Stór skref í rétta átt

Í síðustu viku kynnti forsætisráðherra nýtt frumvarp um réttarstöðu samkynhneigðra sem hefur verið lagt fyrir þingflokkana. Er óhætt að segja að með þessu frumvarpi er verið að taka stór og þýðingarmikil skref í réttindabaráttu samkynhneigðra.

Í síðustu viku kynnti forsætisráðherra nýtt frumvarp um réttarstöðu samkynhneigðra sem hefur verið lagt fyrir þingflokkana. Samkvæmt frumvarpinu verður heimild samkynhneigðra para til að ættleiða börn sú sama og gagnkynhneigðra para. Einnig mun kona í sambúð eða staðfestri samvist með annarri konu öðlast heimild til að gangast undir tæknifrjóvgun með gjafasæði líkt og á við um gagnkynhneigð pör. Móðirin og maki hennar munu hafa sömu lagalegu skyldur og sömu lagalegu réttindi gagnvart barninu hvað varðar til dæmis forsjá og framfærslu.

Frumvarpið byggir á skýrslu nefndar um réttarstöðu samkynhneigðs fólks sem kom út á síðasta ári. Er það mikið ánægjuefni að frumvarpið er byggt á sjónarmiðum minnihluta nefndarinnar sem vildi ganga mun lengra en meirihlutinn. Var viðhorf meirihlutans til ofangreindra álitaefna einmitt gagnrýnt harkalega af Deiglunni á sínum tíma.

Það eru hins vegar töluverð vonbrigði að frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að lögum um staðfesta samvist verði breytt þannig að prestar geti framkvæmt staðfesta samvist. En í dag er staðan þannig að skv. lögum um staðfesta samvist geta einungis sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra verið framkvæmdaðilar hennar en það útilokar kirkjulega athöfn skv. 17. gr. hjúskaparlaga.

Þrátt fyrir að kirkjuleg vígsla breyti engu um réttaráhrif gerningsins þá er ljóst að um er að ræða gífurlegt mikilvægt mál fyrir samkynhneigða. Kirkjan hefur í gegnum tíðina verið einn harðasti andstæðingur samkynhneigðra og hafa kreddur hennar ýtt undir þá fordóma að samkynhneigð sé á einhvern hátt óeðlileg. Ef heimild til kirkjulegrar vígslu væri sett í lög væri kirkjan neydd til að hugsa sinn gang alvarlega og frjálslyndum prestum hjálpað í baráttunni gegn 18. aldar hugsuninni sem virðist stundum vera ríkjandi innan kirkjunnar.

Fullt jafnrétti hlýtur alltaf að vera markmið allra minnihlutahópa í þjóðfélaginu og eru samkynhneigðir engin undantekning. Það er ljóst að með þessu frumvarpi er verið að taka stór og þýðingarmikil skref í baráttunni fyrir því að samkynhneigðir nái því markmiði og standi jafnfætis gagnkynhneigðum í þjóðfélaginu. Við verðum að halda áfram á þessari braut og ekki stoppa fyrr en fullu jafnrétti er náð.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)