Flatir skattar

Skattar á Íslandi eru flatari en í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Flatir skattar draga úr því óhagræði sem hlýst af öflun skatttekna. Ókosturinn við flata skatta er að þeir draga úr tekjutilfærsluáhrifum skattkerfisins.

Af og til skýtur upp kollinum umræða um hvort við Íslendingar eigum að taka upp flata skatta. Þessi umræða hefur alltaf komið mér nokkuð spánskt fyrir sjónir. Ástæða þess er að við erum nú þegar með mjög flatt skattkerfi, eitt það flatasta í hinum vestræna heimi. Þar að auki er hvimleitt að formælendur flatra skatta tala oft eins og flatir skattar hafi einungis kosti en enga galla.

Við útfærslu skattkerfis þarf í stórum dráttum að vega og meta tvö markmið. Annað markmiðið er að tekjuöflun ríkisins valdi sem minnstri óhagkvæmni. Hitt markmiðið er tekjutilfærsla frá hátekjufólki til lágtekjufólks.

Nokkur af mikilvægustu einkennum skattkerfa sem lágmarka óhagræðið sem hlýst af öflun tiltekins fjár með sköttum eru: 1) Eignaskattar og skattar á fjarmagnstekjur eiga að vera lágir, 2) Skattar á launatekjur eiga að vera flatir, 3) Skattar á neysluvörur eiga að vera flatir.

Skattar á launatekjur og virðisaukaskattur hafa mjög svipuð áhrif. Frá sjónarmiði hagkvæmrar skattlagningar má því leggja þá saman og hugsa um þá sem einn skatt. Það er því ekkert sem segir að skattprósentan á launatekjur eigi að vera sú sama og virðistaukaskattsprósentan. Reynsla flestra þjóða er að kostnaðarsamara sé að innheimta skatta á laun en virðistaukaskatt. Þau rök benda til þess að hagkvæmast sé að stærstur hluti skatttekna ríkisins sé aflað með virðisaukaskatti.

Íslenska skattkerfið er mjög nálægt því að vera eins gott og það getur orðið ef einungis er horft á markmiðið um lágmörkun óhagræðis. Eignaskattur verður lagður niður frá og með næstu áramótum. Fjármagnstekjuskattur er mjög lágur í samanburði við önnur vestræn ríki. Eftir að hátekjuskattur verður lagður niður við næstu áramót verður aðeins eitt tekjuskattsþrep á Íslandi. Flest önnur vestræn ríki hafa mörg skattþrep. Og á Íslandi er stærstur hluti tekna ríkisins aflað gegnum virðisaukaskatt. Allt er þetta í samræmi við fræðin.

Nokkur mikilvæg frávik eru hins vegar frá því að við Íslendingar búum við algerlega flata skatta. Hvað varðar tekjuskattinn eru stærstu frávikin persónuafsláttur, barnabætur, vaxtabætur og húsaleigubætur. Hvað varðar skatta á neysluvörur eru stærstu frávikin matarskatturinn, hin ýmsu vörugjöld, tollar og tollkvótar. Auk þessara atriða eru álagning stimpilgjalda verulegt frávik frá hagkvæmri skattlagningu.

Ókosturinn við það að íslenska skattkerfið sé eins hagkvæmt og raun ber vitni er að tekjutilfærsluáhrif kerfisins eru mun minni en í öðrum löndum. Margar af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á skattkerfinu á síðustu 10 árum hafa einmitt dregið úr tekjutilfærsluáhrifum skattkerfisins með það að markmiði að auka hagkvæmni þess. Þeir sem vilja gera íslenska skattkerfið enn flatara eru í stórum dráttum að tala um að fella niður persónuafsláttinn, barnabætur, vaxtabætur og húsaleigubætur. Það myndi draga enn frekar úr tekjutilfærsluáhrifum kerfisins. Með öðrum orðum væri slík aðgerð skattalækkun á hátekjufólk sem fjármögnuð væri með skattahækkun á lágtekjufólk.

Einn mikilvægasti grundvallarágreiningurinn milli “hægrimanna” og “vinstrimanna” er ágreiningurinn um það vægi sem gefa eigi markmiðinu um hagkvæma skattlagningu og markmiðinu um tekjutilfærslu. Þeir sem tala fyrir flötum sköttum eru í raun að segja að þeir telji að enn sé of mikil áhersla lögð á tekjutilfærslu í íslenska skattkerfinu.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.