NIMBY

sdfdÁ síðustu misserum hefur það færst í aukana að íbúasamtök mótmæli fyrirhuguðum framkvæmdum á byggingareitum sem liggja t.a.m. nálægt heimilum meðlima samtakanna.

Not in my back-yard!

Sérhagsmunahópar eru síður en svo nýir af nálinni en þeir eiga það flestir sammerkt að fulltrúar þeirra telja sig berjast fyrir réttlátum og nauðsynlegum málstað. Að grunni til hverfist tilvera hópanna um þá hugsun að auðveldara sé að ná fram þröngum hagsmunum fámenns hóps en breiðari hópa, þar sem léttara er að virkja hvern meðlim fámenns hóps til að beita löggjafann þrýsting til sértækra breytinga á lögum og fleira í þeim dúr. Í eðli sínu er hugmyndin snjöll og líkleg til árangurs enda eru stjórnmálamenn í flestum tilvikum auðsveipir fyrir tillögum sérhagsmunahópa, sem eru alla jafna líklegri til að mæta á kjörstað en aðrir borgarar með dreifðari hagsmuni. Enda skyldi engan undra: Sérhagsmunahópar spila inn á lítið atvinnuöryggi stjórnmálamanna og halda þeim þannig gíslum til að ná fram þröngum hagsmunum sem geta gengið þvert á almannahag. Kenningum um sérhagsmunahópa hefur á síðustu árum verið gefinn aukinn gaumur innan hagfræðinnar og er eftirtektarverð svokallaður NIMBY-hugsunarháttur, sem ríður röftum á Íslandi í dag.

NIMBY er skemmtilegt orðskrípi sem nýtt er til styttingar á málsgreininni Not In My Back Yard – og vísar til þess að menn séu hlynntir ákveðnum framkvæmdum, s.s. húsbyggingum og lagningu hraðbrauta – svo lengi sem framkvæmdirnar skarast ekki við lóðamörk viðkomandi eða aðra sérhagsmuni.

Í allri umræðu um framtíðaruppbyggingu Reykjavíkur virðist allur þorri manna vera þeirrar skoðunar að þétta beri byggð innan borgarmarka. Hins vegar spretta daglega upp ný hverfasamtök – sérhagsmunahópar! – sem berjast gegn þéttingu byggðar í næsta nágrenni við heimili sín. Slík hegðun er eðlileg – jafnvel þótt hún gangi gegn hagsmunum meirihlutans í þágu minnihlutans.

Eignaverð ákvarðast af mörgum þáttum, m.a. legu húsnæðis og umgjörð þess. Eignir í hjarta borgarinnar nálægt opnum rýmum eru alla jafna verðmeiri en eignir sem er þröngur stakkur sniðinn. Jafnvel þótt hagsmunir borgarbúa snúi að almennri þéttingu byggða – geta einstaka framkvæmdir rýrt t.a.m verðgildi eigna, valdið nágrönnum ónæði og þar fram eftir götum.

Í eðli sínu er ólíklegt að meirihluti borgarbúa stofni með sér samtök og láti öllum illum látum í fjölmiðlum til að berjast fyrir því að ákveðin framkvæmd nái fram að ganga. Til þess að svo verði eru hagsmunir heildarinnar of dreifðir og ólíklegt að einhver finnist til að leiða hópinn – og enn ólíklegra að einhverjir fáist til að berjast fyrir málstað hans.

Hins vegar er afar líklegt að íbúar í nágrenni byggingarinnar rísi upp og mótmæli kröftuglega – enda getur framkvæmdin valdið lækkandi eignaverði og valdið þeim óþægindum af ýmsum toga. Þröngir sérhagsmunir tiltölulega fárra íbúa fá því meira vægi en dreifðir hagsmunir heildarinnar, þrátt fyrir að hagmsunir heildarinnar séu meiri en hagsmunir minnihlutans!

Stjórnmálamönnum er nokkur vorkunn enda erfitt að sigla beint með vindinn í fangið. Þess vegna verð ég að hryggja lesendur með því að líklegt er að mikið af framkvæmdum í miðborg Reykjavíkur séu andvana fæddar – enda kennir sagan okkur að sérhagsmunir vega oftar þyngra en dreiðir hagsmunir fjöldans.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)