Skipunarvandræði Bush

Sú ákvörðun George Bush að tilnefna Harriet Miers í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna vakti hörð viðbrögð ekki aðeins demókrata heldur einnig repúblikana. Meiri sátt virðist hins vegar ríkja meðal flokksbræðra Bush um skipan Samuels Alitos Jr.

Sú ákvörðun George Bush að tilnefna Harriet Miers í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna vakti hörð viðbrögð ekki aðeins demókrata heldur einnig repúblikana. Í þetta skiptið voru það þó ekki skoðanir þeirrar tilnefndu sem fóru fyrir brjóstið á íhaldsmönnunum – enda er Miers góður og gegn íhaldsmaður, kristin og fremur andsnúin rétti kvenna til fóstureyðinga. Það sem þeir höfðu meiri áhyggjur af var að Miers hefði ekki það sem til þyrfti og þá sérstaklega var talið að þekking hennar á stjórnskipunarrétti væri ábótavant.

Almennt er talið að John Roberts, nýskipaður forseti Hæstaréttar, hafi verið óvenju góður kandídat í réttinn. Hinn fimmtugi Roberts státar af glæstum ferli sem dómari, lögmaður og úr stjórnsýslunni. Núverandi Hæstaréttardómarar hafa frekar einsleitan bakgrunn og hafa þeir allir verið dómarar á neðri dómstigum. Eftir skipan Roberts voru þeir margir sem töldu að það gæti verið sterkur leikur hjá Bush að tilnefna fulltrúa minnihlutahóps, konu eða jafnvel einstakling af öðrum kynþætti en hvítum.

Bush brást við og þann 3. október síðastliðinn tilnefndi hann lögfræðing Hvíta hússins, Harriet Miers. Miers er bæði kona og bakgrunnur hennar er annar en þeirra dómara sem fyrir eru. Starfsferill Miers hefur verið glæstur og var hún fyrsta konan til þess að reka stóra lögfræðistofu í Texas og fyrsta konan til þess að gegna embætti forseta Lögmannafélags Texas. Þrátt fyrir þetta féllust fæstir á skipan Miers og varð meðal annars einum íhaldsmanninum að orði að Miers væri traust B plús manneskja. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur hins vegar hingað til ekki verið talinn staður fyrir B plús manneskju. Skipun Miers var of umdeild og óskaði hún eftir því þann 27. október síðastliðinn að losna undan henni.

Íhaldsmönnum var hins vegar mikið í mun að tilnefndur yrði skoðanabróðir þeirra. Of frjálslyndir dómarar skapa mikinn óskunda og hafa átt þátt í að banna bænahald í skólum og leyfa fóstureyðingar. Skipun dómara með íhaldsamar skoðanir yrði að ganga í gegn í valdatíð Bush svo ekki skapaðist hætta á að of margir framtíðardómarar – tilnefndir af framtíðarforsetum, jafnvel demókrötum – greiddu leið fyrir hjónaböndum samkynhneigðra og einhverju þaðan af verra.

Íhaldsamari armi repúblikana varð að ósk sinni með tilnefningu Bush á Samuel Alito Jr. Alito hefur verið dómari við áfrýjunarrétt í Philadelphia-ríki síðastliðin fimmtán ár. Á þeim tíma hafa íhaldsöm viðhorf Alito náð að skína í gegnum meira en 240 dómsúrlausnir sem hann hefur átt þátt í og þá einkum í þeim 41 sératkvæðum sem hann skilaði. Mörg sératkvæði Alitos vörðuðu borgarleg réttindi og bera ýmsar ákvarðanir hans jafnvel keim af að hann sé ekki of hallur undir réttindi kvenna. Forsvarsmenn stórra fyrirtækja geta hins vegar glaðst enda hefur Alito jafnan tryggt hagsmuni þeirra. Er talið að atkvæði hans komi þeim vel í málum í framtíðinni þar sem reynir á mismunun starfsmanna og í stærri málshöfðunum þar sem stórfyrirtæki eru dæmd til þess að greiða himinháar skaðabætur.

Skipun Alitos á þó eftir að hljóta náð þingsins og viðbúið er að þingmenn Demókrataflokksins streitist á móti. Fyrir Bush, sem á undir högg að sækja þessa dagana, skipta atkvæði meirihluta þingmanna, þingmanna Repúblikanaflokksins, meira máli. Verður fróðlegt að sjá hvernig þau falla.

Heimildir:

– The Economist.

– International Herald Tribune

– San Francisco Chronicle

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)