Fórnarkostnaður álsins

Áhersla íslenskra stjórnvalda á stóriðju umfram aðra atvinnuuppbyggingu er bæði yfirgengileg og ótrúleg. Pistlahöfundur hefur áður lýst yfir áhyggjum sínum af málinu en eftir að Medcare ákvað að flytja starfssemi sína úr landi þá fyrst tekur steininn úr.

Áhersla íslenskra stjórnvalda á stóriðju umfram aðra atvinnuuppbyggingu er bæði yfirgengileg og ótrúleg. Pistlahöfundur hefur áður lýst yfir áhyggjum sínum af málinu en eftir að Medcare ákvað að flytja starfssemi sína úr landi þá fyrst tekur steininn úr. Mörg önnur hátæknifyrirtæki hafa ljáð máls á því í fjölmiðlum að vel komi til greina að færa starfsemina úr landi. Þessar raddir virðast þó vera hjóm eitt. Það er eins og stjórnvöldum sé alveg sama þó að allur hátæknigeirinn flytji úr landi svo lengi sem það komi stóriðja og „bjargi“ málunum.

Vandamálið er það að fórnarkostnaður stóriðju er allt of hár, bæði frá umhverfislegu sjónarmiði og þjóðhagslegu. Fyrir það fyrsta er verið selja eftirsótta orku á tombóluprís en hvers vegna? Það eru ótal fleiri spurningar sem vakna þegar maður veltir fyrir sér stefnu stjórnvalda í atvinnumálum, t.a.m.:



-Er verið að mismuna atvinnuvegum í landinu með niðurgreiðslu stjórnvalda?

– Af hverju er áherslan á þær atvinnugreinar sem skila hlutfallslega minnstu til þjóðfélagsins miðað við hvað er lagt inn?

– Af hverju erum við að greiða tugi milljarða með landbúnaði á ári en nánast ekki neitt til skapandi iðnaðar og hugvitsfyrirtækja?

– Af hverju fá sjómenn sérstakan skattafrádrátt en ekki þeir sem starfa í hátæknifyrirtækjum?

– Ætlum við að hrekja öll hátæknifyrirtæki úr landi með hágengisstefnu stjórnvalda sem aðallega er til komin vegna ofur áherslu á uppbyggingu stóriðju á landinu?

– Af hverju finnst stjórnvöldum betra að fá álver sem gengur fyrir útsöluorku en að halda hátæknifyrirtækjum í landinu?

– Af hverju er orkan okkar ekki seld hæstbjóðanda ef við ætlum á annað borð að selja hana?

– Af hverju erum við að reyna að skapa störf í áliðnaði þegar atvinnuleysi á landinu er nánast ekki neitt?

– Af hverju viljum við fórna skapandi iðnaði fyrir álframleiðslu?

– Af hverju vilja stjórnvöld ekki styðja betur við bakið á sprotafyrirtækjum? Staðreyndin er sú að slík fyrirtæki skila mun meira til samfélagsins per starfsmann en stóriðjan gerir.

– Af hverju átta stjórnmálamenn sig ekki á því að samkeppnin um fólk snýst ekki um höfuðborgarsvæðið á móti landsbyggðinni heldur Ísland á móti útlöndum?

– Af hverju er stjórnmálamönnum sama um það þegar tugir starfa í hátæknigeiranum flytjast úr landi en allt verður brjálað á Alþingi þegar starfsstöð Símans á Ísafirði, sem telur 3-5 starfsmenn, er lögð niður?



Það er kominn tími til að stjórnmálamenn geri sér grein fyrir því hvernig þjóðfélag við viljum byggja upp. Hvort við viljum framleiðsluþjóðfélag þar sem aðaláherslan er lögð á stóriðju og hráefnisframleiðslu eða hátækniþjóðfélag þar sem menntun er í hávegum höfð og hugvit landsmanna er virkjað. Sé það fyrrnefnda val stjórnmálamanna þá verða þeir líka að gera sér grein fyrir því að hámenntað fólk og hugvitsiðnaðurinn mun flytjast úr landi. Við munum búa til láglauna þjóðfélag litað af stóriðju með tilheyrandi neikvæðum umhverfisáhrifum. Séu stjórnmálamenn hins vegar nógu framsýnir hlýtur niðurstaðan að vera seinni valkosturinn.

En þá verða menn líka að átta sig á því að hugvitið þarf stuðning. Það er ekki hægt að byggja endalaus álver með þeim afleiðingum að krónan haldist sterk og samkeppnisstaða hátæknifyrirtækja versni. Stjórnmálamenn verða að búa til þjóðfélag þar sem skilyrði til að reka hátæknifyrirtæki eru fyrsta flokks. Skattaumhverfið bæði fyrir fyrirtækin og starfsmenn þeirra þarf að vera gott og að sjálfsögðu er stöðugur gjaldmiðill skilyrði. Aukið fé til rannsóknar og þróunar fyrir hátæknifyrirtæki þarf að vera aðgengilegt, hvort sem það er í formi hagstæðra (vaxtalausra) lána eða beinna styrkja.

Ég beini þeirri eindregnu ósk til Alþingismanna að þeir reyni hvað þeir geta til að skapa betra starfsumhverfi fyrir hátækni á landinu. Ef ekki þá er Medcare einungis fyrsta fyrirtækið af mörgum sem mun flytjast úr landi. Það einfaldlega má ekki gerast, sama þó það kosti það að fleiri álver muni ekki rísa á landinu okkar.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)