Stytting framhaldsskólanáms

Nú stendur yfir undirbúningur í menntamálaráðuneytinu að stytta nám til stúdentsprófs um eitt ár. Fyrirhuguð aðgerð er ekki að frumkvæði kennara, nemenda, né annarra sem málið varðar.



Nú sendur yfir undirbúningur í menntamálaráðuneytinu að stytta nám til stúdentsprófs um eitt ár. Fyrirhuguð aðgerð er ekki að frumkvæði kennara, nemenda, né annarra sem málið varðar beinlínis. Þessir aðilar eru ósáttir við staðreynd málsins enda hafa þeir ekki með neinu móti hvatt til þessarar stórtæku aðgerðar. En hver eru rökin sem haldið er á lofti, fyrir og gegn þessari styttingu stúdentsprófs um ár?

Að mati framhaldskólakennara hefur ráðuneytinu ekki tekist að finna neina útfærslu á fyrirhugaðri styttingu. Það sem blasir við er einfaldlega skerðing á námsefni og minni þekking stúdenta. Kennarar telja styttingu um eitt ár aðeins geta leitt til aukinnar einhæfni. Minni tök verði á sérhæfðara námi eins og stærðfræði, eðilsfræði og tungumálum. Af þeim sökum verði staða nemenda á Íslandi lakari í sambanburði við önnur lönd og því hljóta þessar hugmyndir menntamálaráðuneytisins að vekja furðu.

Vel kann að vera að Þorgerður Katrín og hennar fólk í ráðuneytinu sé að fara offari. Ekki hefur ennþá gefist tækifæri til þess að fara yfir síðustu breytingar sem áttu sér stað á framhaldsskólastiginu árið 1999 og árangurinn af þeim hefur ekki ennþá verið mældur. Rök þeirra sem standa fyrir breytingunni eru vísun í alþjóðlegan samanburð þó ekki séu til staðar tölfræðilegar upplýsingar sem skýra málið. Ráðuneytið hefur einnig þau augljósu og ágætu rök að brottfall úr framhaldsskólum minnki “líklega” við þessa breytingu.

En hver er ávinningurinn og hvert er tapið með þessum breytingum?

Að mati ýmissa fræðimanna mun styttingin ekki koma niður á námsárangri. Þorvaldur Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands segir að mikil tölvuvæðing hafi átt sér stað og nú sé hægt að koma námsefni til skila á skemmri tíma en áður. Hann tekur Háskóla Íslands sem dæmi. Þar var farið þá leið að stytta hagfræðinámið úr fjórum árum í þrjú að nær óbreyttu námsefni í aðalatriðum. Styttingin tókst í alla staði vel og segir Þorvaldur að ýmsar aðrar námsbrautir innan Háskólans hafi kosið að fara sömu leið. Styttingin gerir skólanum kleift að laða að betri nemendur en áður og skilar þeim fyrr út í framhaldsnám og út á vinnumarkaðinn. Hann segir einnig stórfé hafa sparast með þessum aðgerðum.

Stytting náms til stúdentsprófs er löngu tímabær en máli skiptir hvernig að henni er staðið að mati Þorvaldar. Vænlegast er að stytta námið þar sem að slakinn er mestur og trúlegast er hann meiri í grunnskólum en framhaldsskólum. Hann segir að ekki megi ganga út frá því að kennslutæknin standi í stað og að námstíminn sé eitthvað mælitæki á námsárangur. Með auknum afköstum í námi tekur námið einfaldlega minni tíma.

Ætla má að þjóðhagslegur ávinningur hljótist af styttingu framhaldskólanáms. Með því að fara úr fjórum árum í þrjú verður hugsanlega ávinningur vegna aukinnar framleiðni. Ungt fólk kemst fyrr út á vinnumarkaðinn og kostnaður við styttra nám er mjög líklega lægri. Það er mikilvægt fyrir atvinnulífið að breytingarnar verði ekki til þess að námskröfur til stúdentsprófs verði minni en nú þannig að íslenskir stúdentar verði síður samkeppnishæfir í háskólanámi.

Skólameistarar framhaldsskóla landsins eru á því máli að með styttingu verði námið mun einsleitara en nú og að undirbúningur fyrir háskólann verði ekki eins góður. Þá hefur það verið nefnt að ekki sé raunhæft að færa kennslu úr framhaldsskólum niður í grunnskóla vegna skorts á sérþekkingu kennara í viðkomandi greinum. Það að stytta grunnskólann frekar en framhaldsskólann eru ein rök ,en fyrir þeim liggja ástæður eins og að ekki sé ákjósanlegt að missa unglinga af landsbyggðinni svo snemma, ekki sé tímabært fyrir unglinga að velja sérsvið sín fyrir sextán ára aldur og ekki megi stytta veru “barna” í því örugga umhverfi sem grunnskólinn býður upp á.

Það virðist vera hægt að telja fram ýmiss rök fyrir því að ekki eigi að stytta nám til stúdentsprófs. Menntun íslenskra ungmenna er sögð í hættu og samkeppnisstaða þeirra að sama skapi. Með styttingu náms til stúdentsprófs mun ákveðin skerðing eiga sér stað. Bæði mun tungumála- og stærðfræðikennsla skerðast en að sama skapi verður hluti af þessu námi fæður niður á grunnskólastigið. Að mati skólastjórnenda þessa lands þykir það afleitur kostur.

Það er ljóst að taka þarf hin ýmsu mál með í reikninginn þegar sú hugmynd um að stytta nám í framhaldsskóla um ár er reifuð. Svo virðist sem menntamálaráðherrra hafi ekki ráðfært sig við þá sem stjórna og kenna við framhaldsskóla landsins nógu vel um hvernig skuli haga þessari styttingu. Undirbúa þarf málið mun betur en nú hefur verið gert og í raun ætti að endurskipuleggja allt frá grunni þegar ráðist er í svo drastískar breytingar.

Tryggja þarf að þessi breyting stuðli að því að tíminn nýtist betur í skólakerfinu. Tryggja þarf að gæði náms verði ekki minna en nú þegar er og að fólk komi betur undirbúið til háskólanáms . Fjölbeytileiki, valfrelsi og sérhæfing sem nú þegar stendur til boða þarf áfram að vera á boðstólnum eftir styttingu. Þegar ljóst er að það mun standa og að ekki verði stofnað í hættu viðkvæmu menntakerfi landsins má fara í það að stytta námið um ár. Ekki fyrr.

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.