Hlutfallslegir yfirburðir Guðna Ágústssonar

Guðni Ágústsson toppar sjálfan sig – ef það er hægt! – í Morgunblaðinu í dag þegar hann lýsir því yfir að það sé miskilningur hagfræðinga að þjóðir eigi að fást við það sem þær eru samkeppnishæfar í!

Helgarnestið er skemmtilegur vettvangur sem nýtur mikillar hylli lesenda Deiglunnar enda þekkja pennar nestisins takmörk sín og hafa sérhæft sig í háði og málefnalegum útúrsnúningum. Pistill dagins brýtur ekki þá venju enda hafa öll spjót staðið á landbúnaðarráðherra á síðustu dögum vegna mikillar umfjöllunar um afnám viðskiptahindrana í landbúnaði.

Eins og lög gera ráð fyrir hefur landbúnaðarráðherra reynt að verja sig fimlega þótt mörgum finnist sem oft fari lítið fyrir málefnunum í svörum ráðherra. Sem dæmi þá snérist vörn hans í Kastljósi um daginn upp í umræðu um verðlag á Ritter-súkkulaði sem ráðherra þótti hafa hækkað úr hófi fram!

Látum það liggja á milli hluta.

Um það verður ekki deilt – öfugt við margar hugmyndir hagfræðinnar – að öllum vegnar best ef þeir sérhæfa sig í því sem þeir eru samkeppnishæfastir í og framleiði þær vörur sem þeir geta framleitt með hlutfallslega lægstum tilkostnaði.

Lesendur Deiglunnar sjá þetta strax enda væri með öllu óeðlilegt ef íslendingar boruðu allt hálendið í leit að demöntum, ef Danir settu sér það markmið að gera Danmörku að besta alpastórsvigssvæði í heimi og ef Bólivía (landlukt!)sérhæfði sig í sjóflutningum!

Þó er þetta málflutningur Guðna Ágústssonar.

Guðni segir orðrétt í Morgunblaðinu í dag: „… hagfræði sem ekki standi mikil vísindi á bak við að margra mati. Hún gangi ljósum logum um heiminn og boði að menn og þjóðir eigi engöngu að fást við það sem þeir eru samkeppnishæfir í.“

Já, þið lásuð rétt!

Guðni er sannarlega ekki fyrsti maðurinn til að ruglast í ríminu varðandi hlutfallslega yfirburði. Hann á það hins vegar sammerkt með þeim sem það hafa gert að þeir eru undantekningarlaust dregnir sundur og saman í háði! Enda efast ég um að einn einasti hugsandi maður standi til reiðu að kvitta upp á hugmyndir Guðna.

Hagfræðingurinn Paul Krugman á MIT leysir þessa rökræðu listavel og grein hans er svar við bábiljum allra Guðna í heiminum – og þeir eru margir. Lesturinn er kostulegur enda dregur Krugman sjónarmið Guðna allra landa sundur og saman í háði.

Til allrar hamingju virðist vera farið að rofa til í búverndarmálum og það besta er að móttökuskilyrðin í samfélaginu eru að batna. Almenningur er loksins farinn að átta sig á að menn eiga að sérhæfa sig – þannig græði allir. Og það sem meira er; skynsamlegast sé að menn sérhæfi sig í því sem þeir eru góðir.

Spurning helgarinnar hlýtur því að vera: „Í hverju felast hlutfallslegir yfirburðir Guðna Ágústssonar?“

Gæti það verið pólitísk hugmyndafræði 18. aldar?

Góða helgi.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.