Einfaldar lausnir

sdfdÍ jólahelgarnesti dagsins kennir ýmissa grasa að vanda enda er hinn eini sanni jólaandi fangaður og matreiddur ofan í dygga lesendur Deiglunnar á snyrtilegan máta beint af hægri kantinum.

Einfaldar lausnir eru alltaf bestar!

Einföld lausn á flóknum vanda er gulls ígildi. Nú grunar kannski einhverja lesendur Deiglunnar að verið sé að teygja lopann, en svo er alls ekki enda er af nægu að taka í helgarnesti dagsins. Hefjum leikinn: Pistlahöfundur hefur lengi trúað því að lesendahópur Deiglunnar samanstandi af einhvers konar tilbrigði við hægri-intelligensíu. Þar til í gær trúði hann statt og stöðugt á þessar fullyrðingar en í morgun kom í ljós að þær flokkast sem ranghugmyndir. Í árlegri jólaglögg Deiglupenna í gærkvöld var lesinn upp listi yfir algengustu leitarorðin á Deiglunni og það verður að játast að þar kom margt einkennilegt í ljós. Auðvitað hefði maður vonast til að lesendur vefritsins hefðu áhuga á heimsbókmenntum, stjórnmálum og rómatísku háði – en svo er ekki, eins og leitarniðurstöður ársins staðfesta.

Hefjum lestur.

Algengasta leitarorðið á Deiglunni árið 2005 var Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, en hvorki meira né minna en 898 lesendur leituðu eftir nafni hennar á vefritinu. Í sjálfu sér vekur það kannski ekkert sérstaka furðu enda er fallegt kvenfólk endalaus uppspretta andlegrar örvunar. Hins vegar vekur það eftirtekt að fast á hæla Unnar Birnu kom leitarorðið Gays, en 223 aðilar leituðu að því á árinu.

Sennilega er engin einföld lausn til þess fallin að skýra út þankagang þeirra sem eru að lesa Deigluna, en fá skyndilega þörf fyrir að leita að orðinu Deiglan í leitarvél Deiglunnar! Eiginlega alveg óskiljanleg hegðun, sem átti sér hins vegar stað 151 sinni á árinu.

Þetta vekur upp ýmsar spurningar, m.a. þessa: Getur maður einhvern tíma fundið sjálfan sig? Ef maður finnur sjálfan sig hlýtur að liggja í orðanna hljóðan að maður hafi týnt sér fyrst. Ég ætla svo sem ekkert að fullyrða um flækjustig þessara vangaveltna en Oscar Wilde orðaði lausnina við þessu einhvern veginn svona: „Only the shallow know themselves“. Sem er eiginlega jafnsatt og þetta: „Only dull people are brilliant at breakfast.“

Hann kunni þetta, kallinn.

Aftur að efninu. Í næstu sætum yfir vinsælustu leitarorð ársins voru þessi: Colin Farrel, Steingrímur Njálsson, Einkamál.is, Ástarfleyið og Vísindakirkjan.

Manni fallast bara hendur – og ég endurtek! – pistlahöfundur er ekki eitthvað að bulla: Þetta eru upplýsingar úr gagnagrunni Deiglunnar sem nördaarmurinn flokkar samviskusamlega og heldur til haga á hverju ári. Gögnin sýna m.a. að lesendur Deiglunnar eru forvitnari um Klepp (20 leitir) en Orkuveitu Reykjavíkur (19 leitarstrengir).

Yfir í aðra sálma.

Svo er það náttúrulega sanna sagan af barninu sem æpti skelfingu lostið á móður sína í Blómavali á dögunum: „Mamma, mamma – það er brjálaður ísbjörn þarna – hlaupum!“

Við nánari athugun kom í ljós að ísbjörninn var kvenmaður komin af léttasta skeiði íklæddur ljósum pels.

Góða jólahelgi, börnin góð.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)