Sá á kvölina sem á völina

Í vor ganga kjósendur að kjörborðinu og velja sér sveitarstjórn sem starfa skal næstu fjögur árin. En hvaða straumar liggja að baki þeim kostum sem í boði verða?

Senn líður að sveitarstjórnarkosningum. Víðast hvar hafa stjórnmálaflokkarnir hafið vinnu við að undirbúa þá lista sem ætlunin er að bjóða fram í hverju sveitarfélagi. Ýmist er notast við þá aðferð að viðhafa prófkjör eða að skipa kjörnefnd sem hefur það hlutverk að finna til frambærilega einstaklinga til að stilla upp á lista. Línur munu skýrast á nýju ári og á komandi misseri verða fjölmiðlar undirlagðir af umfjöllun um sveitarstjórnarkosningarnar.

Það eru því spennandi og áhugaverðir tímar framundan hjá okkur sem höfum áhuga á því að fylgjast með pólitík. Flokkarnir keppast við að koma stefnumálum sínum á framfæri og bítast um athygli fjölmiðla. Eðlilega verður umfjöllunin um baráttuna um stærstu sveitarfélögin fyrirferðarmest á síðum blaðanna og í ljósvakamiðlum. Hins vegar má ekki gleyma því að víða um landið fer fram mjög svo áhugaverð kosningabarátta þar sem mætast stálin stinn.

Það er mikilvægt fyrir hinn almenna kjósanda að þeir kostir sem hann stendur frammi fyrir að velja á milli á kjördag séu skýrir. Þar sem boðið er fram í nafni stjórnmálaflokkana er mönnum ljóst hvaða gildi það eru sem liggja til grundvallar þeirri stefnu sem framboðið byggir á. En í sumum sveitarfélögum er ekki boðið fram í nafni stjórnmálaflokka heldur í nafni “óháðra” eða í nafni einhverskonar byggðasamtaka. Í sumum tilvikum getur jafnvel verið um að ræða dulbúið framboð stjórnmálaflokks sem í raun stendur að baki framboðinu en þorir ekki að bjóða fram undir eigin merkjum þar sem það annað hvort tíðkast ekki í sveitarfélaginu eða þykir ekki nógu fínt og þar af leiðandi ekki vænlegt til árangurs. Slík framboð setja sér í flestum tilvikum stefnuskrá sem ætlunin er að vinna eftir og kynnt er kjósendum. Rökin fyrir slíku framboði virðast víðast hvar vera þau að flokkapólitík skipti ekki máli þegar kemur að sveitarstjórnarmálum þar sem allir sem starfi á þeim vettvangi hafi sama markmið þ.e. að vegur sveitarfélagsins verði sem mestur og hagur íbúanna sem vænstur. En er þetta ekki nokkur einföldun? Vonandi er það rétt að allir sem gefa kost á sér til setu í sveitarstjórn hafi hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi og það er þá sameiginlegt einkenni allra sveitarstjórnarmanna sama hvar í flokki þeir eru. Hins vegar má ekki líta framhjá því að það eru ekki öll mál og atvik sem upp geta komið á kjörtímabilinu fyrirsjáanleg og því er mikilvægt að þeir sem með völdin fara byggi á ákveðnum grundvallargildum sem litið er til þegar mikilvægar ákvarðandi eru teknar. Ef slík stefna er ekki til staðar veit kjósandinn í raun ekki fyrir hvað framboðið stendur og getur ekki gert sér grein fyrir hvaða stefnu listinn mun taka ef virkilega erfitt og óvænt mál skýtur upp kollinum á kjörtímabilinu.

Þá er í skoðun í nokkrum sveitarfélögum að flokkar bjóði fram sameiginlega. Þannig skýrist það væntanlega í kvöld hvort Samfylking, Vinstri grænir og Frjálslyndir bjóði fram sameiginlegan lista í Ísafjarðarbæ. Í Reykjanesbæ hefur Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn ákveðið að bjóða fram sameiginlegan lista. Í báðum þessum tilvikum virðist hvatinn að því að bjóða fram sameiginlega eingöngu vera sá að ná völdum. Málefnin og stefna flokkanna virðist hafa gleymst og það atriði sem menn hafa komist að niðurstöðu um er að stefna flokksins ein og sér og þeir einstaklingar sem til er að dreifa sé ekki nógu spennandi til að heilla kjósendur. Því sé vænlegast til að ná völdum að smala saman á einn lista einstaklingum sem hafa það sameiginlegt að vilja koma sjálfum sér til valda. Framboð af þessu tagi eru mér óskiljanleg þar sem ég get enganvegin áttað mig á því hvernig einstaklingar sem eru flokksbundnir ákveðnum stjórnmálaflokki geti einfaldlega samsamað sig öðrum flokki. Væntanlega skilja almennir kjósendur ekki heldur fyrir hvað slík framboð standa og enn síður er hægt að sjá það fyrir hvaða sjónarmið verða ofaná þegar á reynir og upp koma erfið og óvænt mál á kjörtímabilinu.

Þegar á heildina er litið er það því best fyrir hinn almenna kjósenda sama í hvaða sveitarfélagi hann býr og óháð stærð þess að kostirnir sem í boði verða í vor séu skýrir.

Latest posts by Unnur Brá Konráðsdóttir (see all)

Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar

Unnur Brá hóf að skrifa á Deigluna í október 2004.