Stigið á stokk

Hvernig hefur íslensku þjóðinni gengið að efna heit sín á líðandi ári? Sum áramótaheit eru heitari en önnur sérstaklega þau sem birtast á opinberum vettvangi.

Senn er árið liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. Sá tími sem við höfum til að uppfylla þau heit sem strengd voru fyrir rétt tæpu ári síðan er því senn á þrotum og því er ekki seinna vænna en að bretta upp ermar og klára dæmið hvort sem það er að hætta reykingum eða hlaupa af sér aukakílóin. Hætt er við að senn liggi í valnum ótal heitstrengingar sem ekki hefur tekist að efna.

Við almúginn búum við þann kost að við getum haldið okkar heitum og vanefndum á þeim fyrir okkur og þurfum ekki að bera þau á torg frekar en við viljum. En ekki búa allir við þann kost. Á nýársdag kom fram maður sem sumir kalla sameiningartákn þjóðarinnar og lýsti því yfir fyrir alþjóð að nú væri komið að því að efna til átaks gegn fíkniefnum og þeirri skuggaveröld sem þeim fylgja. Mynda þyrfti nýtt varnarlið “varnarlið um friðsæld og öryggi hins íslenska veruleika” svo vitnað sér orðrétt í ræðu forseta. Nú vil ég ekki leggja forsetanum orð í munn en ræða hans var túlkuð þannig að nú væri blásið í lúðra til að skera upp herör gegn fíkniefnavandanum og sumir fjölmiðlar minntust á þjóðarátak í því sambandi.

Nú er undirrituð ekki talsmaður þess að efna til þjóðarátaks um málefni sem þetta líkt og fram kemur í þessari deiglugrein sem birtist í apríl 2004Ekki fleiri þjóðarátök takk en ljóst er að yfirlýsing forsetans vakti von í brjósti margra sem hafa kynnst þessum vágesti um að nú færu hlutirnir að gerast. Lítið hefur þó borið á störfum forseta varðandi þetta málefni enda er maðurinn upptekinn við að veita verðlaun, klippa á borða, bjóða heim barónessum og hlusta á Bryn Terfel. Á heimasíðu forsetans er þó að finna eina fréttatilkynningu er tengist þessu efni þar sem kynnt er forvarnarverkefni í 10 evrópskum borgum sem kostað er af ActavisGroup og verndað af forseta Íslands sem er mjög gott mál, en var það þetta sem hann var að tala um á nýársdag?

Við náum ekki tökum á fíkniefnavandanum nema við leggjumst öll á eitt. Hugmynd forsetans um varnarlið í þessu sambandi er góð. Til að ná árangri þurfum við ekki þjóðarátak heldur forvarnir. Hver einstaklingur verður að líta á sig sem hluta af þeirri heild, varnarliðinu, sem getur spornað við fótum og haft áhrif á það hversu útbreitt vandamálið er. Við ættum að stefna að því að setja varnarliðsmann í hvert hús. Kannski getur það verið sameiginlegt áramótaheit okkar almúgans og forsetans?

Það er slæmt þegar maður nær ekki að standa við heit sín og enn verra ef maður hefur með yfirlýsingum sínum vakið vonir heillrar þjóðar. Komandi ár er óskrifað blað og því fylgja ótal tækifæri. Möguleiki okkar á því að stíga enn og aftur á stokk og strengja þess heit að ná háleitum markmiðum er enn og aftur framundan. Vonandi ber okkur öllum sem og forseta Íslands gæfa til að standa við fögur heit á nýju ári.

Latest posts by Unnur Brá Konráðsdóttir (see all)

Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar

Unnur Brá hóf að skrifa á Deigluna í október 2004.