Rosa Parks

Í gær lést Rosa Parks 92 ára að aldri. Nafn hennar varð áberandi í réttindabaráttu svartra í Bandaríkunum á 6. og 7. áratug seinustu aldar eftir að hún neitaði að standa upp fyrir hvítum manni í strætó eins og lög þess tíma kváðu á um. Þessi borgaralega óhlýðni vakti athygli umheimsins á þeirri niðurlægingu og grimmd sem fólst í kynþáttaaðskilnaðinum og í kjölfarið fylgdu mótmæli sem mörkuðu þáttaskil í réttindabaráttunni.

Í gær lést Rosa Parks 92 ára að aldri. Nafn hennar varð áberandi í réttindabaráttu svartra í Bandaríkunum á 6. og 7. áratug seinustu aldar eftir að hún neitaði að standa upp fyrir hvítum manni í strætó eins og lög þess tíma kváðu á um. Þessi borgaralega óhlýðni vakti athygli umheimsins á þeirri niðurlægingu og grimmd sem fólst í kynþáttaaðskilnaðinum og í kjölfarið fylgdu mótmæli sem mörkuðu þáttaskil í réttindabaráttunni.

Þann 1. desember 1955 var saumakonan Rosa Parks á leið til vinnu sinnar í strætisvagni Montgomery City Lines. Reglur kváðu á um að fyrstu fjórar raðir strætisvagnsins væru fráteknar fyrir hvíta, svartir máttu sitja í miðju-hlutanum þangað til hvítir þyrftu þau sæti en annars áttu svartir að sitja aftast. Ef það væru þeim mun fleiri hvítir sem þyrftu sæti áttu svartir að yfirgefa vagninn. Einnig máttu svartir ekki ganga framhjá fremstu sætunum ef hvítir sátu þar, heldur þurftu að borga fremst í strætisvagninum og ganga svo inn um hann að aftan. Þennan dag sat Rosa Parks í miðju-hlutanum ásamt þremur öðrum svörtum og þegar strætisvagnabílstjórinn skipaði þeim að færa sig aftar í vagninn fyrir einum hvítum manni hlýddu allir nema hún. Úr varð að lögreglan var kölluð til, Rosa Parks var handtekin og dæmd.

Kvöldið eftir þennan atburð hittust 50 leiðtogar úr samfélagi svartra til að koma sér saman um aðgerðir í kjölfar þessa. Sá sem leiddi þennan hóp var tiltölulega lítt þekktur babtistaprestur að nafni Martin Luther King. Ákveðið var að hvetja alla svarta til þess að sniðganga þetta strætisvagnafyrirtæki og gekk það eftir í 381 dag. Þessar aðgerðir þvinguðu að lokum fram að samgöngufyrirtækin breyttu reglum sínum og afnámu aðskilnað í almenningsvögnum. Þessi atburður varð einnig kveikja að mörgum fleiri mótmælum gegn kynþáttaaðskilnaði.

Rosa Parks var virkur meðlimur í samtökum svartra, NAACP (National Association for the Advancement of Colored People) áður en þessi atburður gerðist. Sumir vilja meina að þetta hafi verið skipulagt fyrirfram af NAACP og Rosa Parks hafi verið valin í þetta hlutverk. Nokkru fyrr höfðu samtökin byrjað að byggja mál í kringum svipað atvik þar sem 15 ára stúlka hafði neitað að gefa eftir sæti sitt í strætisvagni. En þegar í ljós kom að stúlkan var ófrísk var ákveðið að hætta við þar sem hún þótti ekki heppilegt tákn í baráttunni. Enn aðrir segja að hlutverk Rosu Parks innan NAACP hafi verið ýkt í sögunni og lýsa henni sem einstaklingi hvorki með pólitískan bakgrunn né þjálfun. Sjálf sagði Rosa Parks að hún hefði einfaldlega verið orðin þreytt á að láta traðka á réttindum sínum og þess vegna hafi hún neitað að gefa eftir sætið.

Árið 1956 úrskurðaði Hæstiréttur Bandaríkjanna í máli Rosu Parks að kynþáttaaðskilnaður í almenningsvögnum væri andstæður stjórnarskránni.

Rosa Parks hefur hlotið fjölda viðurkenninga gegnum árin fyrir hlutverk sitt í baráttu svartra. Undir lokin var hún farin að þjást af elliglöpum en meðan hún hafði heilsu til mætti hún á uppákomur og viðburði til að leggja málefnum lið með nærveru sinni þótt hún hafi ekki talað mikið opinberlega. Nafn Rosu Parks og þessi atburður mun lifa í sögunni sem eitt af táknum mannréttindabaráttu svartra í Norður-Ameríku.

Heimildir

www.nytimes.com

www.wikipedia.org

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.