernig hann ætti að bregðast við, var honum sagt að túlka ekkert svar sem rangt svar og gefa raflost. Nemandinn brást eins við eftir 315 volta raflostið en eftir það sýndi nemandinn engin viðbrögð við raflostum, hvorki með svarrofum né á annan hátt. Þegar þar var komið vildu flestir nemendur hætta. Stjórnandinn sat við sitt skrifborð og svaraði með eftirfarandi setningum:



  1. Vinsamlega haltu áfram.

  2. Tilraunin krefst þess að þú haldir áfram, vinsamlega haltu áfram.

  3. Það er algerlega nauðsynlegt að þú haldir áfram.

  4. Þú átt ekki um neitt annað að velja, þú verður að halda áfram.



Ef þátttakendur neituðu að halda áfram eftir fjórðu setninguna var tilrauninni hætt. Engu að síður héldu að jafnaði um tveir þriðju þáttakenda tilrauninni áfram þar til þeir höfðu gefið 450 volta raflost. Þetta gerðu þeir þrátt fyrir að sýna skýr merki vanlíðunar yfir framferði sínu, og segja hluti á borð við „Guð minn góður, við verðum að hætta þessu“. Milgram gerði á þriðja tug tilrauna þar sem aðstæður var stillt upp á mismunandi máta, til dæmis var nemandinn í sumum tilfellum látinn öskra af sársauka og kvarta yfir því að hann væri veill fyrir hjarta og við það að fá hjartaáfall.

Hlýðnitilraunir Milgrams hafa verið gagnrýndar á þeim forsendum að ekki sé réttlætanlegt að valda þeirri sálarangist sem þátttakendur urðu fyrir í tilrauninni. Milgram til varnar má nefna að hann hannaði tilraunina gerði hann könnun meðal sálfræðnema við Yale á því hve hlýðnir þeir teldu að þáttakendurnir yrðu, og töldu þeir að ekki nema 1.4% myndu samþykkja að halda tilrauninni áfram til enda. Engu að síður voru nokkrir annmarkar á tilrauninni ef miðað er við staðla sem viðhafðir eru í félagsfræðirannsóknum í dag, til dæmis var ekki lögð nægjanlega mikil áhersla á að útskýra raunverulegan tilgang tilraunarinnar fyrir þátttakendum eftir að henni var lokið.

En óháð því hvort tilraun af þessu tagi teldist heppileg í dag standa niðurstöður hennar eftir: Með því að setja fólk í rétt umhverfi er hægt að fá það til að gera ólíklegustu hluti, þrátt fyrir að því sé það þvert um geð. Sérstaklega er athyglisvert hversu stuttan tíma og litla þvingun tók að knýja fólk til hlýðni. Þetta er hverjum manni gott að hafa í huga í daglegu lífi, þar sem ýmsir vænta hlýðni og hollustu – stundum til góðra verka, en stundum til slæmra. Lexían hlýtur að vera sú að hlusta á samvisku sína, og neita að afsala sér ábyrgðinni af eigin gjörðum.


Nánari upplýsingar má finna á Wikipedia.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)