Vafasöm Vísindakirkja

Margir hafa heyrt um Vísindakirkjuna svokölluðu enda fjölmargir þekktir kvikmyndaleikarar meðlimir kirkjunnar. Færri vita þó fyrir hvað Vísindakirkjan stendur en kenningar kirkjunnar, sem meðal annars snúast um illa veru að nafni Xena, eiga ekkert skylt við vísindi.

Vísindakirkjan (Church of Scienctology) var stofnuð árið 1954 í Los Angeles af Lafayette Ronald Hubbard, sem var þekktur rithöfundur. Talsmenn Vísindakirkjunnar halda því fram að í dag séu alls átta milljónir manna meðlimir kirkjunnar í yfir 3000 söfnuðum í 120 löndum. Vísindakirkjan leggur áherslu á að fá þekkta einstaklinga til liðs við sig en meðal safnaðarmeðlima eru John Travolta og Tom Cruise. Það hefur valdið því að margir hafa heyrt á Vísindakirkjuna minnst, þó færri viti hins vegar fyrir hvað Vísindakirkjan stendur.

Safnaðarmeðlimir halda því fram að með því að fara eftir kenningum Vísindakirkjunnar megi læra leiðir til þess að vera betri einstaklingur, búa við aukin lífsgæði og öðlast skilning á andlegum málefnum. Þá telja fylgismenn kirkjunnar að kenningar Vísindakirkjunnar bjóði upp á lausnir við margs konar vandamálum og hefur Vísindakirkjan gefið út fjölmargar bækur þar sem fjallað er um málefni á borð við streitu, ofneyslu áfengis og hjónabandsörðugleika.

Samkvæmt kenningum Vísindakirkjunnar samanstendur einstaklingurinn af líkama, hug og anda. Andinn er það sem mestu máli skiptir en hann skiptist í tvennt, rökvitund og undirvitund. Áföll, erfiðleikar og vandamál sem mæta manninum á lífsleiðinni skilja eftir sig ör á undirvitundinni og til þess að losna við örin fara safnaðarmeðlimir í gegnum ákveðið viðtalsferli sem stýrt er af sérfræðingi í kennisetningum Vísindakirkjunnar. Viðtalsferlið er fyrirfram ákveðið og sérfræðingurinn spyr tiltekinna spurninga sem leiða eiga til þess að einstaklingurinn finni sjálfur lausn vandamála sinna. Í viðtalsferlinu er notaður sérstakt tæki, svokallaður E-mælir, sem sagður er nema vanlíðan einstaklingsins með því að mæla rafsegulviðnám líkamans. Markmið viðtalsferlisins er að losa einstaklinginn við örin á undirvitundinni þannig að hann geti komist á æðstu stig trúarinnar og náð fullkomnun.

Vísindakirkjan hefur reynt af fremsta megni að halda því leyndu hvað felst nákvæmlega í kennisetningum Vísindakirkjunnar og hvernig viðtalsferlið fer fram. Fjölmargir fyrrverandi safnaðarmeðlimir hafa þó birt lýsingar á aðferðum Vísindakirkjunnar þar sem meðal annars hefur komið fram að til þess að ná til nýrra meðlima bjóði Vísindakirkjan einstaklingum gjarnan að taka persónuleikapróf. Niðurstöður persónuleikaprófsins eru notaðar til þess að vekja athygli á ýmsum neikvæðum þáttum í fari og lífi einstaklingsins og bent er á að bæta megi úr því sem farið hefur úrskeiðis með því að ganga til liðs við Vísindakirkjuna. Í kjölfarið er viðkomandi einstaklingi boðið á sérstakt samskiptanámskeið á vegum Vísindakirkjunnar og að samskiptanámskeiðinu loknu er þáttakendum boðið á fleiri námskeið og jafnvel að gerast starfsmenn safnaðarins.

Á framhaldsnámskeiðunum þurfa þátttakendur að fara í gegnum átta stig til þess að öðlast fullkomnun og fyrir hvert stig þurfa þeir að greiða misháar upphæðir. Margir fyrrverandi safnaðarmeðlimir hafa lýst því að á fyrsta og öðru stigi hafi þeir þurft að fara í gegnum ýmsar þrautir á borð við að fara aftur og aftur yfir lista af orðum eða sitja á stól án þess að hreyfa sig svo klukkustundum skipti. Þátttakendur voru jafnframt hvattir til þess að tilkynna leiðbeinendum námskeiðisins um þá sem létu í ljós efasemdir um kennsluaðferðirnar og fyrirkomulag kennslunnar.

Á þriðja stigi er heimsmynd Vísindakirkjunnar yfirleitt kynnt fyrir þátttakendum. Í henni felst meðal annars að fyrir 75 milljónum ára hafi jörðinni verið stjórnað af illri veru sem kallast Xena, en allir íbúar jarðarinnar þjást í dag vegna hennar. Eina leiðin til þess að komast undan áhrifum Xenu er að fara í gegnum stig fjögur til sjö hjá Vísindakirkjunni. Því miður er ekki mikið vitað um hvað fram fer á áttunda stiginu og frásagnir um það misvísandi, enda þurfa þeir sem komast á það stig að hafa sýnt Vísindakirkjunni og kenningum hennar óbilandi hollustu og trúfesti.

Safnaðarmeðlimum Vísindakirkjunnar er talin trú um það að samsæri sé í gangi gegn Vísindakirkjunni og þeim eru kenndar aðferðir til þess að verjast ásökunum þeirra sem fylgja ekki kennisetningum safnaðarins. Í því felst meðal annars að hafa ekki samneyti við þá sem eru andsnúnir söfnuðinum. Fjölmargir einstaklingar og hópar hafa barist gegn Vísindakirkjunni og farið í mál við söfnuðinn, en Vísindakirkjan hefur varist harkalega og reynt að koma í veg fyrir að birtar séu upplýsingar um starfið. Þessi leynd sem hvílt hefur yfir starfi Vísindakirkjunnar hefur því miður valdið því að fæstir gera sér grein fyrir því að um vafasaman söfnuð er að ræða þar sem allt bendir til að safnaðarmeðlimir séu heilaþvegnir og féflettir.

Helstu heimildir:

www.wilkipedia.org

www.altreligionscientology.org

www.scientology.org

www.xenu.net

Latest posts by Drífa Kristín Sigurðardóttir (see all)