Bókamerki endurbætt

Í árdaga veraldarvefsins voru leitarvélar óþekkt fyrirbæri. Ef manni tókst að finna nokkurn skapaðan hlut á vefnum, þá vildi maður svo sannarlega geta fundið hann auðveldlega aftur. Lausnin var bókamerki. Stóri gallinn við bókamerkin er hins vegar sá að þau fylgja einu forriti og einni tölvu. Noti maður fleiri en einn vafra eða fleiri en eina tölvu þá eru bókamerkin aldrei til staðar þegar þeirra er þörf. Nýlega hafa bókamerki skotið aftur upp kollinum, í talsvert breyttri mynd. Hin nýju bókamerki leyfa manni að finna hluti sem manni datt ekki einu sinni í hug að leita að.

Í árdaga veraldarvefsins voru leitarvélar óþekkt fyrirbæri. Ef manni tókst að finna nokkurn skapaðan hlut á vefnum, þá vildi maður svo sannarlega geta fundið hann auðveldlega aftur. Lausnin var bókamerki („bookmarks“ í Netscape vafranum og „favorites“ í Internet Explorer). Stóri gallinn við bókamerkin er hins vegar sá að þau fylgja einu forriti og einni tölvu. Noti maður fleiri en einn vafra eða fleiri en eina tölvu þá eru bókamerkin aldrei til staðar þegar þeirra er þörf. Auk verður þess mjög erfitt að finna aftur gömul bókamerki þegar þeim fjölgar. Með tilkomu öflugra vefleitarvéla urðu bókamerki því næst óþörf, því auðvelt varð að finna hvað sem manni datt í hug með því að slá inn nokkur leitarorð. Nýlega hafa bókamerki þó skotið aftur upp kollinum, í talsvert breyttri mynd. Hin nýju bókamerki leyfa manni að finna hluti sem manni datt ekki einu sinni í hug að leita að.

Hugmyndin að baki upprisu bókamerkjanna er ekki ný af nálinni, en má segja að bylting Google leitarvélarinnar byggi einmitt á henni. Hugmyndin er að nýta þá staðreynd að fólk er mun betra en forrit í því að flokka flóknar upplýsingar. Það er alls ekki auðvelt að skrifa forrit sem getur sjálfvirkt tekið saman söguþráð heillar skáldsögu í þrjár setningar, en flestum grunskólanemum tekst það allvel.

Fyrstu leitarvélarnar á Internetinu byggðu á textagreiningu, þ.e. leituðu að vefsíðum sem innihéldu orðið sem leitað var að. Google metur hins vegar innihald vefsíðna eftir því hvernig aðrir vefsíðuhöfundar vísa í þær. Ef margar vefsíður vísa t.d. í ákveðna síðu, með hlekk (e. link) sem merktur er „Jón Hreggviðsson“, þá er víst að þar er að finna fróðleik um þann litríka snærisþjóf. Með þessu móti er hagnýtt sú flokkunarvinna, sem notendur Internetsins inna af hendi þegar þeir búa til hlekki á vefsíðum.

Þessar sömu hugmyndir er að finna í netverslun Amazon bóksölunnar. Amazon fylgist með því hvaða bækur notendur skoða og kaupa. Með því að para saman notendur með svipaða hegðun er hægt að finna fólk með svipuð áhugamál. Ef kemur t.d. í ljós að menn A og B hafa keypt sömu þrjár bækurnar, og maður A eina bók að auki, þá er mjög líklegt að maður B hafi einnig áhuga á að kaupa þá bók. Með þessum hætti er hægt að gera mun markvissari tillögur en ef reynt væri að leita í texta bóka að einsökum orðum.

Hvernig er svo hægt að beita þessu á bókamerki? Í fyrsta lagi þarf að koma bókamerkjum fólks á einn stað, til þess að hægt sé að bera þau saman og vinna úr þeim. Þetta er leyst með því að geyma bókamerkjasafn notenda á vefþjóni á Internetinu í stað þess að geyma þau á tölvu hvers og eins. Þessi högun leysir einnig vandamálið með aðgengi – þar sem bókamerkin eru geymd miðlægt þá er hægt að nálgast þau úr hvaða tölvu og forriti sem er. Þegar notendum fjölgar og bókamerkjasafnið stækkar er hægt að finna notendur með svipuð áhugamál og nýta þær upplýsingar til þess að ráðleggja fólki um áhugaverðar vefsíður, líkt og Amazon gerir með bækur.

Íslenska fyrirtækið Spurl ehf. var með þeim fyrstu til þess að bjóða slíka miðlæga bókamerkjaþjónustu, en fjöldamörg önnur fyrirtæki bjóða nú upp á slíka þjónustu undir enska heitinu „social bookmarking“. Þekktast af þeim er líklega del.icio.us. Hafa ber í huga að bókamerki eru persónuupplýsingar og „social bookmarking“ felur alltaf í sér að við þurfum að treysta öðrum fyrir þeim.

Frekari fróðleikur:

Færsla Wikipedia um „social bookmarking“

Amazon bókaverslunin

Last Fm beitir „social“ aðferðum á tónlist.

Spurl

del.icio.us