Blóðugar hendur

Í þjóðarmorðinu sem átti sér stað í Rúanda árið 1994 gerðust Sameinuðu Þjóðirnar og UNAMIR sveitir samtakanna ítrekað sek um viðurstyggilega hegðun sem í sumum tilfella fellur undir glæpi gegn mannkyninu.

Í ágúst 1993 var skrifað undir samkomulag um vopnahlé í Rúanda á milli fylkinga Hútua (85 % þjóðarinnar) sem stjórnuðu flestu í landinu og hins vegar skæruliðahreyfingar sem samanstóð mestmegnis af fólki úr minnihlutahóp Tútsa. Var friðarferlinu stjórnað af UNAMIR sveitum Sameinuðu Þjóðanna (United Nations Assistance Mission for Rwanda)

Sameinuðu Þjóðirnar og aðdragandi þjóðarmorðsins

Í janúar 1994 fengu foringjar UNAMIR traustar upplýsingar um að háttsettir herskáir leiðtogar Hútua væru að þjálfa stóran hóp Hútumanna til að myrða leiðtoga Tútsa, frjálslynda Hútu stjórnmálamenn og dómara og fara síðan í kerfisbundna slátrun á öllum Tútsum í landinu. Fengu fulltrúar Sameinuðu Þjóðanna þessar upplýsingar frá erlendum málaliðum sem voru persónulega að þjálfa Hútumennina til þessara grimmdarverka. Romeo Dallaire, kanadíski hershöfðinginn, sem leiddi UNAMIR sendi tafarlaust beiðni til Kofi Annans sem þá var yfirmaður friðargæslu Sameinuðu Þjóðanna um að fá að grípa inn í og stöðva fyrirhugað þjóðarmorð. Kofi Annan neitaði þeirri beiðni.

Það sama var upp á teningnum þann 11. janúar 1994 en þá fengu foringjar UNAMIR upplýsingar frá háttsettum embættismönnum um að herskáir leiðtogar Hútumanna væru að safna saman gífurlegu magni vopna til nota við hið fyrirhugaða þjóðarmorð. Sagði viðkomandi embættismaður foringjum UNAMIR hvar vopnin væru geymd. Romeo Dallaire hafði þá aftur samband við Kofi Annan og bað hann um leyfi til að gera vopnin upptæk. Kofi Annan neitaði þeirri beiðni.

Sameinuðu Þjóðirnar eftir að þjóðarmorðið hefst

Ballið byrjaði síðan þremur mánuðum seinna. Hútugengi röltu um höfuðborgina og brytjuðu niður alla Tútsa sem þeir fundu með vélbyssum, sveðjum og naglaspýtum. Ofbeldið barst síðan út til landsbyggðarinnar og voru Tútsar drepnir kerfisbundið hvar sem þeir fundust. Aðalstöðvum Sameinuðu Þjóðanna var tilkynnt um raunverulegt ástand í landinu áður en tala myrtra Tútsa fór yfir 100.000. Sameinuðu Þjóðirnar gerðu ekkert.

Eftir að þjóðarmorðin voru byrjuð þá hafði Romeo Daillaire enn aftur samband við Kofi Annan og bað hann um að friðargæsluliðunum yrði fjölgað upp í 5000 til að stöðva glæpina. Kofi Annan svaraði Romeo Dallaire að slík fjölgun á hermönnum á vegum Sameinuðu Þjóðanna myndi “compromise your impartiality” og neitaði beiðninni alfarið.

Á sama tíma var Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna í bölvuðu basli með þetta mál. Sendifulltrúar Bretlands og Bandaríkjanna neituðu alfarið að skilgreina ástandið í Rúanda sem þjóðarmorð og ræddu um það annars vegar sem “ættbálkahatur” og hins vegar sem “slit á vopnahléssamkomulaginu”. Í raun var hins vegar aldrei neinn vafi á því að þetta væri þjóðarmorð enda voru drápin framin opinberlega á götum úti og hvatt var til þeirra í flestum fjölmiðlum landsins. Að lokum þá sendu fulltrúar óháðra og virtra mannréttindasamtaka beiðni til öryggisráðsins, lýstu ástandinu eins og það var og báðu um að friðargæsluliðið yrði styrkt og því falið að stöðva þjóðarmorðin. Væri þannig hægt að bjarga lífi hundruða þúsunda manna. Öryggisráðið svaraði beiðninni með því að draga allt friðargæslulið út úr landinu.

