Veistu muninn á…?

Má auglýsa áfengi eða má ekki auglýsa áfengi? Má auglýsa bjór almennt en má ekki auglýsa einstaka tegundir? Má Ríkið auglýsa áfengi, en ekki umboðsaðilar og veitingastaðir? Hver má hvað eiginlega?

Endrum og sinnum á undanförnum dögum hafa heyrst í útvarpi auglýsingar sem hljóma einhvern veginn svona: “Veist þú muninn á bjór og lager? Nú standa yfir bjór/lager dagar í Vínbúðunum. Komdu og kynntu þér…”

Síðast þegar ég athugaði, þá voru Vínbúðirnar svokölluðu í eigu ríkinsins og betur þekktar undir nafninu “Ríkið”. Síðast þegar ég athugaði, var líka bannað að auglýsa og bjór og áfengi og ekki uppi á teningnum að breyta því á allra næstunni. Síðast þegar ég athugaði gilti það sama um almúga landsins, fólk og fyrirtæki, og ríkisrekin fyrirtæki.

Nú hafa reglulega komið upp mál þar sem umboðsaðilar og framleiðendur áfengra drykkja hafa verið kærðir fyrir að auglýsa vöru sína í fjölmiðlum og opinberum vettvangi. Niðurstaða þessara mála er ávalt sú sama; að þessir tilburðir gangi í berhögg við löggjöfina um bann við auglýsingar á áfengum drykkjum.

Það kann að vera að undirrituðum hafi verið að dreyma þessar auglýsingar þar sem ég hef ekki séð neina umfjöllum um þessi mál. Það kann líka að vera að ég sé að misskilja eitthvað. En ef svo er ekki, þá sé ég ekki betur en ríkisrekið fyrirtæki sé að ganga gegn löggjöfinni og því spurning hvort ekki beri að kæra athæfið.

Betri aðgerð væri e.t.v. að hætta þessu hálfkáki og gefa áfengissölu á bjór og léttvíni frjálsa og í leiðinni leyfa auglýsingar á þessum vöruflokkum annað hvort alveg eða að uppfylltum ákveðnum skilirðum.

Ég er nokkuð viss um að eitthvað hefði heyrst í þegnum landsins ef auglýsingin hefði hljómað: “Veist þú muninn á vindlum og vindlingum? Komdu og kynntu þér málið í sjoppum landsins í október. “

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)