Heimsógn eða uppblásin æsifrétt?

Fregnir af fuglaflensunni alræmdu hafa verið fluttar í öðrum hverjum fréttatíma svo mánuðum skiptir fyrir daufum eyrum Íslendinga. Hér virðist fólk hafa af flensunni litlar áhyggjur og fremur furða sig yfir þessum eilífa fréttaflutningi af dauða fugla í Asíu.

Fregnir af fuglaflensunni alræmdu hafa verið fluttar í öðrum hverjum fréttatíma svo mánuðum skiptir fyrir daufum eyrum Íslendinga. Hér virðist fólk hafa af flensunni litlar áhyggjur og fremur furða sig yfir þessum eilífa fréttaflutningi af dauða fugla í Asíu. Nú á fyrstu dögum nýs árs hefur veiran þó færst ívið nær og er mætt við dyr Evrópu. Fuglar virða engin landamæri og ljóst er að engin þjóð getur verið alveg óhult, jafnvel þótt hún búi á eyju. Er ekki laust við að sá grunur læðist að manni að ef til vill sé kominn tími til þess að gefa þessum flensufréttum gaum.

Fimmtán afbrigði fuglaflensu eru þekkt og á heimasíðu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar kemur fram að fyrsta tilfellið sem vitað sé um í manni hafi verið í Hong Kong árið 1997. Afbrigðið sem nú herjar á heimsbyggðina nefnist H5N1 og hafa milljónir fugla ýmist dáið eða verið fargað í yfir tólf löndum frá því H5N1 varð fyrst var árið 2003. Í lok árs 2005 höfðu yfir 70 manns látist af völdum fuglaflensunnar eða um helmingur þeirra er sýkst hafa. Flest dauðsföll hafa orðið í Víetnam. Þeir sem látist hafa hingað til eiga þó það sameiginlegt að hafa komist í snertingu við sýkta fugla og ætla má að fáfræði um veiruna spili þar stórt hlutverk.

Sérfræðingar óttast breytingu veirunnar svo hún berist með auðveldari hætti á milli manna líkt og venjuleg inflúensa. Stökkbreyting veirunnar gæti átt sér stað í manneskju sem væri sýkt bæði af fuglaflensunni og hefðbundinni inflúensu.

Fyrstu dauðsföllin af völdum H5N1 utan Asíu nú í Tyrklandi í vikunni vekja óneitanlega ugg. Evrópubúar eru á nálum enda veiran orðin staðreynd í álfunni. Heitasti sumarstaður Íslendinga í ár virðist ætla að vera Tyrkland en hver veit nema fólk fari að afpanta ferðir sínar þangað í hrönnum. Landlæknisembættið vill þó ekki mæla með jafn róttækum aðgerðum og ferðatakmörkunum að sinni. Það lætur sér nægja að benda fólki á að forðast snertingu við lifandi hænsn og villta fugla. Þá sé best að forðast markaði með lifandi fuglum og ekki borða ósoðið eða illa soðið fuglakjöt og egg.

Það er erfitt að ímynda sér alheimsfaraldur af þessu tagi. Spænska veikin lagði um 50 milljónir manna að velli árið 1918 en margir vísindamenn telja að veikin hafi verið afbrigði fuglaflensu. Almenn léleg lífsgæði hafa þó eflaust átt sinn þátt í að veikin varð að viðlíka faraldri. Ætla má að fólk í nútímanum sé ívið betur undir það búið að taka á móti veirunni. Þó gæti svo farið að líf okkar ætti eftir að verða fyrir einhverjum áhrifum hvort sem af alheimsfaraldi yrði eða ekki – Hver veit nema fólk neyðist til þess að taka upp forna siði líkt og að þvo sér um hendurnar áður en snætt er – og villibráðin verði að munaði sem ekki er hægt að leyfa sér.

Samt sem áður er ekki annað hægt en að velta því fyrir sér hvort ekki sé fremur um uppblásna æsifrétt að ræða en raunverulega heimsógn.

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)