Hlutdeild Sameinuðu Þjóðanna í glæpum gegn mannkyninu

Í kjölfarið á brotthvarfi friðargæsluliðsins þá var þúsundum flóttamanna sem höfðu leitað skjóls hjá Sameinuðu Þjóðunum slátrað. Fjallað er um eitt af fjölmörgum slíkum dæmum í bók Dore Gold “Tower of Babble”:

On April 11th … 90 Belgian soldiers withdrew from a technical school…where they had been protecting 2,000 refuges including some 400 children. The Belgians pulled out of the school despite the fact that the Hutu militia waited outside, drinking beer and chanting ‘Hutu Power’ and despite the cries of the refugees who shouted ‘Do not Abandon us’. As the Belgian Peacekeepers left the school, they fired warning shots OVER THE HEADS OF THE REFUGEES. The Hutu militia went in after the withdrawal from the school was completed, firing machine guns and throwing grenades. Most of the Rwanda refugees were immediately killed.

En friðargæsluliðarnir höfðu einnig gerst sekir um alvarlega glæpi áður en þeir hurfu á braut. Margir helstu leiðtogar og framámenn Tútsa neituðu að flýja og treystu á vernd UNAMIR sem þeim og fjölskyldum þeirra hafði verið lofað af Sameinuðu Þjóðunum. Þessi vernd brást síðan á ögurstundu og olli því að allt þetta fólk var myrt með köldu blóði.

Versta dæmið er líklega mál Josephs Kovaruganda, forseta hæstaréttar Rúanda, sem var verndaður af UNAMIR sveit frá Ghana þegar þjóðarmorðið hófst. UNAMIR sveitin afhenti dauðasveit Hútumanna hæstaréttardómarann og fjölskyldu hans. Var dómarinn tekinn í burtu og líflátinn. UNAMIR sveitin var hins vegar eftir með morðingjunum og fjölskyldu dómaranns. Stóðu meðlimir hennar síðan, hlógu og drukku bjór með morðingjunum á meðan þeir réðust á eiginkonu dómarans og ungar dætur hans.

Annað dæmi er mál Landoald Ndasingwa, atvinnu- og félagsmálaráðherra Rúanda en hann var eini Tútsinn í ríkisstjórn landsins. Hann naut einnig verndar UNAMIR sveit frá Ghana. Þegar dauðasveitirnar nálguðust heimili hans flúðu hinir svokölluðu lífverðir af vettvangi og skildu hann og fjölskyldu hans ein eftir. Ráðherrann hringdi þá til aðalstöðva UNAMIR og bað að hermenn yrðu sendir til að bjarga fjölskyldu hans frá yfirvofandi dauða. Var hann fullvissaður um að hjálpin væri á leiðinni og ætti því bara að vera rólegur. Þrátt fyrir fögur loforð þá brutust dauðasveitirnar inn á heimilið. Var ráðherran síðan dreginn út úr húsinu ásamt móður sinni, kanadískri eiginkonu og tveimur börnum og voru þau skotin eitt á eftir öðru. Hjálpin sem ráðherranum var lofað sást aldrei.

Óháð rannsókn fordæmdi Sameinuðu Þjóðirnar

Óháð rannsókn undir forystu Ingvars Carlson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar (Report of the Independent Inquiry Into the Actions of the United Nations during the 1994 Genocide in Rwanda) fordæmdi seinna meir athafnir Sameinuðu Þjóðanna í þessu máli. Sakaði rannsóknarnefndin Bandaríkin og Bretland um að hafa viljandi neitað að viðurkenna atburðina sem þjóðarmorð til að komast hjá skuldbindingum sínum skv. alþjóðasáttmálanum um þjóðarmorð. Atvikið með forseta Hæstaréttar og atvinnu- og félagsmálaráðherrans var staðfest ásamt fleiri atvikum þar sem friðargæslulið brást algjörlega skyldum sínum. Er ljóst að í sumum tilvikum voru friðargæsluliðar frá Belgíu og Ghana meðsekir í glæpum gegn mannkyninu.

Enginn frá Sameinuðu Þjóðunum eða UNAMIR hefur verið dreginn til ábyrgðar vegna þessara atburða.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.